17. júní hvað?

17. júní hvað?

Það er þörf á fólki eins og þér í dag! Fólki sem mætir á hátíð sem þessa til að samgleðjast með öðrum Íslendingum yfir því sem við eigum og höfum. Nýtt Ísland byggir á þessum kærleika til náungans og landsins og verður ekki byggt upp nema að við lærum að koma í veg fyrir að valtað sé yfir landið okkar og fólkið sem í því býr.

Íslenski fáninn

Er hægt að vera stoltur Íslendingur í dag? Verðum við ekki bara að læðast með veggjum, reyna að eyða tali um þjóðerni okkar og vonast til að komast upp með að kynna okkur sjálf sem Norðurlandabúa eða Evrópubúa? Er ekki eina vonin okkar fólgin í því að leggja af alla gamla siði og hefðir og byggja upp nýtt Ísland frá grunni? Eða flýja af skerinu í leit að gulli og grænum skógum. Í þessa veru hljómar mædd og þreytt rödd þess Íslendings sem þykir eins og fokið sé í öll skjól, hann eigi hvergi höfði að halla.

Eitt er að leggja af ósiði og gagnrýna hefðir sem hafa leitt okkur í öngstræti. Annað er að hafna eigin sögu og uppruna. Sögur af fólki sem hefur þótt sýna sérstakan dug og hugrekki á Íslandi í gegnum aldirnar eru sögur fæddar á ögurstundum. Öll eigum við slíkar sögur úr eigin heimabyggð eða jafnvel fjölskylduranni. Því miður fylgir sögunum ekki alltaf hvers vegna viðkomandi hafði það þrek og þor sem til þurfti. Kannski af því að viðkomandi einstaklingi fannst það svo sjálfsagt að takast á við vandann sem hún eða hann stóð frammi fyrir. Kannski af því að við höfum ekki spurt þessarar spurningar.

Spurning dagsins í dag er að mínu viti: „Hvert ætlum við að sækja viskuna og viljann til að byggja nýtt Ísland?“ Nýtt Ísland sem byggir á gömlum merg, sem byggir á stolti þess Íslendings sem elskar landið sitt og er þess meðvitaður að dramb er falli næst. Ég held að lausnin sé meðal annars fólgin í því að við minnum okkur á að nýtt Ísland er líka opið þeim sem hafa ekki fæðst hér og eiga ekki sinn uppruna héðan. Þau koma með hollar ábendingar og góð ráð sem vert er að hlusta á. Það er sameiginlegt verkefni okkar sem hér erum fædd og hinna Íslendinganna sem hér búa að byggja upp vonaríka framtíð. Að sama skapi er ég þess fullviss að hluti lausnarinnar felst í opinni og breyttri umræðu. Við höfum verið allt of týnd í skítkasti og leiðindum, verið dugleg við að rakka niður í stað þess að byggja upp. Við getum spurt: Hvenær hrósaðir þú nágranna þínum síðast fyrir hve fallegur garðurinn hans er? Hvenær hvattir þú stjórnmálamann áfram til góðra verka? Hvenær bauðst þú þig síðast fram til sjálfboðavinnu í þágu samfélagsins? Breyttir tímar, önnur framtíð krefst nýrrar hugsunar og nýrra vinnubragða.

Sjálfur horfi ég til þess hvernig Jesú leyfði sér hvorutveggja. Hann braut niður það sem var óhollt fyrir samfélagið þegar hann hrinti borðum víxlaranna sem höfðu fært Mammons-dýrkunina allt að því inn í það heilagasta sem samfélagið átti, sett veraldlegan auð á sama stall og hinn andlega auð. En hann byggði líka upp vinnuþrek og vilja þreyttra sjómanna sem höfðu staðið vaktina alla nóttina án þess að fá fisk, hvatti þá til dáða, leiðbeindi þeim og fagnaði með þeim þegar þeir uppskáru laun erfiðis síns.

Það er þörf á fólki eins og þér í dag! Fólki sem mætir á hátíð sem þessa til að samgleðjast með öðrum Íslendingum yfir því sem við eigum og höfum. Nýtt Ísland byggir á þessum kærleika til náungans og landsins og verður ekki byggt upp nema að við lærum að koma í veg fyrir að valtað sé yfir landið okkar og fólkið sem í því býr.

Flutt við upphaf hátíðarhalda á Akureyri, 17. júní 2010 í Lystigarðinum á Akureyri.