Auður vonar

Auður vonar

Um það hafa margir auðmenn aldanna vitnað, að þegar mest á reyndi, þá var það ekki auður fjárins sem bjargaði, heldur ástin sem þorir að elska lífið í fórnfúsum verkum sínum.

Flutt 15. október 2017 í Heydala- og Stöðvarfjarðarkirkju

Mér gott barn gef að vera og góðan ávöxt bera, en forðast allt hið illa, svo ei mér nái að spilla. Amen

Guðspjallið, sem ég las frá altarinu og helgað er þessum sunnudegi, hefur mörgum verið hugleikið. Maður kemur til Jesú og spyr hvernig hann geti öðlast eilíft líf. Jesús talar enga tæpitungu í svörum sínum. „Far og seldu eigur þínar og gefðu fátækum, og þá munt þú eiga fjarársjóð á himni. Kom síðan og fylg mér“. „Hve torvelt verður þeim sem auðinn eiga að ganga inn í Guðs ríki.

Auðveldara er úlfalda að fara í gegnum nálarauga , en auðmanni að komast inn í Guðs ríki“.
Þetta er einn af þeim textum í Bíblíunni sem kirkjan á Vesturlöndum hefur oft átt í erfiðleikum með að skýra. Af því að fjárhyggjan með græðginni er svo inngróin í vestræna menningu, fjárgildin vega þungt í mati á lífsgæðum, og þau þykja flottust sem græða og eiga meira en flestir. Það sé eftirsóknarverðast, a.m.k. útfrá mati fjölmiðlanna, að vera klár í viðskiptum og sýna það á ytra borði með eignum sínum og framkomu.

Inn í þessa veröld glys og glaums óma beinskeytt orð Jesú,- og undan þeim verður ekki vikist með einhverjum hálfkæringi eða skýringum um að hann hafi meint eitthvað allt annað.

Á öðrum stað sagði Jesús: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni.“ Og á enn öðrum stað sagði Jesús: „Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun hjarta þitt vera.“.

Í Biblíunni segir líka af Jesú, þegar hann mætti tíu holdsveikum mönnum, sem héldu til á ruslahaugum fyrir utan borgina. Jesús læknaði þá alla og bað þá að fara inn í borgina og sýna yfirvaldinu, að þeir væru heilir svo þeir gætu notið lífsins og réttinda sinna, en þyrftu ekki að vera útskúfaðir úr mannlífinu vegna veikinda, eins og þá tíðkaðist og gerir enn víða um jörð. En aðeins einn sneri við til að hitta Jesú aftur,- og þá til að þakka. Gaf það lífinu gildi? Verður það metið til fjár?
Einu sinni var útlenskur spekingur spurður: Eru kraftaverk til? Hann svaraði: Í þínu landi telst það kraftaverk, ef Guð fer að vilja einhvers. En í mínu landi er það kraftaverk ef einhver framkvæmir vilja Guðs.

Það er einmitt kjarni málsins. Tökum við mark á Guði sem þráir fagurt mannlíf? Það boðar trúin í öllum aðstæðum. Er mannlífið núna fagurt á jörðinni, þar sem allir búa við efnislega sæld, mannréttindi og frið? Fjallar lífið um meira en bara mig og mína? Er tilgangur lífsins að hrifsa til sín eins mikið og mögulega má yfir komast? Tryggir það fagurt mannlíf?

Hamingjuna kaupir enginn með fjármunum, en allir þurfa að njóta fjárhagslegs öryggis, búa við mannréttindi og mannsæmandi aðstæður. Og hvorki skortir fjármuni eða gæði á jörðinni til að það verði. Og er á mannsins valdi. Ekki skortir heldur, að tæknin, vitið og skynsemin njóti lofs og dýrðar, og enginn hörgull virðist á framboði af slíkum kostum. Gæti verið, að misréttið á jörðinni viðgangist vegna þess að auðveldara er fyrir úlfalda að fara í gegnum nálarauga, en auðmanni að komast í himnaríki? Af því að Guðs ríkið er líka hér mitt á meðal okkar á jörðinni þar sem trúin þráir að kærleikur ráði för og fagurt mannlíf blómgist með ábyrgð í verki.
Trúin á Guð hvetur til umhugsunar um tilgang lífs og samfélags og hvílir á kjölfestu með Guðs orði sem kallar til ábyrgðar og vonar. Þetta orð stenst reynslu mannsins af sjálfum sér í sögu og samtíð. Vandinn felst í freistingunni að horfa framhjá þessu orði eða neita tilvist þess. Þetta orð er Jesús Kristur, Guð á jörð, en gæti truflað sjálfumglaðan mann. Guðspjall dagsins um aðgengi auðmannsins að himnaríki er dæmi um það.

Enda á trúin í vök að verjast, a.m.k. ef mið er tekið af fyrirsögnum fjölmiðla. Nú þykir fínt að auglýsa trúleysi sitt. Er líklegt að það blómgi fagurt mannlíf? Hvað eigum við þá til haldreipis í ólgusjó lífsbaráttunnar? Lífið er meira en þægindi við skrum og tísku. Víst ráða fjármunir miklu í slíkri veröld, en ekki, þegar til kastanna kemur. Hvar getum við þá leitað vonar, þegar alvara lífsins knýr dyra?
Lífið er líka stærra og meira undur, en að eignast þurfi allan heiminn til þess að svala hamingju sinni. Fjármunum fylgja völd. Það boðar tíðarandinn í hagspeki nútímans. Líka stundum frægð á torgum á meðan leikur sæmilega í lyndi. En völdin og frægðin eru hverful og geta umbreyst skjótt í andhverfu sína, orðið að skrímsli sem ekki einu sinni kemst í gegnum stóru hliðin á kvikmyndaverunum í Hollywood. Fjölmiðlarnir eru einmitt að segja okkur sögur þessa daga af slíkum hamförum í lífi fræga fólksins. Og ekkert lát á því til viðbótar öllum sögunum um marga hrakförina sem skráðar eru á spjöldum stjórnmálanna. Þar hefði oft verið langtum nær, að úlfaldinn kæmist í gegnum nálarauga.

Þess vegna kallar trúin svo ákaft að vega og meta lífsgildin í raun og sannleika, hrópar á ábyrgð og virðingu við manngildin og samferðafólk.

En gerist það ekki fyrr en í nauðirnar rekur? Horfum okkur nær. Einstaklingi, sem greinist alvarlega veikur, er tæpast þá efst í huga hvernig hlutabréfum hans vegnar á markaðnum? Foreldrar, sem umvefja fyrst nýfætt barnið sitt, sögðu mér, að þá fannst þeim ekkert skipta máli nema þetta barn og ástin þeirra á því. Enda líkti Jesús börnunum við Guðs ríki og sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín því slíkra er Guðs ríki“.
Það er líka sérstakt, þegar við horfum í persónulega reynslu, þá eru það ekki atburðir sem tengjast fjárhagslegum afdrifum sem vega þyngst, heldur þær stundir sem eru samofnar samfélagi ástvina í blíðu og stríðu, einmit þar sem reynir á gildin sem við tengjum við Guðs ríkið.

Það er þó ekkert ljótt við það, að farnast vel í viðskiptum eða á vinnumarkaði með uppbyggingu og farsæld fyrir marga í sátt við umhverfi og samferðafólk. En þá reynir á og skiptir öllu máli að deila kjörum saman af sanngirni og réttlæti.
Það er ekki nema tæpur mannsaldur síðan íslensk þjóð reis úr sárri örbirgð til efnislegrar velmegunar og þæginda sem engan gat þá órað fyrir að ætti eftir að verða. Lífsbaráttan fyrrum fólst í að halda áfram, gefast ekki upp, vona og treysta.

Þessi von var fólgin í að vera saman hönd í hönd, fjölskyldan, ættingjar og vinir, nágrannar, sveitarfélagið og þjóðin. Báturinn komst ekki úr vörinni nema margar samhentar hendur væru að verki, heldur ekki heyskapurinn eða uppeldi barnanna. Hefur eitthvað breyst um þetta? Í raun ekki.

Við getum ekki án hvers annars verið. Eina sem breyst hefur er formið og umgjörðin. Það getur enginn komist af í þjóðlífinu einn og sér, sama hversu miklum jarðneskum auði tekist hefur að safna í hlöðuna sem á augabragði getur snúist upp í gagnslausan hégóma.
Um það hafa margir auðmenn aldanna vitnað, að þegar mest á reyndi, þá var það ekki auður fjárins sem bjargaði, heldur ástin sem þorir að elska lífið í fórnfúsum verkum sínum. Þá uppljókst, að auðveldara var fyrir úlfaldann að fara í gegnum nálarauga, en auðmanninn að ganga inn í Guðs ríkið. Því hvar sem hjarta þitt er, þar mun og fjársjóður þinn vera.

Hún stendur mér fyrir hugskotssjónum lúin móðirin yfir hlóðunum á moldargólfinu í torfbænum. Hún hafði komið 10 börnum á legg, kunni sálmabókina utanbókar, líka ritningarvers guðspjallanna, þekkti til helstu bókmenntaverka og var alltaf reiðubúin að rétta samferðafólki sínu hjálparhönd, uppörvandi af vongleði og hafði mörg orð um þakklæti sitt yfir því sem vel hafði tekist þrátt fyrir allt. Þetta var aleiga hennar sem aldrei verður til fjár metin. Hvílir íslenskur auður nútímans á kraftaverkum þessara kvenna?
Það er gott að hafa til hliðsjónar, þegar við hugleiðum, afhverju úlfaldanum gengur betur að komast í gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í himnaríki og hvernig best er að haga lífinu til þess að blómga Guðs ríkið á jörðinni. Amen.