Er heimsendir í nánd?

Er heimsendir í nánd?

Á því rúma ári sem liðið er frá því að bankakerfið hrundi á Íslandi hafa landsmenn upplifað hamfarir. Ekki er ofsagt að það sem gerðist hafi verið líkt og lýst er í guðspjallinu, að tákn hafi gerst á tungli og stjörnum og menn verið ráðalausir. Þó var í fyrstu eins og landinn héldi niðri í sér andanum, biði eftir því sem næst myndi gerast. Allt var þetta svo óraunverulegt og ótrúlegt.

 Á því rúma ári sem liðið er frá því að bankakerfið hrundi á Íslandi hafa landsmenn upplifað hamfarir. Ekki er ofsagt að það sem gerðist hafi verið líkt og lýst er í guðspjallinu, að tákn hafi gerst á tungli og stjörnum og menn verið ráðalausir. Þó var í fyrstu eins og landinn héldi niðri í sér andanum, biði eftir því sem næst myndi gerast. Allt var þetta svo óraunverulegt og ótrúlegt. Í mínum huga átti það ekki að geta gerst að heill banki gæti farið á hausinn, hvað þá þrír höfuðbankar þjóðarinnar. Það hefur tekið heilt ár að fá yfirlit yfir stærð vandans, og enn er eftir að fá niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir hrunsins. Margir hafa misst mikið, og afar erfitt eiga þau heimili og einstaklingar sem misstu vinnu eða sáu gjaldeyrislánin hækka tvöfalt. Það er sorglegt að um þúsund heimili hafi þurft að sækja um mataraðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar og annarra hjálparstofnana í lok nóvember s.l., en um leið hvatning þeim sem geta látið fé eða vörur af hendi rakna til stuðnings og hjálpar. Við þurfum að standa saman og hjálpa hvert öðru. Í nóvember síðastliðnum söfnuðu 3130 fermingarbörn fyrir vatnsbrunnum á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Þau söfnuðu átta og hálfri milljón króna sem er met. Fyrir það ber að þakka. Með söfnuninni er verið að tengja fermingarstörfin hjálparstarfi, bæði með fræðslu og vinnu. Á aðventunni er sérstaklega kallað eftir stuðningi við hjálparstarf. Vandinn er mikill, en hann er ekki óyfirstíganlegur, þó svo sumir séu verulega svartsýnir. 

* * *

Um aðventuna undirbúum við komu frelsarans, barnsins í jötunni. Síðasta sunnudag minntumst við innreiðar Jesú í Jerúsalem, en í dag erum við minnt á Krist sem kemur í skýjum himins við lok tímanna. Margt hefur verið boðað um ógnir og plágur síðustu tíma sem vekur ótta fólks. Ekki fer hjá því að við veltum fyrir okkur hugmyndum um heimsendi, því af nógu er að taka og kvikmyndaiðnaðurinn er duglegur að nota þær. Í liðinni viku fór ég í kvikmyndahús og sá eina slíka, þar sem margir jarðarbúar fórust.  Margt minnti á stef úr Biblíunni um flóðin miklu og örkina hans Nóa. Í myndinni voru bæði dunur hafs og brimgnýr sýnd með ótrúlegum tæknibrellum. Segja má að jörðin hafi liðið undir lok. En nokkrir björguðust og sýndu mikið hugrekki og fórnfýsi. En raunveruleikinn minnir einnig á boðskap Biblíunnar, þegar hamfarir eins og flóðin á Indlandshafi á annan jóladag árið 2005 áttu sér stað. Þá fórust yfir 100 þúsund manns. Eða kjarnorkuslysið í Chernobil í Úkraínu árið 1986, þar sem 800 þúsund urðu fyrir geislun og fjögur þúsund manns eru talin hafa látist af völdum geislunarinnar. Á tímum kalda stríðsins, þegar stórþjóðirnar kepptust við að framleiða kjarnavopn í svo miklu magni að talið var að það væri hægt að sprengja jörðina aftur á steinöld, sló óhug og ótta að fólki. Það var ekki spennandi að eiga að ala upp börnin sín við slíkar aðstæður. Hvað myndi gerast ef þessar þjóðir færu í stríð? Væru það ekki endalokin? Ég þekkti til hreyfinga sem bjuggust við því að endalokin væru í nánd og voru búnar að gera ráðstafanir. Svo féll Berlínarmúrinn án þess að nokkur einasti spámaður eða spákona sæu það fyrir og þýða komst á. Hvernig stóð á því?

Jesús segir í guðspjallinu að þau sem eftir honum bíða, munu þekkja kennimerkin svo ekki verður um villst. Hann tekur dæmi af fíkjutrénu, en við getum tekið dæmi af íslensku björkinni, sem ekki lætur hlý vor glepja sig líkt og viðjan, sem á það til að laufgast í hlýindaköflum á vorin. Þess vegna vitum við, að þegar íslenska björkin fer að laufgast er sumarið í nánd. Á sama hátt munum við vita svo ekki verður um villst að koma Krists er yfirvofandi. Lútersk kirkja hefur ekki prédikað stíft um endurkomuna. Hún beinir sjónum sínum meira að líðandi stund og því hvernig best sé að lifa lífinu. Þegar Marteinn Lúther var spurður að því hvað hann myndi gera ef hann vissi að Kristur kæmi á morgun, á hann að hafa sagt: 'Þá myndi ég fara út í garð og planta eplatré'.  Af þessu draga menn þá ályktun, að besti undirbúningur undir komu Krists, sé að lifa friðsömu, daglegu lífi í fullkomnu trúartrausti til frelsarans. Það er þó mikilvægt að skoða vel að Kristur Jesús sagði, að hann myndi einn góðan veðurdag koma aftur við lok tímanna. Þá mun hann koma sem dómari lifenda og dauðra. Tímasetninguna sagði hann vera alfarið í höndum Guðs, um hana vissi enginn með vissu.

* * *

Hann sagði að við ættum að rétta úr okkur er hann kæmi, því lausn okkar væri í nánd. Er það ef til vill vegna þess, að hann mun koma af himnum ofan á sama hátt og hann steig upp? Eða er það frekar vegna þess að þau sem hann talar til eru hokin af erfiði og kúgun, niðurbeigð af vonbrigðum og örvængingu? Margir hafa boðað háleitar hugsjónir sem endast eiga í þúsund ár, en flestar hafa mistekist með hörmulegum afleiðingum. Á síðustu öld spruttu nokkrar fram. Alræði öreiganna, nasisminn og maóisminn, voru guðlausar stefnur sem settu manninn í hásæti Guðs. Viktor Frankl, geðlæknir, sem lifði af helför Nasista í síðari heimsstyrjöldinni, sagði, að aðeins þeir sem hefðu von, ættu innri styrk til að lifa þann hrylling af, sem fangar útrýmingabúða þurftu að ganga í gegnum. Hjá þeim sem misstu vonina slokknaði baráttuviljinn. Viktor Frankl, ásamt milljónum annarra, var fórnarlamb vitskertrar útópíu Hitlers um þúsund ára ríkið. Þar ætlaði hann þjóðverjum að koma í stað hinnar útvöldu þjóðar og sjálfum sér að koma í stað Guðs. Og við erum ekki búin að bíta úr nálinni með afleiðingar kapítalismans með sínu óhefta markaðsfrelsi, sem upphefur hagvöxt sem upphaf og endi alls. Erum við tilbúin til að endurskoða slíka hugmyndafræði og líf okkar um leið?

* * *

Hvaða lausn á Jesús við? Í lexíunni spáir Jesaja, sem uppi var um 700 árum fyrir Krist, fyrir um komu Messíasar. Yfir honum myndi hvíla      

 „andi speki og skilnings, andi visku og máttar, andi þekkingar og guðsótta.”  

Líf Jesú, prédikun og kraftaverk og síðar dauði hans og upprisa, sýndu fram á, að hann var uppfylling spádóma Gamla testamentisins um Messías Guðs. Lausnin sem hann bauð var að trúa honum og treysta á hann. Hann boðaði lausn sem fólst í eftirfylgd við hann og trausti á orðum hans. Við höfum Nýja testamentið með frásögnum af ævi hans og orðum. Þar getum við sannreynt speki hans og skilning, visku og guðsótta. Hann sagði: 'Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins. Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Orðin sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf.' Af orðum Jesú má ætla að á síðustu tímum munu vaxandi erfiðleikar koma yfir heiminn, einnig lögleysi og aukið kærleiksleysi. En þá hvatti hann börn sín til að sýna enn meiri kærleika, samstöðu og umhyggju. Hann sagði einmitt að kærleikur ætti að vera einkenni þeirra sem fylgdu honum. 'Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.'

Það verður ekki fyr en eftir endurkomu Messíasar, að til verður fullkomið friðarríki. Það verður varla á jörðu þvi dýrin éta ekki lengur hvert annað og þar munu allir gott gjöra. Ég man þegar ég heyrði þennan kafla fyrst sem guðfræðinemi að ég undraðist stórum. Mér fannst þetta svo merkilegur kafli, því hann var svo algerlega öðru vísi en allt sem ég hafði heyrt eða lesið. Hvernig var hægt að koma á heimi þar sem allt væri í friði og jafnvel dýrin færu ekki eftir eðli sínu? Kaflinn í Jesaja kallast á við annan kafla úr Opinberun Jóhannesar þar sem Kristur, mun taka á móti kirkju sinni og búa hjá þeim. „ þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Þar er litið fram til hins fullkomna friðarríkis þar sem allt er orðið nýtt. Það mun ekki verða fyr en með nýjum himni og nýrri jörð.

Í Faðirvorinu biðjum við: 'tilkomi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.' Við horfum fram til hins fullkomna heims hjá Guði og biðjum þess að áhrifa hans gæti hjá okkur. Í bæninni drögum við himininn til okkar. Þegar við biðjum leiðast trúin, vonin og kærleikurinn, hönd í hönd. Með bæninni eflist vonin.

Þá er hægt að biðja eins og Gísli á Uppsölum. Hann bjó við einangrun og oft erfið kjör við ysta haf. Sálmurinn lýsir bæði einlægni og trúartrausti. Það er gott að eiga slíkan fjársjóð þegar við viljum koma hugsunum okkar í bænarorð. 

Þegar raunir þjaka mig þróttur andans dvínar. Þegar ég á aðeins þig einn með sorgir mínar. Gef mér kærleik gef mér trú gef mér skilning hér og nú. Ljúfi Drottinn lýstu mér svo lífsins veg ég finni. Láttu ætíð ljós frá þér ljóma í sálu minni.

Lausn Jesú er að óttast ekki því allt er í hendi hans, heldur trúa á hann, biðja til hans og þjóna náunganum í kærleika þar til hann kemur. Jesús Kristur hvetur okkur til trúar sem starfar í kærleika. Hann minnir okkur á að hann sjálfan sé að finna í hverju barni, hverri manneskju sem líður skort eða þjáist. Hvað sem þér gjörið einum minna minnstu bræðra það gjörið þið mér, sagði hann. Hann kallar okkur til að starfa og útbreiða ríki sitt hér á landi og um allan heim og minnir okkur á að hann sé með okkur allt til enda veraldar.

Það líður að jólum fæðingarhátiðar frelsarans. Aðventan er yndislegur tími og margt sem hægt er að gera til undirbúnings jóla. Börn og fullorðnir gleðjast, skreyta hús og híbýli, koma saman til að föndra, hlusta á góða tónlist eða borða góðan mat. Hver sem kjör okkar eru eða aðstæður þá bið ég og segi við þig:

 ‘Guð vonarinnar fylli ykkur öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.’ Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Textar 2. sunnudags í aðventu

Lexía:

Jes 11.1-9 Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans. Andi Drottins mun hvíla yfir honum: andi speki og skilnings, andi visku og máttar, andi þekkingar og guðsótta. Guðsóttinn verður styrkur hans. Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns, deyða hinn guðlausa með anda vara sinna. Réttlæti verður belti um lendar hans, trúfesti lindinn um mjaðmir hans. Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.
Pistill:
Róm 15.4-7, 13 Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar, vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa. En Guð, sem veitir þolgæðið og hugrekkið, gefi ykkur að vera samhuga að vilja Krists Jesú, til þess að þið einum huga og einum munni vegsamið Guð, föður Drottins vors Jesú Krists. Takið því hvert annað að ykkur eins og Kristur tók ykkur að sér Guði til dýrðar. Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.
Guðspjall:
Lúk 21.25-33 Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“ Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.