Steinninn á götunni

Steinninn á götunni

Er kirkjan lík steini á götunni með fjársjóði undir, en margir leiða ekki hugann að því að snerta, fyrr en hann er horfinn, en spyrja þá af undrun, jafnvel reiði: „Hvar er steininn“? „Ég vil hafa hann á sínum stað“.

Ég ætla að segja ykkur sögu. Í litlu þorpi fyrir mörgum árum bjó aldraður einstæðingur. Hann hafði látið lítið fyrir sér fara um ævina, verið vinnusamur og skyldurækinn og lifað spart og átti enga ættingja sem voru honum nákomnir. Hann fann, að senn yrðu dagar sínir taldir. Hann fór því i bankann og tók út allan sinn sparnað upp á margar milljónir, bjó um peningana í kassa, fór um nótt með kassann undir hendinni út á miðja aðalgötuna í þorpinu, en þá voru engar götur malbikaðar, gróf holu ofan í götuna, setti kassann með peningunum ofan í holuna og skrifaði stórum stöfum á: „Þú veltir steininum og fjarlægðir. Þess vegna eru peningarnir í kassanum þín eign“. Svo setti maðurinn stóran stein yfir.

Daginn eftir tók fólkið eftir steininum á götunni, en hafði ekki mörg orð um hann, heldur sveigði framhjá, hvort sem það fór um gangandi, hjólandi eða á bifreiðinni sinni. Og þannig gekk það til dögum, vikum og mánuðum saman. Maðurinn dó, en steinninn var enn á sínum stað eins og minnisvarði á götunni, og allir orðnir snillingar í að fara listilega yfir eða framhjá. En engum kom til hugar að fjarlægja steininn, og lífið hélt áfram sinn vanagang í þorpinu.

Svo gerðist það, að fötluð stúlka á hækjum, sem bjó í þorpinu, var að fara yfir götuna. Þegar hún fór framhjá steininum, þá rakst önnur hækjan óvart utan í steininn og hann valt um og þá blasti kassinn við ofan í holunni. Og fatlaða stúlkan varð eigandi að öllum peningunum sem hinn aldni einstæðingur hafði sett ofan í holuna og steininn yfir.

Svo klóruðu hinir þorpsbúarnir sér í höfðunu og hugsuðu hver um sig:

„Æ, ég ætlaði alltaf að færa þennan stein í burtu,- en, en og en......“

Eru stundum svona steinar á okkar götum sem blasa við, en látum afskiptalausa? Er trúin eins og svona steinn sem við látum í léttu rúmi liggja eða kirkjan?

Þegar ég hugsa til bernsku minnar, þá var skólinn stundum svona eins og þessi steinn. Mér fannst ég oft verða vera í skólanum fyrir kennarana eða foreldra mína, en áttaði mig ekki á, að skólinn væri fyrir mig og vildi allt fyrir mig gera. Að skólinn væri fyrir mig algjör fjársjóður, og ég þyrfti bara að velta steini úr mínu eigin höfði, svo ég gæti séð það.

Í tíma og ótíma eru okkur að bjóðast tækifæri eins og steinninn á götunni vitnar um. Oft erum við svo dofin í vananum, að við tökum ekki eftir tækifærunum sem blasa við. Skortir frumkvæði. En svo skortir ekki frumkvæðið um að gera eitthvað nákvæmlega eins og allir aðrir eru að gera, að fylgja fjöldanum, að vera með í straumnum.

Ég skrapp til Berlínar í síðustu viku og fór m.a. á tónleika með Nönu Mouskouri, hinni grísku og heimsfrægu áttræðu söngkonu og fimm manna hlómsveit sem spilaði undir. Það var sannarlega falleg stund í troðfullu húsi þar sem mikið var klappað og fagnað. En þá var mér hugsað heim, hingað í prestakallið mitt, hingað í kirkjuna. Mikið dásamleg menning og upplifun er það, að mega njóta tónlistarinnar sem hér er flutt, söngurinn hjá kórfólkinu, kórstjórnin og organistinn á hlóðfærinu, allt vel gert og fallegt. Mikil menning er það. Er kirkjan lík steini á götunni með fjársjóði undir, en margir leiða ekki hugann að því að snerta, fyrr en hann verður horfinn, en spyrja þá af undrun og jafnvel reiði: „Hvar er steinninn“? „Ég vil hafa steininn á sínum stað“.

Eitt frægasta tónskáld allra tíma, Johann Sebastian Bach, frumflutti sín verk gjarnan í kirkjunni, þar sem hann var organisti, oft fyrir hálftómu húsi. Enda skrifaði hann á nótnablöðin: „Guði einum til dýrðar“. Í dag, öldum seinna, eru fá verk oftar leikin, en einmitt eftir Bach og sem kalla fleiri til að njóta á tónleikum, í guðsþjónustum og við ýmiss tækifæri.

Það er betra að vera vitur eftirá, heldur en að verða það aldrei.

Nana Mouskouri lauk tónleikum sínum með því að syngja, án undirleiks og ekki í hjóðnema, lag sem henni var kærast allra laga, vers sem móðir hennar söng yfir henni við rúmstokkinn, þegar hún var lítil. Þetta var það sem hjarta hennar stóð næst, þrátt fyrir alla heimsfrægð, auð og vinsældir.

Mér er minnisstætt viðtal sem ég sá í sjónvarpi í utlöndum við breskan, hermann, sem var að lýsa reynslu sinni úr stríðinu í seinni heimsstyrjöldinni. Þar sagði hann berum orðum, að sunnudagaskólinn í kirkjunni hefði bjargað lífi sínu og andlegri heilsu. Hann hefði ekki lifað neinu sérstöku trúarlífi, en sótti sunnudagaskólann, þegar hann var yngri. En í stríðinu, þegar hörmungarnar riðu yfir allt um kring, þá hefðu bænaversin úr sunnudagaskólanum sprottið fram í huga hans og söngvarnir þaðan fram úr hjartanu í miðjum stríðsátökunum. Þá var gott að eiga Guð, þá var gott að eiga reynslu af samtali við Guð.

En ef alltaf er hoppað yfir steininn sem hylur Guð, einmitt á meðan allt leikur í lyndi, er þá á mis farið við dýrmætan fjársjóð? Kirkjan er eins og steinn í götunni. Hún er á sínum stað og breiðir út faðminn og býður alla velkomna. Hún er eins og tækifæri í boði, hér og nú. Hennar boð er að auðga mannlífið. Ekki einungis fyrir stund og stað, heldur til að leggja grunn að farsæld, rækta gæði í fjarsóð fallegrar reynslu og minninga. Víst gegna hinar hefðbundnu athafnir skírn, ferming, hjónavígsla og útför dýrmætu hlutverki, eru eins og hyrningarsteinar í samfélagsbyggingunni. En þessar athafnir nærast á, að messað sé reglulega í kirkjunni, í sunnudagaskólanum, guðsþjónustunni og öðru starfi sem ræktar trúna. Það eru sannarlega tækifæri til að auðga menningu og samfélag, rækta hið fagra og góða.

Guðspjallið sem ég las og helgað er þessum sunnudegi fjallar um hvað sé leyfilegt að gera á hvíldardegi. Í lögmáli Gyðinga voru skráðar nákvæmar reglur um hvernig fólk ætti að haga sér og hvað mætti gera og ekki gera. Hvíldardagurinn er heilagur og settar voru reglur um, að fólk mátti nánast ekkert gera á þeim degi. Farísear og fræðimenn gengu hart eftir að við þetta væri staðið. Jesús átti oft í deilum við þá um þetta og boðaði að hvíldardagurinn væri fyrir manninn en ekki fyrir Guð.

Guðspjallið segir frá því, að Jesús hafi læknað veikan mann og einmitt á heimili eins af höfðingjum Farisea og spyr: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi“? Svo leggur Jesús fyrir þá dæmi úr daglega lífinu um það hvort þeir myndu ekki bjarga asna eða nauti sem fallið hefði ofan í brunn á hvíldardegi?

Það ber á humor í þessari frásögn, jafnvel kaldhæðni? Björgum við ekki lífi hvenær sem er? Látum við formfestu, kreddur eða bókstafshyggju koma í veg fyrir það?

Kjarninn í boðskap Jesú og í kristinni trú er alltaf virðingin fyrir lífinu. Þú skalt elska Guð og þú skalt elska náungann. Kærleikurinn sem umvefur lífið og þráir hið góða, fagra og fullkomna. Jesús beið ekki til næsta dags, eða frestaði enn lengur, að færa steininn úr götunni og lækna manninn, opna honum fjarsjóð lífs og gæða. Og við myndum gera það líka, sérstaklega þegar slys bera að, þá eru allir til þjónustu reiðubúnir.

Það hefur einkennt íslenskt gildismat að láta hendur standa fram úr ermum þegar í nauðirnar rekur. En er það þá of seint? Mörg eru tækifærin sem eru núna, en koma ekki aftur. Sagan af steininum á götunni er táknræn fyrir það. Það var hækja fatlaðrar stúlku sem velti loks þeim steini, óvart, eins og af tilviljun. Steinninn hafði enga aðra merkingu haft en að vera fyrir, til óþæginda, en ekki nóg til að nokkur maður safnaði þreki til að færa hann burtu.

En skyndilega, á augabragði, var þetta orðinn dýrmætasti steinninn í þorpinu þennan dag. Og líklegt að steinar á götum í því þorpi hafi ekki fengið mikinn frið næstu misserin, eða þar til doði vanans tók aftur völdin.

Enginn veit um sína framtíð, en stundin, sem við lifum, er núna. Hún er óumræðilega dýrmæt og megum við njóta vel. Það gerum við sannarlega hér í kirkjunni núna. Guði séu þakkir fyrir það. Í dag veltum við steini með því að koma hér, lofa Guð, þakka og njóta samvista með hvert öðru, umvafin Guðsorði og fallegum söng. Það er menning og falleg rækt við lífið. Í Jesú nafni Amen.