Að springa af gleði

Að springa af gleði

Meistari Marteinn Lúther komst svo að orði um fagnaðarboðskapinn: “Ef ég gæti trúað þessu þá myndi hjarta mitt springa af fögnuði og ég stæði á haus af gleði.” Honum reyndist erfitt að trúa vegna þess að boðskapur englanna er of góður til að vera sannur finnst okkur mönnum. En í því er Guð okkur algjörlega ósammála. Þetta var hans hugsun, orð og verk fyrir okkur, til þess að við öðluðumst, fengjum, gætum tileinkað okkur, gleðina: „Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós!“

Gleðileg jól! Jólanóttin boðar okkur mikinn fögnuð. Gleðin hefur breiðst út, fest sig í sessi í venjum og siðum, meðal þjóða og hjá fjölskyldum, í smáræði, mynd, sem á að vera á ákveðnum stað í húsinu, ljósum, hér og þar og allstaðar, skreyttu jólatréi á sínum stað, í mat, ilmurinn vekur hjá okkur góðar tilfinningar, jólagleðina, sem er þetta allt en mest þessi innilega tilfinning, sem auðgar okkur, vegna þess að hún er á milli okkar, í fjölskyldunum, í kirkjunni, í samfélaginu. Jólagleðina sendum við á milli okkar með kveðjunni: Gleðileg jól! En einnig með því að gleðja með gjöfum, góðum hugsunum og verkum.

Jólanóttinn boðar okkur mikinn fögnuð, gleði, sem ástæða er til að halda í, viðhalda og efla á meðal okkar, vegna þess að hún á rætur í lífinu sjálfu, ljósinu, sem vekur hjá okkur von og kraft til nýrra hluta, þó að allt sé það á gömlum merg, byggt á sögu, frásögu af ferðalagi karls og konu fyrir löngu. Merkilegt að þetta litla atvik í fjarlægri borg eða þorpi skuli vera ástæða gleðinnar miklu á jólanótt.

Meistari Marteinn Lúther komst svo að orði um fagnaðarboðskapinn: “Ef ég gæti trúað þessu þá myndi hjarta mitt springa af fögnuði og ég stæði á haus af gleði.” (Sigurjón Árni Eyjólfsson, Guðfræði Marteins Lúthers: 445). Honum reyndist erfitt að trúa vegna þess að boðskapur englanna er of góður til að vera sannur finnst okkur mönnum. En í því er Guð okkur algjörlega ósammála. Þetta var hans hugsun, orð og verk fyrir okkur, til þess að við öðluðumst, fengjum, gætum tileinkað okkur, gleðina: „Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós!“

Og Lúther hefur þessa tilfinningu frá Lúkasi guðspjallamanni sem skrifaði jólaguðspjallið. Lúkast var líka að springa af gleði þegar hann skrifaði það, þessa vegna er það svona skemmtilegt eins og raun ber vitni. Það finnst mér alveg augljóst.

Í allri forsögunni, inngangi guðspjallsins, iðar Lúkas af gleði. Frásaga hans er vönduð, liðug og létt. Listamennirnar sem gerðu steindu gluggana hér í kór kirkjunnar túlka þessa fyrstu kafla guðsjallsins á litríkan hátt. Og um leið og við hugleiðum þetta mál um stund skulum við virða fyrir okkur Maríugluggana, fyrstu þrjá gluggana hér í kórnum. Það er gaman að hafa slíka jólaskreytingu fyrir augunum.

1. GLEÐI Í FRÁSÖGU OG LOFSÖNG Lúkas vandaði skrif sín þegar hann tók sér það fyrir hendur “að rekja sögu þeirra viðburða, er gerst hafa á meðal okkar”, eins og hann segir. Hann athugaði kostgæfilega heimildirnar. Það er ljóst að hann hefur rætt við Maríu móðir Jesú, hann skrifar: “En móðir (Jesú) geymdi allt þetta í hjarta sér.” (2. 51).

Auðvitað er í jólaguðspjallinu gleði móðurinnar yfir því að fæða barn inn í heiminn. Mikil er sú gleði eftir erfiði fæðingarinnar! En engillinn sem birtist Maríu er að segja meira en það. Hann boðaði henni að hún skyldi fæða son og ætti að láta hann heita Jesús sem þýðir Guð frelsar. Við sjáum þennan viðburð í fyrsta glugganum. Eftir tvö þúsund ára kristni skiljum við orð engilsins betur um að sonur Maríu mundi ríkja að eilífu, en hvernig hljómaði það í eyrum hennar fyrst, sem hafði ekki einu sinni efni á að kaupa sér almennilega fórn til hátíðarinnar.

María flytur okkur lofsöng sinn sem kirkjan hefur svo sungið alla tíð síðan, stundum án þess að gera sér grein fyrir þeim krafti og afli, þeim kröftuga boðskap, sem þar er á ferðinni: “Valdhöfum hefur (Guð) steypt af stóli og upp hafið smælingja”. Lúkas talar um boðskap fyrir fátæka.

2. GLEÐI YFIR VELÞÓKNUN GUÐS Jólasagan fyrsta byrjar með því að nefna æðsta mann veraldar í þá daga. “Það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina”. Það varð til þess að Jósef og María fóru til Betlehem. Þegar hér er komið sögu fer nú gamanið dálítið að kárna. Við minnumst þessa mikla keisara meira út frá jólaguðspjallinu en öðrum verkum hans, þó að hann hafi látið færa sér fórnir sem guð væri. En Jesú-barnið er tilbeðið sem Drottinn og frelsari af kristninni í nótt, eins og undanfarnar aldir, Hann, sem fæddist þarna ef til vill á torginu þar sem ferðafólkið hafðist við þar sem jatan stóð fyrir utan gistihúsið.

Annar glugginn dregur upp mynd af Jesúbarninu sem blessar fólkið sem kemur til að vitja hans og heiðra. Þarna eru hirðarnir komnir. Ekki voru þeir ofarlega í mannfélagsstiganum. En Guðs engill birtist þeim á völlunum. Boðar þeim mikinn fögnuð sem veitast mun öllum: “Ykkur er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs”. Þeir eiga að fara til Betlehem og finna barnið reifað og liggjandi í jötu. Hvað þeir gera. Og þeir finna allt í einu til sín að þeir eru ekki úrkast mannfélagsins heldur mikilvægar manneskjur í augum Guðs.

Það er gleðilegi jólaboðskapurinn og ögrun við alla valdahafa allra tíma. Og reyndar köllun Guðs til allra sem standa ekki neðst í mannfélagsstiganum.

3. GLEÐIN YFIR OPNUM HIMNI Jólasaga Lúkasar er miklu margslungnari en virðist í fyrstu. Kraftur hennar og afl er ekki síst fólgin í því að hún lyftir okkur upp úr hversdagslegum vana. Opnar fyrir okkur himneskar víddir tilverunnar. Þess vegna allt þetta tal um engla. Og þarna sleppir Lúkas sér á vald gleðinnar í frásögu sinni. En ég trúi því reyndar að hann sjái Maríu fyrir sér þar sem hún segir honum frá því þegar hirðarnir komu, gjörsamlega yfirkomnir af einhverju annars heims, himnarnir höfðu opnast þeim, þar var fjöldi himneskra fylkinga sem lofuðu Guð:

“Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum!”

Virðum fyrir okkur miðgluggan í kórnum. Hann slapp úr sprengiregni í síðari heimstyrjöldinni þegar Dómkirkjan í Coventry var lögð í rúst en gluggunum hafði verið forðað úr kirkjunni. Þessi gluggi endaði hér fyrir handleiðslu Guðs, trúi ég. Síðastliðið vor kom hér öldungur Kanon Kenyon Wrigth einn af leiðtogum og frumkvöðlum Coventry sáttar- og friðarhreyfingarinnar með kveðju frá söfnuðinum í Coventry. Taldi gluggann vera á góðum stað hér yfir altarinu. En í ræðum sínum benti hann á að við værum að ganga á móts við nýja tíma, gamli heimurinn verði ekki endurreystur, við horfum sem mannkyn á móts við stórkostleg verkefni, umhverfis- og friðarmál, árangri verðir ekki náð nema í trú á friðarins Guð.

4. GLEÐIN YFIR AÐ FAÐMA GUÐ Boðskapur jólanna er okkur besta leiðsögnin til lífsins og ljóssins, öldungurinn Símeon, með Jesús-barnið í fanginu, fagnaði og gladdist yfir hjálpræðinu sem hann hjélt á. Hann er sú fyrirmynd sem við okkur blasir.

Ef við berum saman þessa tvo glugga um fæðinguna og Símeon þá draga þeir upp fyrir okkur gleðiefnið mesta á litríkan og lifandi hátt, María heldur á Jesúbarninu, frelsari heimsins hvílir í faðmi Símeons. Lúther sem var alltaf að springa af gleði yfir jólaboðskapnum meitlaði hugsunina út í jólasálmi, þessu versi:

Og oss til merkis er það sagt: Í aumum reifum finnum lagt það barn í jötu’, er hefur heim í hendi sér og ljóssins geim.

Mynd jólanna af Maríu með Guðs son í höndum sínum sem blessar okkur, áramótanna af Símeon með Jesú í faðmi sínum, felur þetta í sér. Þegar við föðmum að okkur barnið, trúarlega talað, í bæn, eins og María gerði í raun og veru, faðmar Guð faðir okkur að sér í alvöru, við erum hans um eilífið, ekkert getur skilið okkur frá honum.

Í jólasögunni fyrstu, sem hefur yfir sér nær ævintýralegan blæ, þó með skýrskotun til veraldarsögunnar, birtist okkur þetta gleðiefni mesta, í undri, sem við tilbiðjum, en náum ekki að skilja, því Guði datt það í hug, að koma til okkar sem barn, til að sýna okkur svo ekki verði um villst, að hann elskar, í grunni tilveru okkar er faðmur, Guð, sem elskar. Yfir bænum okkur slær hjarta, fyrir okkur, fyrir heiminum öllum. Það er gleðiefnið mesta og aflið til nýrrar framtíðar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.