Óvissa og upprisa

Óvissa og upprisa

Lífið er óvissa. Allt er óvissa nema það eitt að Kristur er upprisinn og hann vill leiða þig og styðja í hverju sem kemur fyrir þig og reisa þig við.

Síðastliðið miðvikudagskvöld sat ég hér uppi í kór kirkjunnar og tók þátt í bænastund sem er hér alla miðvikudaga kl. 18:00. Þetta eru yndislegar stundir, taka stuttan tíma en eru ákaflega dýrmætar og innihaldsríkar stundir. Síðast liðið miðvikudagskvöld, kvöldið fyrir skírdag var ég sérstaklega hugsi. Ég íhugaði atburðarás, bænadaganna og páskanna og hugsaði um píslarsöguna. Ég hugsaði um þessa merku atburði sem gerðust eftir að Jesús stóð upp frá hinni síðustu kvöldmáltíð með lærisveinum sínum og þau gengu út í garðinn Getsemane. Ég hugsaði um það þegar hann var handtekinn og leiddur bæði fyrir Pílatus og Heródes og var dæmdur til dauða á krossi. Ég hugsaði þar sem ég sat þarna að ég vissi ekkert hvað næstu dagar myndu bera í skauti sér fyrir mig. Ég vissi ekkert um komandi daga, annað en það sem ég var búin að skipuleggja, en hvernig allt myndi verða vissi ég ekki af því lífið er alger óvissa. Við getum ekki vitað hvað kemur fyrir í lífi okkar.

Sum okkar eiga þá lífreynslu að hafa lent í miklum áföllum, sorg og veikindum. Þau okkar sem þekkja áföllin vita að stundum sest að okkur kvíði. Kvíði hefur stundur verið skilgreindur sem ótti við að eitthvað hræðilegt gerist. Við þekkjum öll þessa tilfinningu því kvíði er eitthvað sem við finnum öll fyrir, er sammannleg tilfinning. Inn í óvissuástand lífsins talar páskaboðskapurinn.

Kristur er upprisinn. Páskaboðskapurinn eru mestu gleðifréttir allra tíma. Kristur er upprisinn. Í upphafi kristni notaði fólk þessa kveðju þegar það heilsaðist. Kristur er upprisinn. Og því var svarað: Kristur er sannarlega upprisinn.

Setjum okkur í spor vina Jesú þegar þau komu að krossi Jesú. Við getum ímyndað okkur vonbrigðin, uppgjöfina, sorgina og algert ráðaleysi gangvart þessum hræðilegum aðstæðum sem krossdauði Jesú var. Við getum reynt að ímynda okkur hve hörmulegur hann var með því að horfa á hinn forna róðukross sem hangir hér í Hóladómkirkju og krossfestingarmyndina á altarisbríkinni. Inn í þessar aðstæður talar páskaboðskapurinn.

Kristur er upprisinn.

Það er alveg óhætt að segja að á föstudaginn langa hafa vinir Jesú ekki getað ímyndað sér hvað myndi gerast á þriðja degi, jafnvel þó hann hafi verið búinn að segja þeim frá því að það myndi gerast, þá áttu þau ekki von á því að þessi undur og stórmerki myndu gerast. Konurnar koma að gröfinni og hún er tóm.

Jesús er upprisinn. Setjum okkur í spor þeirra.

En hvaða merkingu skyldi upprisuboðskapurinn hafa fyrir okkur núna í dag, á þessari hátíð og í hversdagslífinu sem við við lifum alla jafnan? Upprisa Jesú segir okkur tvennt:

Í fyrsta lagi segir hún okkur að Jesús er lifandi með okkur alla daga í lífinu sem við erum að lifa, í erfiðleikum, í sorg og í gleði.

Í öðru lagi segir hún okkur að Jesús tekur við okkur þegar við deyjum. Þegar augu okkar lokast í síðasta sinn og hjartað okkar hættir að slá, þá mun Jesús standa hjá okkur með opinn faðminn og taka á móti okkur inn í ljósið sitt, kærleikann sinn og friðinn sinn.

Páskaguðspjallið er lesið oftar í kirkjunni en á páskum. Það er ólíkt jólaguðspjallinu sem aðeins er lesið á jólum. Páskaguðspjallið er lesið við útfarir. Það er góð tilfinning að tala við útfarir með páskaboðskapinn að veganesti. Það er gott að geta miðlað þeirri trú að látinn lifir hjá Guði og það er gott að fá að heyra þann boðskap þegar við kveðjum okkar nánustu.

Við skulum láta upprisutrúna móta líf okkar. Við skulum láta hana móta allt okkar líf og hafa áhrif á allt sem við gerum og segjum. Það er gott að vakna á morgnana þegar við vitum að hinn lifandi upprisni Kristur er með okkur og fer með okkur inn í daginn.

Það er gott að signa sig að morgni dags og biðja Guð að leiða sig. Það er gott að signa sig að kvöldi dags og biðja Guð að vaka yfir sér yfir nóttina.

Lífið er óvissa. Við vitum ekkert hvað gerist á morgun. Ekki frekar en ég vissi á miðvikudagskvöldið hvað myndi gerast í mínu lífi næstu fjóra daga.

Lífið er óvissa. Allt er óvissa nema það eitt að Kristur er upprisinn og hann vill leiða þig og styðja í hverju sem kemur fyrir þig og reisa þig við.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.