Viðskiptavinur eða safnaðarmeðlimur?

Viðskiptavinur eða safnaðarmeðlimur?

Eru þau sem koma í kirkjuna viðskiptavinir hennar? Eru þau sem koma í kirkjuna safnaðarmeðlimir? Þessi áleitna spurning er ein af mörgum sem vakna við lestur doktorsritgerðar Stig Linde.

S8306481

Ein af bókunum sem ég sit yfir í sumarfríinu ber titilinn: ,,Församlingen i granskningssamhället". Hér er um doktorsritgerð í félagsfræði að ræða. Höfundur hennar er Stig Linde. Í ritgerðinni greinir hann frá því að hann hafi löngum velt því fyrir sér hvers vegna sumir þættir í kirkjustarfinu séu varanlegir en aðrir ekki. Einnig að hann hafi oft spurt sig hvernig okkur sem störfum í kirkjunni gangi að taka nýjum hugmyndum og hvað ráði för hvort þær verði hluti af starfinu eða ekki. Sú breyting sem orðið hefur á kirkjustarfinu síðustu áratugina er honum einnig hugleikin. Lestur ritgerðarinnar gefur áhugavert innlit í sænskt kirkjulíf og vekur margar spurningar um íslenskt kirkjulíf og þá ekki síst hvernig koma megi á árangursmati í kirkjustarfi á Íslandi.

Dr. Linde bendir á að árangursmat feli ekki bara í sér að samhengið milli þess hvað söfnuðurinn ætlar sér og hvernig það skilar sér sé rannsakað. Samhengið sem rannsóknin sé framkvæmd í sé ekki síður mikilvægur þáttur og ekki sama hver meti starf safnaðarins og hvaða mælitækjum sé beitt (bls. 18). Þá verði að skoða hvað sé gert við þær niðurstöður sem stjórnendur safnaða hafi í höndunum. Þannig bendir hann t.d. á að þær tilfellarannsóknir sem hann hafi framkvæmt bendi til þess að þegar kemur að díakoníunni í söfnuðunum þá virðist vera sem engin breyting verði á starfsháttum þar, þrátt fyrir að stjórnendur safnaða hafi undir höndum gögn úr rannsóknum sem nýta mætti til þess að díakonían í söfnuðinum yrði ígrundaðri (bls. 219-220).

Að mati dr. Linde er brýn þörf á að kirkjan taki sér tak hvað eigið árangursmat varði, sérílagi í ljósi breyttrar stöðu hennar frá árinu 2000. En það urðu stórfenglegar breytingar á tengslum ríkis og kirkju í Svíþjóð. Um það segir höfundurinn:

Svenska kyrkan var en statlig myndighet och kommunallagsstyrd förvaltning, och står i ett skifte. Till vad? Den historiska utvecklingen har medfört att Svenska kyrkan som nationalitetsmarkör tonats ned. Kyrkotillhörighet och medborgarskap är idag separata storheter (bls. 229).
Og hann bætir við að undanfari þessara breytingu hafi verið nýr þjónustuskilningur innan sænsku kirkjunnar, það hafi sífellt skipt minna og minna máli hvaða söfnuði maður tilheyrði. Í dag sé svo komið að spyrja þurfi hvort að fólk sé meðlimir í kirkjunni, eða viðskiptavinir hennar (bls. 229). Í þessu samhengi er vert að nefna að hann bendir á annars staðar í ritgerðinni að stórfeldar breytingar voru gerðar á safnaðarskipan í tengslum við aðskilnað ríkis og kirkju, t.d. hafi verið gerð sú breyting í Lund-prófastsdæminu að sóknum var fækkað úr 182 í 49 (bls. 37). Þá séu starfandi í Svíþjóð 35 sóknir með 30.000 eða fleiri sóknarbörn hver, en flestar stóru sóknanna eru í nágrenni Stokkhólms (bls. 35).

Það sé hlutverk okkar allra, að mati dr. Linde, að spyrja hvaða mynd við viljum sjá af kirkjunni í framtíðinni: Mynd af kirkju sem er hluti af stofnunum ríkisins eða sem óháð trúfélag? Mynd af kirkju sem er samfélagslegt afl eða rekstraraðili stofnana í félagsþjónustu? ... Ákvörðunin sé okkar, við getum tekið ákvörðun um hvaða myndir við viljum styrkja eða ekki (bls. 245-246).

Spurningin sem ég sit með uppi eftir fyrsta lestur ritgerðarinnar er: ,,Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?" Ég er hugsi yfir þeirri mynd sem Stig Linde dregur upp af þróun síðustu ára. Vissulega þekki ég þá sögulegu staðreynd að kirkjan hefur þróast víða frá litlu sveitakirkjunni þar sem presturinn var eini starfsmaðurinn í fullu starfi og við hlið hans organisti og einhver sem sá um kirkjuna og kirkjugarðinn, yfir í stóru borgarkirkjuna þar sem fjöldi sérhæfðra launaðra starfsmanna framkvæmir safnaðarstarfið.  En ég held að ég geri mér ekki að fullu ljóst hvaða þýðingu það hafi fyrir tengsl einstaklingsins við kirkjuna. En ég skil að ég þarf (og væntanlega við sem kirkja) að ákveða fyrst hvort ég vil skilgreina einstaklinginn sem viðskiptavin kirkjunnar eða sem meðlim í söfnuði, áður en ég get farið að tala um árangursmat í kirkjustarfi.