Almannagæði

Almannagæði

Það er alveg ljóst af vitnisburði Biblíunnar í heild og m.a. af ritningartextum dagsins í dag að það er Guðs vilji að allt fólk hafi aðgang að almannagæðum.

Hafið þið tekið eftir því hvað við erum upptekin af því að eiga hluti. Það að eiga eitthvað sjálfur og einn er í okkar huga miklu meira virði heldur en að eiga eitthvað með öðrum. Samt er það þannig ef við hugsum út í það að allt sem mestu máli skiptir í lífinu, þau atriði sem raunverulega er ekki hægt að vera án eigum við með öðrum. Hugsið ykkur t.d. ef ég ætti bara mitt eigið tungumál og væri hér að tala það núna. Ástæða þess að við erum að skilja hvert annað hér og nú og erum t.d. á leiðinni að fara að heyra fermingarbarnið Sólon Björn svara spurningunni stóru er sú að við eigum tungumál saman. Tungumálið sem við erum að nota var hérna áður en við fæddumst og það verður hér eftir að við öll með tölu erum horfin yfir móðuna miklu. Án tungumáls væri líf okkar aumt og það hefur lítið að segja að kunna tungumál ein. Tökum annað dæmi: Fegurð náttúrunnar. Við erum búin að njóta dásamlegra sumardaga á Íslandi umliðnar vikur. Stórkostlegir sumardagar með hlýindum og sól, fuglasöng og gróðurilmi. Og við finnum hvernig birtan og hlýjan endurnýjar okkur. Þau stórkostlegu gæði sem í náttúrunni eru fólgin getur enginn átt nema til þess að deila þeim með öðrum. Eigum við að tala um vatnið, um hreina loftið, um það að búa í landi þar sem allir kunna að lesa og skrifa? Eða búa í samfélagi þar sem allur almenningur hefur góða heilsu og helstu smitsjúkdómum er haldið í skefjum. Eigum við að tala um lýðræði og stjórnarfar, almenna sanngirni í menningunni og vissuna um það að geta vogað sér út á götu án þess að vera í hættu? Endalaust getum við talið upp atriði sem eru þannig að það er ekki hægt að eiga þau og njóta þeirra nema þeim sé deilt með öðrum. Samt erum við alltaf með hugann við einkaeignina, erum mjög upptekin við að sanka að okkur dóti og peningum og allskyns aðstöðu. Hvort vildir þú frekar eiga engan bíl og ekkert hús eða eiga bæði bíl og hús en hafa engan aðgang að náttúrunni og lifa í samfélagi þar sem fólk almennt gæti ekki talað saman? Svarið segir sig sjálft. Ef annað útilokaði hitt, hvort myndir þú frekar velja að eiga öll heimsins rafmagnstæki og græjur eða lifa í ómenguðu andrúmslofti? Mikilvægustu atriðin í lífinu, það sem raunverulega gerir lífið innihaldsríkt eru almannagæði, gæði sem við eigum einungis á samleið með öðrum mönnum. Áðan heyrðum við lesið úr bréfi Páls postula til Galatamanna þar sem hann er lýsa þeim gæðum sem eiga að vera fólgin í trúnni á Jesú: „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ Þetta er róttæk yfirlýsing. Ef við tilheyrum Jesú Kristi skiptir þjóðerni okkar ekki máli, stéttamunur hverfur og líka kynjamunur. „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ Sólon Björn þú átt reynslu sem fæstir íslenskir jafnaldrar þínir eiga. Þú býrð með fólkinu þínu í framandi landi, alla leið úti í Japan. Þú þekkir tilfinninguna af því að kynnast fólki sem talar annað tungumál og á öðruvísi siði og venjur en þú og virkar mjög ólíkt við fyrstu kynni. Og svo þekkir þú hvernig skilningur byrjar að kvikna og samfélag verður til og allt í einu skiptir ekki máli þótt einhver sé af öðru þjóðerni eða annari menningu og trú. Allt fólk sem á reynsluna af því að vera útlendingar þekkir álagið sem fylgir því að hafa ekki aðgang að því sem er að gerast í kringum sig, skilja ekki alveg hvað er í gangi og upplifa sig í lausu lofti. Það að vera útlendingur er reynsla af félagslegu valdaleysi. Maður verður svolítið eins og barn þótt maður sé fullorðinn og það er erfitt. Við höfum samt öll gott af svona reynslu, sérstaklega ef við upplifum síðan það að vinna okkur inn í samfélag sem vill taka á móti okkur og veita okkur aðgang að sameiginlegum gæðum. Já, það að vera útlendingur í framandi menningu er reynsla af því að hafa ekki fullan aðgang að sameiginlegum gæðum. Við njótum auðvitað náttúrufarsins í viðkomandi landi, súrefnisins, vatnasviðsins í jarðskorpunni og almenns ástands í stjórnarfari og lýðheilsu, en við förum á mis við þau djúpu félagslegu gæði sem eru fólgin í því að deila hugsunum og merkingu og finna að annað fólk skilji það sem maður er að meina. Það er alveg ljóst af vitnisburði Biblíunnar í heild og m.a. af ritningartextum dagsins í dag að það er Guðs vilji að allt fólk hafi aðgang að almannagæðum. Biblían og trúin á Jesú færir okkur skilaboð um gildi þess að tala saman og skilja engan útundan. Í ævafornum orðum sem voru lesin upp hér áðan úr Jesajabók kynnir Guð sig og segir: “Svo segir Drottinn Guð sem skapaði himininn og þandi hann út, sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex, sá er andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga:“ Hér er Guð að kynna sig og gerir það með því að telja upp allskonar sameiginleg gæði; bendir á himininn og andrúmsloftið, jarðskorpuna og allt sem á henni vex, og loks andardráttinn, sjálft lífið í brjósti þínu. Guð Biblíunnar kynnir sig alltaf af verkum sínum: Ég er Guð sem hefur gefið ykkur loft til að anda að ykkur, jörðina, gróðurinn og lífið sjálft. Þetta er dæmigerð nálgun hjá Guði. Og í ljósi þessara sameignlegu gæða, á grundvelli alls sem við eigum saman vill Guð Biblíunnar að við stöndum saman. Í texta dagsins er talað um sáttmála fyrir þjóðirnar og ljós fyrir lýðina „...til að opna hin blindu augu, leiða fanga úr varðhaldi og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.“ (Jes 42.5-7) Viltu hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns? Við skulum ekkert láta Sólon Björn einan um að svara þessari spurningu hér í dag. Við skulum svara henni innra með okkur hvert og eitt. Ef ég hef Jesú að leiðtoga lífs míns þá er það ekki án afleiðinga. Leiðtogi er alltaf á leiðinni eitthvert. Og það er alveg ljóst að Jesús frá Nasaret er ekki á leiðinni inn í lokaða einkaveröld þar sem ég ein get bara hugsað um sjálfa mig og horft á heiminn úr fjarska líkt og annað fólk komi mér ekki við. Sá sem er lærisveinn Jesú getur ekki látið eins og annað fólk sé ekki til, eða að gjafir Guðs í náttúrunni hafi ekkert vægi. Hvert sem þú lítur sérðu Guðs verk og sem vinur og nemandi Jesú, sem barn föðurins og móðurinnar í guðsríki ertu samábyrgur með öllum mönnum að yrkja og gæta alls sem lifir. Viltu hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns? Það mætti rétt eins spyrja: Viltu vera vera með í að skapa heiminn? Viltu skilgreina sjálfan þig sem hluta af náttúrunni, sem hluta af öllu mannkyni? Það er ekki hægt að vera fylgjandi Jesú en hugsa um það helst og fremst að safna dóti fyrir sjálfan sig. “Svo segir Drottinn Guð sem skapaði himininn og þandi hann út, sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex, sá er andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga.“ Amen.