Engar afsakanir

Engar afsakanir

Ætli ég hafi ekki verið tuttugu og sex ára gömul þegar ég byrjaði að skilja að það væru engar afsakanir fyrir ofbeldi. Fram að því höfðu afsakanir eins og, „ég æsti hann upp, hann var bara svo drukkinn, við hefðum ekki átt að gista heima hjá honum, ég hefði ekki átt að fara í þetta partý og ég er nú á bar”, allar verið góðar og gildar.

Ætli ég hafi ekki verið tuttugu og sex ára gömul þegar ég byrjaði að skilja að það væru engar afsakanir fyrir ofbeldi. Fram að því höfðu afsakanir eins og, „ég æsti hann upp, hann var bara svo drukkinn, við hefðum ekki átt að gista heima hjá honum, ég hefði ekki átt að fara í þetta partý og ég er nú á bar”, allar verið góðar og gildar.

Það tók mig 26 ár að átta mig á þessu og þannig held ég að það sé um fleiri á mínum aldri. Mér þótti óþægilegt en aldrei neitt sérstaklega óeðlilegt að karlar klipu í rassinn á mér og kreistu barminn svolítið þegar þeir gengu framhjá. Það að einhver kæmi fram vilja sínum við mig eða vinkonur mínar var heldur ekki nauðgun. Það var bara óheppni. Rangur staður á röngum tíma með röngu fólki. Það að strákur slægi stelpu eða berði hana rækilega var reyndar ofbeldi en það voru alltaf einhverjar ástæður fyrir því. Já og kona sem bjó við ofbeldi á heimili sínu gat nú bara farið ef þetta var svona skelfilegt.

Ég hef vissulega elst, þroskast, lært af reynslunni og skipt um skoðanir en ég held að viðhorfin hér á landi hafi almennt breyst töluvert. Kynbundið ofbeldi almennt hefur ekki minnkað. Konur, börn og einstaka karlar búa enn við ofbeldi af hálfu maka eða einhvers sem er þeim nákominn. Konum og stúlkum er enn nauðgað og þær áreittar eins og það sé allt í fína hér á landi. En það sem ég tel að hafi breyst er þekking okkar og viðhorf til ofbeldis. Við erum smám saman að átta okkur á því, sem samfélag, að það er ekki til nokkur einasta afsökun fyrir ofbeldi. Og við erum farin að skilja betur að það sem áður var talið smá daður eða stjórnleysi, er það ekki. Við erum nefnilega byrjuð að átta okkur á því að manneskja sem beitir ofbeldi er alltaf ábyrg gjörða sinna. Og nú vitum við að ofbeldi er alltaf ákvörðun þess er beitir því. Ofbeldismaðurinn hefur alltaf val um að berja ekki, nauðga ekki, klípa ekki eða að vera dóni og meiða með orðum.

Ég þori að halda því fram að næstum því hver einasta kona sem ég þekki og er komin yfir tvítugt, hafi upplifað einhvers konar ofbeldi, kynferðislegt, líkamlegt eða andlegt. Ég tel einnig nokkuð líklegt að þær hafi flestar einhvern tíma talið að ofbeldið væri þeim sjálfum að kenna. Það er nefnilega hluti af ofbeldinu; að fá þolandann til að bera ábyrgð á því, að finna afsakanir fyrir ofbeldinu.

Nýtt myndband frá UN Women á Íslandi af tilefni herferðarinnar, Örugg borg, segir næstum allt sem segja þarf um kynbundið ofbeldi. Í myndbandinu þarf áhorfandinn að taka þátt í að bjarga þolandanum því að öðrum kosti verður hún undir. Auglýsingin endar síðan á rassa klipi sem er allt of algeng tegund ofbeldis í okkar samfélagi.

Eðli kristinnar trúar er friður en ekki ofbeldi. Þjóðkirkjan sem kristin trúhreyfing hefur óbeit á ofbeldi og á aldrei að afsaka það eða horfa framhjá því. Þess vegna hefur Þjóðkirkjan beðist fyrirgefningar á ofbeldi sem fólk hefur þurft að þola af hendi þjóna hennar og starfsfólks. Kirkjan iðrast og sem hluti af breyskum heimi þarf hún að halda því áfram um ókomna tíð um leið og hún gerir allt sem í hennar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir ofbeldi innan hennar.

Því vill Þjóðkirkjan leggja sextán daga átakinu Engar afsakanir lið. Að átakinu standa Lútherska heimssambandið, Heimsráð kirkna og Heimssamband KFUK. Þetta er sextán daga alþjóðlegt átak sem stendur frá 25. nóvember til 10. desember sem er alþjóðlegur dagur mannréttinda.

Það eru engar afsakanir til fyrir ofbeldi gegn konum þó ég hafi lengi vel haldið það. Það eru engar afsakanir fyrir því að horfa framhjá ofbeldi gegn konum þó ég hafi einhvern tíma haldið það. Það eru engar afsakanir fyrir því að taka ekki þátt í að berjast gegn algengustu mannréttindabrotum sem framin eru í heiminum, kynbundnu ofbeldi.