Fullveldi vonar

Fullveldi vonar

Fyrsti sunnudagur í aðventu 2018. Predikun í Stöðvarfjarðarkirkju og Heydalakirkju í Breiðdal

Fyrsti sunnudagur í aðventu 2018. Predikun í Stöðvarfjarðarkirkju og Heydalakirkju í Breiðdal
Fullveldi vonar
Til þín Drottinn, hnatta og heima, hljómar bæn um frið. Veittu hrjáðum, hrelldum lýðnum, hjálp í nauðum, sekum grið. Þegar skjálfa skorðuð fjöllin, skeika flest hin dýpstu ráð, lát oss veika fá að finna fasta bjargið, þína náð.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi, Amen.
Þessi ættjarðarsálmur eftir Pál Kolka, sem var læknir á Blöndósi, er friðarbæn og lýsir vel andblænum í aðstæðum sem íslensk þjóð reyndi á hátíð að fagna fullveldinu 1. desember árið 1918.
Mannskæð heimsstyrjöld hafði geisað og var nýlokið, drepsótt með spönsku veikinni hafði herjað á þjóðina og margir látið lífið, eldgos í Kötlu og þjóðin reyndi mestu kuldatíð í manna minnum með hafís bundnum við landið og nefndur frostaveturinn mikli. Það var lítil björg í búi íslenksra sveita fyrsta fullveldisveturinn.
En það var samt von í hjörtum þjóðar. Friðrik Friðriksson, æskulýðsleiðtoginn mikli, lýsti fjölmennri samkomunni við stjórnaráðshúsið í Reykjavík, þegar íslenski fáninn var fyrst dreginn að hún, að þar hefði verið sorgblíð hátíðargleði. Hann sagði „að um leið og fáninn var að komast á hún opnaðist skýjaþakið og bjart sólskin streymdi niður yfir stöngina og ljómaði á fánann. Þá rann út fyrir mörgum“.
Sorgblíð hátíðargleði. Við minntumst þess núna að síðan eru 100 ár. Saga íslenskrar þjóðar er í blíðu og stríðu og engin velsæld sjálfgefin í þeirri sögu allt fram á okkar dag. En þar er trúin kjölfesta, fasta bjargið, styrkur í voninni.
Um það vitnar þjóðfáninn. Vonarmerkið í krossi eins og sorgblíð hátíðargleði.
Það er sagan, sem krossinn tjáir, um Jesú sem dæmdur var til að deyja þar. Guð dæmdur til að deyja á krossi. En Guði var ekki útrýmt af mönnum úr veröld fyrir það. Hann reis upp frá dauðum. Lífið lifir holskeflu hamfaranna af. Af því að Guð er og verður. Þess vegna biður þjóðin: „Lát oss veika fá að finna, fasta bjargið, þína náð“.
Það var vonin sem sameinaði þjóðina á fullveldisdaginn fyrir 100 árum. Það er vonin sem reynst hefur einstaklingum best í aðstæðum sem ekki er breytt með mannsins valdi. Það var líka vonin sem sameinaði þjóðina í baráttuni fyrir fullveldinu.
Þar gegndi kirkjan stóru hlutverki. Hún var fjölmiðill þeirra tíma og sá um að bera skilaboðin frá forystumönnunum baráttunnar til fólksins um allt land, vera límið sem sameinaði, hreyfingin sem upplýsti, örvaði og hvatti til dáða og samstöðu.
Ekki verður fullveldis minnst án þess að minnast og þakka fyrir Jón Sigurðsson, baráttu hans og forystu, þrautsegju og þolgæði. Hvað sem á gekk, þá var aldrei gefist upp, haldið áfram af festu og styrk. Enginn íslenskur maður reis hærra í uppfræðslunni í barnaskólanum mínum forðum daga. En fullveldið varð ekki til fyrir baráttu eins manns.
Þjóðin var á margan hátt vel í stakk búin í sjálfstæðisbaráttunni og til að innleiða fullveldið. Þar réð mestu, að hún var læs og því menntuð og hafði verið allt frá 18. öld, þrátt fyrir nístings sára fátækt af efnislegum gæðum. Hér er siðbót Lúters og kirkjunni mikið að þakka.
Af því að siðbótin setti læsi almennings og menntun í forgang svo fólkið gæti sjálft lesið Guðsorðabækurnar og ræktað beint samband við Guð. Svo var móðurmálið sett í öndvegi og m.a. gert að skyldu að messan færi öll fram á Íslensku en ekki latínu eins og tíðkast hafði í katólskunni.
Táknræn fyrir menningarbyltingu siðbótarinnar var prentsmiðjan og bókaútgáfan, sem sr. Guðbrandur Þorláksson, biskup á Hólum, stóð þar fyrir og er fyrsti vísir að bókadreifingu á meðal alþýðufólks í landinu. Í kjölfarið á siðbótinni kom skólaskyldan sem var fyrst og lengi bundin við fermingarfæðsluna og enginn mátti fermast nema vera læs.
Barnakennslan var í höndum prestanna í umsjá kirkjunnar, en alltaf í nánu samráði við foreldra og heimilin. Því það var á þeirra ábyrgð að börnin lærðu og var svo um aldir og hart gengið fram um að þjóðin hlýddi skyldunni um uppfræðslu barnanna. Margar sögur eru til um það. Á Íslandi var menntun alltaf álitin til mestu gæða, þjóðin bjó að merkri bókmenntahefð og var stolt af og hlúð hafið verið að í katólskunni í skjóli klaustranna, en fær svo þennan andans byr í siðbótinni á 16.og 17. öld.
Þar gegna Heydalir stóru hlutverki með sr. Einari Sigurðssyni, presti og sálmaskáldi hér, sem orti drjúgt og meira en flestir aðrir í lok sextándu aldar og á fyrri hluta þeirrar sautjándu og margir fengu að njóta um land allt fyrir tilstilli prentsmiðjunnar á Hólum og bókaútgáfu kirkjunnar. Þar var mikið að mörkum lagt til íslenskrar menningar í landinu. Og við njótum þess enn og reynist drjúgt að ausa úr þeim andans sjóði.
Núna eru allar íslenskar bækur prentaðar í útlöndum. Er það tímanna tákn um að hugmynd okkar um fullveldið sé að breytast í ljósi hins nána samfélags þjóðanna?
Inniviðir þjóðar í læsi og alþýðumenntun voru því mikil gæði og styrkur í sjálfstæðisbaráttunni. Enn berast fréttir af þjóðum sem hlutu sjálfstæði undan nýlendukúgun á síðustu öld, en mörgum hefur gengið illa að innleiða sjálfstæðið með sæmilegu stjórnarfari og mannréttindum fyrir almenning,- m.a. vegna ólæsis og takmarkaðrar alþýðumenntunar.
Auður þjóðar er ekki allur metinn til fjár. Langt frá því. Það staðfestir sjálfstæðisbaráttan og fullveldið sem þjóðin ræktaði sér til farsældar. Fullveldi og sjálfstæði er ekki gjöf af sjálfri sér, heldur líf sem fólkið varðveitir, ræktar og þróar með orðum og verkum.
Það verður aldrei metið til fjár, heldur af þeim gildum sem þar gróa og ráða för. Vonin í þjóðfánanum var kristin trú, fasta bjargið, náðin Guðs. Fyrsta desember 1918 var dregin að hún þjóðfáni, sameingartáknið af reynslunni í lífsbaráttunni um aldir. Þar ljómaði von í trú, eins og sorgblíð hátíðargleði.
Þessi von var tendruð í barni sem fæddist í Betlehem og lagt var í jötu. Enn er hátíð í nánd sem minnist þess og fagnar, meiri hátíð en nokkur önnur sem haldin er í íslensku þjóðflífi. Samkvæmt gömlu hefðinni, þá hefst undirbúningur hátíðar í dag á fyrsta sunnudegi í aðventu og markar um leið tímamót og er fyrsti dagur í nýju kirkjuári. Þetta hefur alltaf verið stór dagur, dagur vonar, þar sem eftirvænting blómgast í huga og hjarta.
Táknrænt um það eru ljósin á aðventukransinum. Eitt fyrir hvern sunnudag, og þeim fjölgar er nær dregur jólum. Kannski er nútíminn búinn að missa sambandið við ljósið, af því að það virðist svo sjálfgefið með rafmagninu. Það er eflaust fleira sem þjóðin hefur misst úr sambandi sínu við lífið og nýtt tekið við.
Samt eru jólin og undirbúningur þeirra í hugum margra eins og afturhvarf til þess gamla, að varðveita gamla siði og hefðir, hverfa aftur inn í fortíðina, leyfa minningum að streyma fram, tendra ljós í sálinni, þakka og lofa, göfga innri fegurð, sakna og syrgja, rækta sorgblíða hátíðargleði.
Þó að hagsældin ljómi víða og kröfur um almenna velferð meiri en nokkurn Íslending gat í huga komið fyrir 100 árum, þá er ríkidæmi manns og þjóðar æðst í þeim kærleika sem við njótum í dagsins önn, að vera umvafin í vináttu með ástvinum okkar, mega leggja gott að mörkum og finna til sældar í sálinni.
Það er kærleikur sem ljómar af boðskap jólanna. Af þeim kærleika undirbúum við hátíð á jólum. Þar er von sem segir: „Lát oss veika fá að finna fasta bjargið, þína náð“ af því að Jesús Kristur sagði í guðspjalli þessa dags: „Andi Drottins er yfir mér og sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar“.
Það staðfestir íslensk hátíð á jólum, þar sem þjóðin sameinast um að fagna voninni sem trúin boðar. Í Jesú nafni. Amen.