Viltu vera memm

Viltu vera memm

Um daginn heyrði ég ágæta gamla sögu af presti sem spurði fermingardreng hvort maðurinn lifði á brauði einu saman. Stráksi svaraði að bragði: “Það er betra að hafa mjólk með.” Ekki fara neinar sögur af viðbrögðum klerksins við þessu svari stráksa en víst er að það hvíla heilmikil sannindi á bak við þetta svar-þótt það væri sett fram af einlægni og hreinum hug og án umhugsunar.

Um daginn heyrði ég ágæta gamla sögu af presti sem spurði fermingardreng hvort maðurinn lifði á brauði einu saman. Stráksi svaraði að bragði: “Það er betra að hafa mjólk með.” Ekki fara neinar sögur af viðbrögðum klerksins við þessu svari stráksa en víst er að það hvíla heilmikil sannindi á bak við þetta svar-þótt það væri sett fram af einlægni og hreinum hug og án umhugsunar. Þetta svar leiðir hugan að ábyrgð í daglegri umönnun þess sem gefur brauðið eða lífið. Ábyrgð þess sem tekur við því og fyrstu árin kemur því áleiðis til manns. Það er eitt að gefa brauðið til næringar-til lítils ef þá nokkurs ef það er ekki meira en þurrt brauðið.

Þið hafið verið og eruð kölluð til ábyrgðar, uppeldis. Ég veit að þið vitið að það er ekkert sem heitir auðvelt eða auðmelt í þeim efnum. Að vera foreldri er stundum eins og þurrt brauð sem verður að kyngja án áleggs og mjólkurglass. Kann að vera að þið hafið mætt og eða þið mætið þurrum staðreyndum sem hafa staðið eða munu standa í ykkur og þið freistist til að seilast til þess að rýna í stundarglas fortíðar og gripið í tómt glasið - ætla út frá því að þið hafið verið svo og svo miklu betri á sama aldri og börnin ykkar sem sitja hér prúð og sæt sveipuð hvítum fermingarkyrtlum - óþekkjanleg. Væntanlega ekki hugkvæmst eins og móðirin sem hringdi um árið í prestinn sinn með þá ósk að fá lánaðan fermingarkyrtil sonar sins sem fermdist nokkrum vikum áður – Hversvegna? Spurði prestur. Jú-það var nefnilega töfrum líkast þegar drengurinn hennar klæddist kyrtlinum varð hann ljúfur og prúður - algjört ljós. Það mátti reyna og sjá hvort að það ljós og sá ljúfleiki hafi orðið eftir í kyrtlinum - væri að finna í honum.

Kæru fermingarbörn pálmasunnudags sveipuð hvítum kyrtlum hreinleika og sakleysis -það segir frá því í ritningunni þegar Jesús reið inn í Jerúsalemborg hafi mannfjöldinn lagt fyrir fætur hans klæði sín honum til dýrðar og fagnaðar. Ekki skal ég segja að eitthvað hafi orðið eftir í kyrtlum þeim sem fólkið lagði á göturnar þar sem Jesús fór um-efast ég ekki um að sá verknaður var gerður af virðingu og lotningu. Það hvarflar að í huga að svo hafi verið - því eins og þið vitið hvarf þessi virðing og lotning úr huga fólksins – sömu manneskjur nokkrum dögum seinna kölluðu eftir því að hinn sami maður og fagnað hafði verið við innreið sína - snerist upp í andhverfu sína.

Á pálmasunnudegi er kallað á ykkur kæru fermingarbörn. Þið eruð sveipuð hvítum kyrtlum tákni hreinleikans. Þið eruð ekki að kallast á við þann sem reið inní Jerúsalemborg heldur í dag kallar hann á ykkur. “Viltu vera memm!” Segir hann við ykkur í dag. “Það hefur ekkert með fermingarkyrtla að gera.” “Ég hef ekkert að bjóða þér fermingarbarn annað en sjálfan mig.” “Ég skal ganga þér við hlið.” “Ég skal styðja þig.” “Þú þarft ekki að kalla á eftir mér því ég er með þér,” segir hann lágri röddu. “Ég er með þér líka þegar einhver annar kallar hærri raustu á þig og þú lætur freistast vegna þess og gleymir mér.” “ Vertu viss ég sný aldrei baki við þér.”

Að vera með, að tilheyra einhverjum, að vera viðurkennd/viðurkenndur er mikilvægt ekki síst á unglingsárunum þeim árum sem þið hafið fyrir svo stuttu síðan gengið inní og það er löng leið framundan. Ykkur er fagnað af fjöldanum fyrir innan sem utan veggi þessarar kirkju í dag og margur er sá sem tilbúin er að leggja klæði sin af ást og umhyggju á veg ykkar og geri það af heilum hug án þess að krefjast nokkurs á móti. Þau hafa gert það og þau munu gera það og þið hafið kannski ekki tekið eftir því - fundist það sjálfsagt - að sama skapi eru einhver eða einhverjir þarna úti sem þið kunnið engin deili á sem leggja “klæði” sín líka á veg ykkar og vilji vel með það og þið getið verið viss um að einhverjir í hópnum hafi allt aðrar fyrirætlanir með ykkur. Krefjast alls á móti og ef ekki fá - snúast gegn ykkur af offorsi.

Það mun reyna á styrk og þor ykkar þegar þig gangið óstyrkum fótum inn til framtíðar. Sú “fermingarmynd” sem þið hafið af ykkur í dag verður allt önnur eftir nokkur ár þegar þið í bókstaflegri merkingu lítið hana augum og þið viljið ekki kannast við ykkur. Ekki frekar en mannfjöldinn við innreið Jesú sem hrópaði fagnandi röddu og fáum dögum síðar vildu ekki kannast við fagnaðarhróp sín. Fagnaðarhrópin kyrfilega römmuð inn í fortíðina svo mjög að ekkert hljóð barst annað en það að deyða hann.

Þannig er órömmuð mynd framtíðar - hún vill helst af öllu ekki kannast við innrammaða mynd fortíðar. Þau eiga ekki skap saman en eiga alltaf hlut í hvoru öðru. Munið bara kæru fermingarbörn þegar þið litið um öxl eftir nokkur ár að kannast við ykkur og þá hugsun og þá játningu sem hvílir í huga ykkar í dag. Vegna þessa að framtíðin kemur óinnrömmuð - hafið þið allt um hana að segja og þeir sem vilja veg ykkar sem bestan og greiðastan. Framtíðin getur verið þurrt brauð, en það er betra að hafa mjólk með.

Megi góður Guð blessa ykkur þessa stund. Varðveita ykkur og vaka yfir ykkur og fjölskyldum ykkar til framtíðar. Amen