Ég trúi

Ég trúi

Jólin nálgast og ég hlakka til að fá pakka. Hlakka til að setjast niður við matarborðið með fjölskyldunni. Þannig eru jólin og ég nýt þeirra. Ég nýt þess að fá pakka af því að þeir eru frá fólki sem er mér kært og ég nýt þess að setjast niður við matarborðið því að við höfum meiri tíma fyrir samfélagið við matarborðið heldur en yfirleitt í amstri hversdagsins.

Jólin nálgast og ég hlakka til að fá pakka. Hlakka til að setjast niður við matarborðið með fjölskyldunni. Þannig eru jólin og ég nýt þeirra. Ég nýt þess að fá pakka af því að þeir eru frá fólki sem er mér kært og ég nýt þess að setjast niður við matarborðið því að við höfum meiri tíma fyrir samfélagið við matarborðið heldur en yfirleitt í amstri hversdagsins.

En ég vil fyrst og fremst nota jólin til þess að gleðjast yfir fæðingu Jesú. Ég kýs að fylla þennan ramma sem jólin eru með gleði minni yfir fæðingu frelsarans. Og þá á ég við þann atburð þegar Guð varð maður, bjó með mönnum, varð fyrirmynd og vinur manna í Jesú, leið kvalir og pínu sem Jesú, mannanna vegna, lét lífið og reis upp aftur í krafti Heilags Anda.

Og það er þessi Jesú sem skiptir höfuðmáli. Ég tel mig hafa verið heppinn að fá að alast upp við kristna trú. Trúin var sjálfsagður hlutur lífsins þegar ég var að alast upp í Þorpinu á Akureyri. Barnatrúin mín varð til og fyrir mér var það sjálfsagt að trúa á Guð. Þannig tel ég mig hafa verið heppinn. Sem slík mótaði barnatrúin ákveðinn grunn hjá mér fyrir viðhorf mitt til lífsins og jákvæðrar afstöðu til þess Guðs sem ég trúi á í dag.

Guð var engin Grýla þegar ég var að alast upp. Foreldrar mínir misnotuðu Guð ekki sem uppeldisaðferð, beittu ekki setningum eins og ,,gættu að þér hvað þú gerir, Guð sér til þín"

Guð var enginn Leppalúði þegar ég var að alast upp. Mér þótti vænt um hann og lærði að gera ekki grín að honum. Hann var mér kær sem foreldri og vinur.

Guð var enginn jólaköttur þegar ég var að alast upp. Ég lærði að Guð fór ekki í manngreinaálit, allir voru jafnir fyrir honum.

Guð var enginn jólasveinn þegar ég var að alast upp. Ég lærði að Guð heyrði bænir mínar en að undirstaða bænanna væri ,,Guð, verði þinn vilji", lærði að viska hans var stærri en viska mín og fól því mig í hans hendur.

Síðan þá eru liðin nokkur ár. Í dag er ég sjálfur orðinn fjölskyldufaðir og reyni eftir fremsta megni að standa mig í foreldrahlutverkinu. Á þessum árum sem hafa liðið þarna á milli hefur trú mín verið misjöfn, stundum jafnvel meira eða minna týnd.

Ég hef kosið sjálfum mér það hlutverk að reyna eftir fremsta megni að lifa lífi trúaðs einstaklings. Ég trúi því að þetta val mitt sé um leið Guðs gjöf. Ekki sjálfsagður hlutur sem ég gat valið einn, tveir og nú, heldur afrakstur samskipta, samfélags Guðs við mig. Sú viðleitni mín að lifa sem kristinn einstaklingur hefur ekki á nokkurn hátt gert mig að meiri manni, né gert mig á einhvern hátt fullkomnari. Ég er ennþá þessi sami Pétur. Mér verða á mistök, ég særi aðra, er tillitslaus, þykist yfir aðra hafinn, þykist vita betur, gleymi loforðum, segi ósatt, valta yfir aðra, gleymi að biðjast fyrirgefningar. Og einmitt þess vegna krýp ég við jötu Jesúbarnsins, því að í honum er von mín falin. Og á hverjum degi minni ég sjálfan mig á þann ásetning minn að leyfa Jesú að vaxa í mér. Segi við sjálfan mig: ,,Pétur, þú átt að minnka, Jesús, á að vaxa í þér".

Ekki svo að skilja að ég álíti sjálfan mig getulausan og hæfileikasnauðan. Síður en svo. Guð hefur gefið mér margskonar hæfileika og veitt mér tækifæri til þess að þroska þessa hæfileika enn frekar. Þessa hæfileika hef ég þegið frá honum. Þeir eru Guðs gjöf. Og það er því ábyrgð mín að nýta þessa hæfileika svo vel sem ég kann og get. Ég ætla mér að halda áfram að takast á við þessa áskorun.

Einn af textunum sem lesnir eru á aðventunni er úr Filíppíbréfi Páls postula (4, 4-7):

Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir. Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.

Í þessum texta er að finna nokkrar áskoranir sem mér langar til þess að takast á við. Guð hefur gefið mér þann hæfileika að brosa. Hann hefur gefið mér þann möguleika að hlæja, vera kátur, umgangast aðra þannig að þeim líði vel í návist minni. Þannig að boltinn er hjá mér, nú er komið að mér að sýna gleðihliðina. Í þessum texta er ég líka hvattur til þess að hafa ekki áhyggjur heldur leggja hlutina í hendur Guðs í því trausti að hann muni vel fyrir sjá. Í stressi nútímans er ekkert jafn afslappandi eins og að segja: Guð, taktu við!

Þar með hef ég ekki afsalað sjálfum mér ábyrgðina. Ég get ekki látið eins og að mér komi málið ekki lengur við eftir að ég hef sagt: Guð, taktu við! Þá fyrst hefst hlutverk mitt. Og hlutverkið felst í því að leyfa honum að vísa mér veginn svo að viðkomandi verkefni fái farsæla lausn.

Ætli það sé ekki einmitt hér sem barnatrúin á heima sem inneign í trúarbankanum og trú hins fullorðna einstaklings tekur við. Ég geng skrefi lengra. Þótti mér áður gott að vera umvafinn kærleika Guðs sem hlýfði mér og passaði mig þá er áskorunin núna sú að fara út úr hlýjunni og takast á við þau verkefni sem bíða mín. Í þeirri fullvissu að Guð er með mér en hann hefur gefið mér þá hæfileika sem ég þarf til þess að leysa viðkomandi verkefni.

Sumir glotta í laumi, einstaka hlæja að mér, en flestir taka því vel þegar ég segi þeim, aðspurður, umbeðinn, af gefnu tilefni, frá trú minni. Eiginlega svipuð viðbrögð eins og ég fæ þegar ég segi frá því að ég drekki ekki áfengi. En þessar ákvarðanir hef ég tekið fyrir sjálfan mig. Vel má vera að þetta sé sérviska. Það hefur reyndar alltaf farið mér vel að vera sérvitur. Og hvað trúnna varðar þá ætla ég að halda þeirri sérvisku áfram svo lengi sem Guð leyfir.

Mér þykir það sárt þegar Guði er breytt í Grýlu, því haldið fram að börn, unglingar og fullorðið fólk trúi á hann því að þau þori ekki annað eða óttist afleiðingar þess að trúa ekki á hann.

Mér þykir það sárt þegar Guði er breytt í Leppalúða. Hann er mér og þeim sem á hann trúa kær, rétt eins og eiginkonu þykir eiginmaður sinn kær og því særir það mig þegar aðrir nota málfrelsi sitt til þess að hæðast að trú minni og þeim Guði sem ég trúi á.

Mér þykir það sárt þegar Guði er breytt í jólakött og fæðing frelsarans notuð út í ítrustu æsar til þess að hvetja fólk til innkaupa á dýrum og miklum gjöfum eins og að jólin komi ekki án þess.

Mér þykir það sárt þegar Guði er breytt í jólasvein og orðum hans snúið á ýmsa vegu allt eftir því hvað hentar hverju sinni.

Mér er ljóst að sú ákvörðun mín að halda mig við þá sérvisku að trúa á Guð, Jesú, Heilagan Anda gerir mig auðsæranlegri. Eða kannski er ég bara svona ofurviðkvæmur?