Evrópskir kirkjudagar

Evrópskir kirkjudagar

Eitt helsta einkenni slíkra hátíða kaþólskra og evangelískra kristinna í Þýskalandi hefur verið virk þátttaka leikmanna og bein aðkoma safnaða kirknanna án afskipta kirkjustjórnarinnar. Ætlunin er að halda þessum einkennum á fyrstu evrópsku kirkjudögunum.

Evrópskir kirkjudagar eða „European Christian Convention“ gætu orðið að veruleika innan tíu ára miðað við þær undirtektir sem hugmyndin hefur þegar fengið. Fundur fulltrúa ýmissra kirkjudeilda frá 20 löndum Evrópu sem haldinn var í Þýskalandi nýverið hvetur til þess að kirkjur og kristileg samtök í Evrópu taki höndum saman og boði til samveru sem ítreki samstöðu kristni í anda þeirra ekumenísku kirkjudaga sem þegar hafa verið haldnir í Þýskalandi.

Samtökin að baki evangelísku kirkjudaganna í Þýskalandi boðuðu til fundarins undir yfirskriftinni „On the way to a European Kirchentag“ og þekktust 60 manns boðið. Á fundinum varð til vegvísir (e. roadmap) sem gefur tóninn hvað stefnumótun og vinnulag varðar. Kirkjunnar fólk í Evrópu er hvatt til að bregðast við hugmyndinni og skila inn viðbrögðunum í október á þessu ári.

Eitt helsta einkenni slíkra hátíða kaþólskra og evangelískra kristinna í Þýskalandi hefur verið virk þátttaka leikmanna og bein aðkoma safnaða kirknanna án afskipta kirkjustjórnarinnar. Ætlunin er að halda þessum einkennum á fyrstu evrópsku kirkjudögunum. Ákallið um viðbrögð snýr því ekki síður að leikmannahreyfingum og Leikmannastefnu og einstaka söfnuðum. Hvert er hlutverk hins kristna einstaklings í því evrópska samrunaferli sem nú á sér stað? Hvaða leiðir geta kristnir einstaklingar með mismunandi menningarbakgrunn og frá ólíkum kirkjudeildum fundið til þess að eiga saman andlega uppbyggjandi stundir? Hvernig getur hið kristna samfélag brugðist við þeim áskorunum sem veröldin stendur frammi fyrir? Peter Annegarn, kaþólikki frá Belgíu og formaður ráðstefnu evrópskra Leikmannastefna hafði eftirfarandi þar að lútandi að segja: „Allir kristnir einstaklingar ættu að vera saltið í Evrópu. Evrópa þarfnast þess að mannleg gildi verði fundin upp að nýju og hér getum við í sameiningu lagt hönd á plóg.“ Undir þetta tekur Christina Aus der Au, reformeraður guðfræðingur frá Sviss og forseti evangelísku Kirkjudaganna 2017 sem haldnir verða í Berlín: „Á tímum sundrungar tökum við höndum saman í leitinni að eigin evrópskum og ekumenískum leiðum sem skila okkur „Kirkjudögum Evrópu“.

Næsti fundur óformlegs undirbúningshóps sem í eiga sæti fulltrúar frá Frakklandi, Bretlandi, Rumeníu, Grikklandi, Finnlandi, Belgíu, Þýskalandi og Sviss er áætlaður á næsta ári.

Nálgast má vegvísinn á vefslóðinni https://dxz7zkp528hul.cloudfront.net/production/htdocs/fileadmin/dateien/austausch/Roadmap_to_a_European_Christian_Convention.pdf en þar er meðal annars að finna upplýsingar hvert skila eigi viðbrögðum við hugmyndinni.