Enn um bjargráð í Skálholti

Enn um bjargráð í Skálholti

Hvert stefnir biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja þá, þegar hún ætlar að loka sig af í veröldinni og dæma fólk frá samstarfi af því að það hefur haslað sér völl í atvinnurekstri?

Dr. Pétur Pétursson, prófessor, skrifar hér á tru.is pistil undir yfirskriftinni “Hótel jörð” og fer frjálslega með staðreyndir, auk þess að gera mér upp skoðanir. Ég þekki dr. Pétur af vandvirkni og heilindum. Því kemur mér þessi nálgun hans verulega á óvart.

Dr. Pétur, sem einnig situr í skólaráði Skálholtsskóla, veit gjörla að í Skálholti fer fram fjölþætt starfsemi. Hann velur eigi að síður að steypa öllu saman og láta heita hótel-og veitingarekstur, kannski vegna þess að það hentar vel í áróðri og sakar svo mig um að gera það líka. Það hef ég einmitt ekki gert, því hótel-og veitingareksturinn er aðgreind rekstrareining og sjálfstæð starfsemi í Skálholti.

Ég hef hvergi skilgreint Skálholtsskóla sem hótel-og veitingarekstur. Hins vegar er það staðreynd, að hótel-og veitingareksturinn, sem rekinn er með tapi, er orðinn fyrirferðamestur í Skálholti. Allt annað starf, m.a. skólastarfið sem dr. Pétur hefur stjórn á með öðrum, einnig helgi-og kristilegt menningarstarf, líður svo fyrir langvarandi fjárskort og hefur gert um árabil.

Vígslubiskup í Skálholti hefur upplýst þjóðina, að margar milljónir kosti að gera við gluggana í kirkjunni og einnig krafist að Þjóðkirkjan fyrir hönd Skálholts borgi milljónareikning fyrir sérstakt áhugafélag sem bar ábyrgð á byggingu Þorláksbúðar. Dýrmætt bókasafnið hefur lengi legið undir skemmdum í kirkjuturninum og kostar mikið að búa því viðeigandi stað og umgjörð. Þá liggur fyrir að styrkja þarf skipulag vegna móttöku ferðamanna með tilheyrandi kostnaði og óhjákvæmilega í samstarfi við fagaðila. Dr. Pétri er ef til vill ókunnugt um þetta, þrátt fyrir störfin sín í skólaráðinu, og geti þess vegna látið í veðri vaka með pistlaskrifum, að allt gangi vel í Skálholti. Einnig að hótel-og veitingareksturinn sé rekinn með hagnaði, “hvað sem öllum bóhaldsæfingum og talnaflóði líður”, eins og hann kemst svo smekklega að orði. Þess vegna þarf ekki á neinu að taka. En við, sem sitjum í kirkjuráði, og berum ábyrgð á fjármálum og skipulagi í Skálholti, leyfist ekki slíkt ábyrgðarleysi.

Kirkjan hefur orðið fyrir miklum niðurskurði síðustu ár og orðið að fækka prestsembættum, ganga nærri grunnþjónustu og selja eignir. Þetta hefur líka bitnað á Skálholti. Það er því sárt að horfa á eftir dýrmætum fjármunum til að greiða niður tap í hótel-og veitingarekstri á staðnum, sem betur væri varið í kirkjulegt starf. Við þessar aðstæður verðum við að horfa fram á veg, hagræða, en greina sóknarfærin og kalla einnig til samstarfs þar sem það á við. Alls ekki að loka kirkjuna af í nafni innvígðra innan þykkra múra og dæma alla fagaðila í ferðaþjónustu eða annað skapandi fólk úr atvinnulífinu utan við múrana óhæft til samvinnu vegna “guðfræði kirkjunnar”, eins og dr. Pétur boðar í pistli sínum. Hvert stefnir biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja þá, þegar hún ætlar að loka sig af í veröldinni og dæma fólk frá samstarfi af því að það haslar sér völl í atvinnurekstri?

Kirkjuráð hefur nú auglýst eftir tilboðum í leigu á hótel-og veitngarekstrinum, sem er sjálfstæð rekstareining í Skálholti með ströngum skilyrðum á forsendum kirkjunnar. Ekkert annað í Skálholti hefur verið auglýst til leigu. Ekki skólastarfið, ekki kristilegt menningarstarf, ekki helgihaldið í kirkjunni, ekki kyrrðarstarfið né annað starf á staðnum eins og dr. Pétur heldur fram í pistli sínum og er hreinlega afbökun á staðreyndum.

Við eigum að horfa fram á veg og taka höndum saman og líka með fagaðilum úr atvinnu-og menningarlífi, sem er reiðubúið til að koma til samstarfs um heill og velfarnað í Skálholti, nýta sóknarfærin og leita allra leiða til að bjarga Skálholti úr þrengingum í stað þess að loka augum fyrir staðreyndum. Það er hluti af ábyrgri framtíðarsýn sem Skálholt verðskuldar.