Ofurlaun = ofurábyrgð

Ofurlaun = ofurábyrgð

Í átta ár var ég búsett í Svíþjóð þar sem ég þjónaði sem prestur. Á þessum árum fylgdist ég með stjórnmálum þar í landi og oft á tíðum þótti mér þau einkennast af of mikilli hörku og of lítilli fyrirgefningu. Fyrir nokkrum árum þurfti ráðherra þar í landi að segja af sér vegna þess að hún greiddi „óvart“ með vitlausu kredit korti þegar hún verslaði fyrir sjálfa sig.
Guðrún Karls Helgudóttir - andlitsmyndGuðrún Karls Helgudóttir
03. nóvember 2008

Í átta ár var ég búsett í Svíþjóð þar sem ég þjónaði sem prestur. Á þessum árum fylgdist ég með stjórnmálum þar í landi og oft á tíðum þótti mér þau einkennast af of mikilli hörku og of lítilli fyrirgefningu.

Fyrir nokkrum árum þurfti ráðherra þar í landi að segja af sér vegna þess að hún greiddi “óvart” með vitlausu kredit korti þegar hún verslaði fyrir sjálfa sig. Þegar Tsunami flóðaldan reið yfir vestur strönd Tælands og hundruðir Svía létu lífið, var utanríkisráðherranum fórnað. Hún var látin segja af sér og taka á sig sök sem margir aðrir báru að minnsta kosti jafn mikla ábyrgð á. Hún var talin hafa brugðist of seint við. Fólk var reitt og einhver þurfti að fara. Nokkrum vikum eftir að síðasta ríkisstjórn var mynduð fengu tveir ný- skipaðir ráðherrar að fjúka með aðeins nokkurra vikna millibili. Báðar voru þær grunaðar um minniháttar skattsvik. Önnur þeirra hafði greitt barnapíunni sinni “svart” en hin hafði greitt heimilishjálpinni sinni “svart”.

Mér þótti þetta full hart en þegar ég nefndi það við fólk var mér iðulega svarað sem svo að háum launum fylgdi ábyrgð og að ábyrgð fylgdi skyldur. Mér þótti þetta samt sem áður full harkalegt sér í lagi þar sem þetta fólk viðurkenndi allt að þeim hefði orðið á, að þau hefðu gert mistök. Sum þeirra báðust meira að segja afsökunar. Það er kannski allt í lagi að það fylgi sögunni að þetta voru allt saman konur.

Hér á Íslandi er þessu alveg öfugt farið. Hér er engum fórnað. Ég veit ekki til þess að stjórnmálafólk hafi sagt af sér síðustu árin vegna skattsvika eða annarra “mistaka”. Hér getur stjórnmálafólk meira að segja fengið dóm fyrir að skrifa vörur „óvart“ á vitlausan reikning en kemur svo bara tilbaka eins og ekkert hafi í skorist og er kosið aftur á þing, án þess að hafa beðist afsökunar.

Erum við Íslendingar svona góðir að við fyrirgefum fólki hvað sem er?

Nei, ég held að við séum meðvirk þjóð sem horfir aðdáunaraugum á þau sem “ráða”, þau sem hafa flottar stöður og þau sem eru rík og fræg. Við viljum kannski öll vera jafn valdamikil, rík og fræg eins og þetta fólk þótt við myndum seint viðurkenna það. Ég held að það sé meðal annars þess vegna sem við lítum alltaf undan þegar einhver valdamikil manneskja gerir mistök.

Nú hefur þessi ríkisstjórn og ríkisstjórnir síðustu ára gert stór mistök í stjórn sinni á landinu. Þetta var að sjálfsögðu óvart. Þau gerðu þetta að sjálfsögðu í góðri trú. Enginn gerir svona lagað viljandi.

Hvernig bregst okkar meðvirka þjóð við nú? Krefjumst við þess að fólki verði fórnað? Krefjumst við þess að fólk segi af sér? Krefjumst við þess að áhættufíklarnir sem réðust út, taki þátt í að borga brúsann? Eða horfum við í hina áttina eftir að hafa röflað svolítið og hringt einu sinni í þjóðarsálina?

Ég veit ekki. Við erum svo vön því að okkur sé sagt fyrir verkum af föðurlegum körlum sem hafa stjórnað landinu of lengi. Mótmælin eru reyndar háværari og ákveðnari en oft áður. Fólk sem hefur tapað peningum er jafnvel farið að hóta lögsóknum. Fólk er urrandi reitt.

Ekki hef ég enn séð eða heyrt um að nokkur hafi beðið þjóðina afsökunar og ég sakna þess. Ef þessi ríkisstjórn á að fá að sitja áfram er lágmark að hún biðji okkur afsökunar og spyrji okkur síðan hvort við viljum að hún stjórni áfram, gefi okkur færi á að kjósa sig, eða ekki.

Svíar hafa löngum verið full harkalegir við ráðafólk sitt og mér hefur þótt þeir geta lært margt af íslensku umburðarlyndi. Það sem Svíar hafa þó fram yfir Íslendingana er að fólk hefur ekki komið til baka inn í stjórnmálin fyrr en það hefur beðist afsökunar og viðurkennt mistök sín. Nú hef ég skipt um skoðun. Við Íslendingar erum ekkert umburðarlynd. Við erum bara meðvirk og svolítið illa upp alin. Hér þykir ekki flott að biðjast afsökunar en það þykir flott að vera með hroka.

Við ættum kannski að hætta að dást svona að þeim sem hafa völd og ríkidæmi og krefjast þess að fólk taki ábyrgð á gerðum sínum. Ef þú færð ofurlaun hlýtur þú að verða að taka ofurábyrgð. Var ábyrgðin ekki ástæðan fyrir laununum? Það er mikilvægt að vera umburðarlynd og afar mikilvægt að geta fyrirgefið. En það er ekki síður mikilvægt að vera svolítið auðmjúk og geta beðist afsökunar þegar okkur verður á, að geta viðurkennt sekt okkar. Kristur kenndi okkur ýmislegt um fyrirgefninguna en hann boðaði ekki kúgun. Hann hjálpaði krepptri konu að rétta úr sér. Hann gaf blindum sýn og hann reiddist óréttlæti.

Hvað myndi Kristur gera í okkar sporum nú?