Hryðjuverk - Frosin fyrirgefning?

Hryðjuverk - Frosin fyrirgefning?

Það fór ýmislegt um huga og hjarta þegar maður horfði, já stjarfur á beina útsendingu í sjónvarpinu frá miðborg Lundúna 7. júlí síðastliðinn. Í fyrstu voru fréttirnar óljósar. Greint var frá því að það hafði verið komið fyrir sprengjum í jarðlestunum, sem milljónir manna ferðast með daglega. Sprengjurnar sprungu svo með skelfilegum afleiðingum.

Það fór ýmislegt um huga og hjarta þegar maður horfði, já stjarfur á beina útsendingu í sjónvarpinu frá miðborg Lundúna 7. júlí síðastliðinn. Í fyrstu voru fréttirnar óljósar. Greint var frá því að það hafði verið komið fyrir sprengjum í jarðlestunum, sem milljónir manna ferðast með daglega. Sprengjurnar sprungu svo með skelfilegum afleiðingum. Þá sá bregða fyrir strætisvagni, sem þakið hafði sprungið af. Sírenuvæl, spenna, hræðsla, ótti, kvíði, óhugur, ringulreið, dofi, mangleysi, reiði og svo ótal margt annað flaug ábyggilega í gegnum huga og hjörtu milljóna í heiminum við þessar fréttir. Símarnir urðu sambandslausir. Mannfall. Fólk sem hafði til dæmis verið að fara í vinnuna sína eins og oft áður, var allt í einu fast í lestunum í dimmum göngum. Nístandi óp, vein, óbærilegur hiti og skerandi angist. Einn lögreglumannana, sem var með þeim fyrstu á vettvang sagðist ekki vilja lýsa því sem fyrir augu bar, því hann vildi ekki að fólk læsi í blöðunum um slíkan óhugnað, sem hann og samstarfsfólk hans mætti. Spítalarnir fylltust af slösuðu fólki og örvæntingafullum aðstandendum. Hundruðir slösuðust og tugir dóu. Það er ekki hægt með orðum að lýsa svona hryllingi, sem engu að síður er raunveruleiki. Raunveruleiki lífsins, blákaldur. Viku síðar var svo nokkurra mínútna þögn í Bretlandi til að minnast þeirra, sem létust í árásunum. Bílar námu staðar úti á götunum. Fólk nam staðar og það var eins og lífið stöðvaðist í smá tíma. Djúp þögn þrungin samhljómi, sammannleg.

* * *

Í vikunni sem leið var útvarpsviðtal á BBC 4 við móður stúlku, sem lést í þessum árásum. Móðirin lýsir þar tilfinningum sínum og hugsunum eftir árásirnar. Hún getur ekki fyrirgefið ungu mönnunum, sem settu á sig bakboka með sprengjum í og gengu inn í nokkrar neðanjarðarlestir og strætisvagn í Lundúnum þessum morgni, á háannatíma. Móðirin fer daglega með nafn þess, sem sprengdi upp lestina, sem dóttir hennar var í og segist gera það til að minna sig á atburðinn. Hún hefur látið af starfi sínu, sem prestur við dómkirkjuna í Bristol. Hún segist aðspurð ekki geta sinni þjónustu sinni við þau, sem á henni þurfa að halda þegar hún getur ekki sjálf fyrirgefið. Og í gærmorgun var þrungið útvarpsviðtal á BBC 4 við 74. ára gamlan fyrrum prófessor, sem hafði farið ásamt fleirum kristnum aðilum í tíu daga friðarferð til Bagdad á síðasta ári á vegum alþjóðlegra kristinna friðarsamtaka. Markmið ferðarinnar var að reyna að stuðla að friði með samtölum og nærveru og skilningi við borgarbúa. Hann sagði meðal annars frá því að hann hefði farið í kirkju í Bagdad, þar sem presturinn hefði fullhlaðna byssu í skrifborðsskúfunni sinni tilbúna ef hann þyrfti að verjast. Þessi maður ásamt félögum sínum var síðan handtekinn og þeim haldið í gíslingu mannræningja í um það bil 180 daga. Einn þeirra var tekinn af lífi en hinum haldið áfram í greipum heljar með stöðugum hótunum og lygum. Það átti að nota þá sem skiptimynt fyrir einhverja. Aðspurður segist hann muna fæst af því, sem fram fór þó ekki sé nema rétt mánuður liðinn frá frelsun hans. Hann sagðist telja sig vera í afneitun um þennan tiltekna atburð í lífi sínu. Leynihersveit leysti hann og félaga hans úr haldi. Fagninn fyrrverandi hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki þakkað frelsun sína nóg. Hann sagðist hafa margþakkað hana. En það sé furðulegt til þess að hugsa að hann, sem hafi farið í friðarferð hafi verið frelsaður úr gíslingu með vopnavaldi. Hann sagðist að hann ætti erfitt með að fyrirgefa sjálfum sér að hafa stefnt sjálfum sér og öðrum í hættu með því að fara þessa ferð. Og nú í morgunn bárust fréttir um að breskur hermaður hafi látið lífið í suður Írak og að minnsta kosti fimm manns hafi látist vegna bílasprengju í Bagdad. Guð blessi þau öll.

* * *

Þetta eru sögur úr samtímanum. Snerta þær þig? Snerta þær mig? Fara þær inn um annað og út um hitt eyrað? Komast þær að hjartanu þínu? Það má segja að það sé búist við því af okkur að við fyrirgefum. En stundum er það bara hægra sagt en gert. Fyrirgefningin getur frosið og neitað að koma. Fyrirgefum við vasaþjófinum? Fyrirgefum við vinnufélaganum sem laumast til að klára oftast mjólkina úr ísskápnum í vinnunni? Kannski var þeirra þörf meiri en okkar. Hvað með þann, sem keyrir á bílinn okkar og fer frá án þess að láta okkur vita? Getum við fyrirgefið þeim vegna þess að þau skorti kannski hugrekki að taka afleiðingum gjörða sinna?

* * *

Að segja fyrirgefðu getur verið auðvelt. En að meina það getur verið flókið. Þessar tvær frásagnir af prestinum og prófessornum gefa okkur djúpa sýn inn í sorgina og þjáninguna. Þarf hæfni manns til að geta fyrirgefið að vera reynd með þessum átakanlega hætti? Sá sem fremur sjálfsmorðsárás þarf ekki að skýra út gerðir sínar, hann telur sig vera að fá verðlaun fyrir hugrekki sitt. Presturinn í Bristol telur sig geta teygt út hendi sína til sátta en telur sig þá ekki samkvæma sjálfum sér. Ef til finnst einhverjum sóknarbörnum hennar að hún hafi getað kyngt efa sínum og lifað eftir köllun sinni. En getur fyrirgefning komið ef það býr ekki heiðarleiki að baki henni? Til þess að fyrirgefa getur þurft tíma, sárin þurfa að gróa en það verður alltaf ör eftir. Þegar mikið er um að vera getur maður orðið móður. Óviss hvert maður sé að stefna og af hverju þangað en ekki þangað, því það er svo margt sem truflar. Þær eru margar raunirnar í þessu lífi eins og má sjá á þessum dæmum og við getum líka fundið auðveldlega dæmi, sem hafa valdið okkur sjálfum óvissu, sorg og óhamingju. Hvert okkar hefur sögu. Mislanga, en sögu með skinum og skúrum. Léttum og þungum skrefum. Innri og ytri áttökum. Jesús Kristur þurfti að takast á við átök, bæði innri og ytri. Gekk um, talaði, kenndi læknaði og styrkti fólkið sem á vegi hans varð. Hann var örlátur en var ásakaður um sjálfselsku. Honum vegnaði vel og eignaðist falska vini og sanna óvini. Hann var heiðarlegur og hreinskiptinn en aðilar notfærðu sér hann. Hann var öfundaður. Hann gaf heiminum það besta sem hann gat. Sjálfan sig. Upprisa hans er öflug andmæli Guðs við ragnlæti, þjáningu og dauða í sérhverri mynd. Upprisa hans staðfestir að Jesús hafði rétt fyrir sér en ekki þeir, sem dæmdu hann. Upprisan er staðfesting að líf hans, líf kærleikans, mildi og miskunnsemi, réttlætis og sannleika er Guði þóknanlegt. Ekki hroki, hrottaskapur og ofurefli ofbeldis og valdbeitingar. Við þekkjum það þegar við sjáum ekki út úr augum og manni finnst upplausn, kreppa og andstæður milli stétta og þjóða og kynþátta vera að taka yfirhöndina. En Kristur sagði: “Faðir, faðir fyrirgef þeim, þeir vita ekki hvað þeir gera.” Líflátinn á krossi en reis upp og er stiginn til himna. Og hann vill fylgja þér, styrkja og styðja þig. En þú verður þá að gefa þér tíma til að nálgast hann og þá ekki einungis með huga þínum heldur hjarta. Deila með honum tilfinningum þínum, sárum og stríðum og ótta þínum. Hann er upprisinn, hann er svo sannarlega upprisinn. Guð gefi þér og þínum gleðilega páska.