Lausn yðar er í nánd

Lausn yðar er í nánd

Fuglaflensufaraldur, þjóðir heims byrgja sig upp af lyfjum, eflaust eru einhverjir komnir niður í einangruð byrgi með dósamat eins og þegar umræðan um kjarnorkustríð stóð sem hæst. Þynning Ósonlagsins og hlýnun jarðar, verður birta sólarinnar innan tíðar banvæn?

Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.

Hann sagði þeim og líkingu: Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.

Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða. Lúk 21.25-33

Fuglaflensufaraldur, þjóðir heims byrgja sig upp af lyfjum, eflaust eru einhverjir komnir niður í einangruð byrgi með dósamat eins og þegar umræðan um kjarnorkustríð stóð sem hæst. Þynning Ósonlagsins og hlýnun jarðar, verður birta sólarinnar innan tíðar banvæn?

Við hlustum á þessa umræðu, við látum kannski sem ekkert sé, en innst inni býr tilfinning sem heitir ótti og við erum í huganum farin að hugsa um að byrgja okkur upp af dósamat og bíða allar þessar skelfingar af okkur upp í bústað, helst sem lengst frá mannabyggðum. Er heimsendir í nánd? Eru t.d. fuglaflensan og þynning ósonlagsins merki þess að nú sé þessu öllu að ljúka og við stöndum frammi fyrir stóradómi, heimsendi.

Bíómyndirnar draga upp svo skelfilega mynd þannig að annaðhvort hlæjum við bara að vitleysunni eða höldum fyrir augun. Hvorttveggja varnarviðbrögð. Reyndar er það þannig í þessum myndum að heimsendir virðist bara verða í New York, en það er svo allt önnur saga.

Hins vegar eru þær myndir af endalokum heimsins, sem okkur eru birtar í bíó venjulegast eitthvað í þá veruna að það er mikill ís og kuldi, sem leggst yfir allt, stórir fellibyljir, sem æða yfir og hrifsa okkur með, eða litlir grænir kallar, sem eru eitthvað í nöp við okkur, og taka okkur með sér út í geiminn.

Þetta vekur upp þá hugsun hvort þessar myndir endurspegli ekki á einhvern hátt sektarkennd okkar mannfólksins, ætli við eigum ekkert betra skilið, erum við virkilega búin að vera svona óþæg, er sjálfsmynd okkar svona brotin? Guð reisir hana við af því að hann elskar okkur öll sem manneskjur, þó svo að gjörðir okkar allar þurfi ekkert sérstaklega að vera Honum að skapi?

Við þær vangaveltur megum við nefnilega hlusta vel eftir kjarnanum, þar sem segir í guðspjallinu “lyftið upp höfðum yðar því að lausn yðar er í nánd”, en þar er verið að ræða um endurlausn einstaklingsins, sem merkir frelsun frá hinu illa, það mun eiga sér stað við endurkomu Krists á hinum efsta degi.

Endurlausn er nefnilega ekkert annað en líknandi frelsun Guðs okkur mönnum til handa, frelsun sem er algjörlega frá Guði komin og alls ekki háð gjörðum okkar mannanna eða atburðum í lífi okkar.

* * *

Fuglaflensan, kjarnorkuváin og þynning ósonlagsins m.a. halda okkur hins vegar við efnið, minna okkur stöðugt á að við erum ráðsmenn hér á jörðu og við þurfum að finna til ábyrgðar okkar í þeim efnum, en við skulum hins vegar ekki láta okkur detta það í hug að fuglaflensa, hlýnun jarðar, eða hvað annað í þeim dúr, séu einhver ótvíræð merki þess að heimurinn sé að líða undir lok, hversu sterkur sem allur hræðsluáróðurinn getur nú verið.

Þetta eru ekki tákn um endalok heims vegna þess að þetta eru einmitt hugmyndir okkar mannfólksins um endalokin. Hugmyndir okkar skipta engu máli í þessu samhengi, verða okkur reyndar fremur til vansa og fylla okkur enn frekar vanlíðan. Það sem skiptir máli í þessu samhengi er Guð almáttugur skapari himins og jarðar. Það var Guð, sem skapaði þennan heim, Guð er upphaf alls og þá er það á hans könnu að ákvarða um endalokin, hvernig svo sem þau verða? Má vera að undanfari þess verði með allt öðrum hætti, vegna þess að Guð kemur okkur mannskepnunni sífellt á óvart ekki satt?

Af hverju í ósköpunum er ég að fjalla um endalokin á þessum kyrrláta og góða tíma sem aðventan er, þar sem við erum jú að hugleiða þennan boðskap þegar frelsarinn Jesús Kristur fæddist, nýtt líf kviknaði, nýtt upphaf varð. Það er nefnilega vegna þess að guðspjall dagsins fjallar um komu Jesú hina síðari er “himinn og jörð munu líða undir lok.” Þá er það spurningin verða endalokin ekki nýtt upphaf, verðum við t.d. ekki hluteigendur að nýju upphafi þegar við deyjum, hefur Jesús ekki séð til þess með dauða sínum og upprisu? Að sjálfsögðu í ljósi kristinnar trúar. Hugleiðum þetta!

Það er því þannig að við þekkjum fyrri komu Jesú í bænum Betlehem, sú koma var flestum dulin þá. Það urðu ekki margir vitni að þeirri komu þegar lítið barn fæddist í gripahúsi. Það má þó ljóst vera af textanum sem lesin var frá altari Drottins í dag, að þá virðist endurkoma Krists á hinum efsta degi verða mun sýnilegri viðburður, sem mun ekki fara framhjá neinum, öll heimsbyggðin verður til vitnis.

Það er því ljóst skv. orðum ritningarinnar að koma Krists, sem um er fjallað í dag og felur í sér framtíðarsýn þar sem m.a. segir “þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð” sýnir okkur það með skýrum hætti að það er ekki einvörðungu um að ræða friðsama birtingu jólabarnsins. Sú koma heyrir fortíðinni til, og við gerum okkur klár fyrir endurkomu Jesú Krists.

Undirbúningur! Það er stórt og mikilvægt hugtak í öllu þessu samhengi. Við vitum að það er gott að undirbúa vel jólin. Við þekkjum það að það fylgir undirbúningi jóla að skreyta, skrúbba og ýmislegt fleira. Og svo er það óskaplega nauðsynlegt að undirbúa sinn innri mann, öðlast sálarfrið og njóta þess boðskaps og meðtaka, sem aðventa og jól fela í sér og hafa fram að færa. Það er allt gott og blessað og sannarlega verðugt að hvetja til undirbúnings að innan sem utan.

En þurfum við ekki alltaf að vera að undirbúa okkur. Það eru t.d. allir sammála um það að það er nauðsynlegt að undirbúa verkefni þau sem við innum af hendi sérhverju sinni. Það þekkjum við íslendingar, sem erum þjóð er elur á mikilli vinnudyggð. Ég undirbjó t.d. þessa prédikun, því ég hafði svo sem engan metnað í þá átt að standa hér í stólnum og klóra mér í hausnum.

Það er nefnilega það sem gerist ef við undirbúum okkur ekki, við klórum okkur í hausnum og allt kemur okkur einhvern veginn á óvart eins og hjá meyjunum fimm sem voru ekki nógu forsjálar, sofnuðu á verðinum, áttu ekki olíu á lampana þegar brúðguminn kom loks til veislunnar sbr. sagan kunna um meyjarnar tíu í guðspjalli Matteusar.

Já, Jesús kemur fyrr en varir á skýi og mun dæma lifendur og dauða eins og við kristið fólk höfum játað og játum enn. Það er því ljóst að undirbúningurinn þarf stöðugt að vera til staðar, sérhverja stund, sérhvert augnablik, þannig að koma hans verði okkur í raun ekki til dóms, heldur til hjálpræðis.

* * *

Það er deginum ljósara að það er ekki nóg að rækta samband sitt við náungann bara á jólum, við vitum að það er ekki nóg að gefa til hjálparstarfsins bara fyrir jól, allt er það virðingarvert og gott, en sá sparibúningur sem hjörtu okkar íklæðast gjarnan á jólahátíð, er okkur til áminningar um það að þau séu honum íklædd allt árið um kring, alltaf, því Mannssonurinn Jesús, sem gerðist maður á helgum jólum, hann mun koma í skýi með mætti og mikilli dýrð og það er gott að vita til þess að skýið táknar hina guðlegu návist í endurkomunni.

Hugleiðum það líka að fæðing barnsins í Betlehem var stór viðburður og jafnframt stór liður í öllu þessu undirbúningsferli fyrir hina dýrðlegu endurkomu Jesú. Jesús kom til okkar á helgum jólum, til þess að hjálpa okkur að takast á við okkur sjálf, til þess að hjálpa okkur frekar að komast að því hver við erum, til þess að hjálpa okkur að koma auga á það sem skiptir máli í þessum heimi, greina hismið frá kjarnanum, til þess að sjá hlutina með gleraugum sannleikans, réttlætisins og kærleikans, “réttlætið mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans”. Það að tileinka sér þann lærdóm, sem Guð veitir er sannarlega mikilvægur þáttur í öllu þessu undirbúningsferli.

Á jólum kom hann í heiminn til þess að frelsa okkur, hann kom í heiminn til þess að friðþægja fyrir þær syndir, sem við höfðum framið og þó svo að við höldum áfram að fremja þær að þá munum við aldrei fremja þær með sama hugarfari og áður, en Jesús birtist þessum heimi og hvað þá er við hugsum til þess að hann eigi eftir að koma aftur til þess að dæma lifendur og dauða. Okkur hefur hlotnast gjöf, sem heitir samviska og það er afl, sem nauðsynlegt er að nýta sér til lærdóms.

Hins vegar hlýtur sá dómur að einkennast af því sem hann lifði fyrir hér á jörðu fyrir 2000 árum, það er fyrir sannleika, réttlæti og kærleika, Jesús er og verður holdgervingur þessara hugtaka, því með lífi sínu, dauða og upprisu að þá sannaði hann það allri heimsbyggðinni, meira að segja óvinum, sem krossfestu hann, því þeim varð að orði er þeir sáu landskjálftann og atburði föstudagsins langa “sannarlega var þessi maður sonur Guðs.”

* * *

Hér hefur verið talað um dóm. Dómur á hinum efsta degi. Dómshugtakið er vandmeðfarið hugtak. Við hugsum um það venjulegast í neikvæðu samhengi. Við hugsum um refsingar, Guð endurlausnar er ekki refsandi Guð, það er réttlátur Guð, það er Guð sem horfir á okkur sem börn, sem þarf að hlúa að og elska.

Þess vegna má dómur Guðs vera annars eðlis, en sá dómur sem við beitum í okkar mannlega jarðneska lífi. Dómar okkar eru settir fram í vanmætti og eru oftar en ekki gefnir út fyrirfram, án þekkingar, fordómar, slíkir dómar eru ekki til hjá Guði. Jesú varð einmitt að orði í sinni kunnu siðferðisræðu fjallræðunni, “dæmið eigi og þér munuð eigi dæmdir verða”.

Þessir fordómar koma t.a.m. fram í því þegar sérstakir söfnuðir líta svo á að þeir séu útvaldir þegar að hinum stóra og réttláta dómi kemur. Með fullri virðingu fyrir öðrum trúarsöfnuðum, að þá eru til söfnuðir, sem eru hreint og beint hættulegir í þessu samhengi og þar má nefna nokkra þá söfnuði, sem hafa haft innanborðs sterka trúarleiðtoga, sem hafa gefið út sjálfsvígstilskipanir, það sé leiðin til frelsunar. Þannig hafa menn sett sjálfa sig í dómarasætið í tengslum við endatímakenninguna og það er versta syndin og getur haft skelfilegar afleiðingar.

Þá höfum við nokkur sérstök tilbrigði í þessu sambandi og eilítið kómískt að nefna þar til sögunnar Hare Krishna söfnuðinn. Þar treysta menn á guðinn Krishna, sem kemur úr indverskum átrúnaði. Það er einkennandi við áhangendur Krishna guðsins að þeir eru allir með hárbrúsk í hvirfli, en það er til þess gert að auðvelda verkið fyrir Krishna, sem mun bara kippa í brúskinn þegar endalokin verða og bjarga þannig sínum mönnum.

Undirbúningurinn kann því að vera mótandi bæði til góðs og ills og þess vegna er nauðsynlegt að vanda vel til hans. Við skulum gera okkur vel grein fyrir því í þeim undirbúningi að dómur Guðs er réttlátur og verður þegar honum þóknast en ekki okkur.

Hugleiðum það einnig að rétt eins og lauf fíkjutrésins boða komu sumars að þannig eiga þau tákn sem um er fjallað í guðspjallinu að bera merki um endurkomu mannssonarins.

“Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða”, þarna leggur Jesús áherslu á eftirfarandi orð, sem Guði eru lögð í munn í spádómsbók Jesaja:

“Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega.”

Það er orðið eilífa, orð Guðs, sem við á helgri aðventu horfum til, orðið sem varð hold og bjó á meðal okkar, og birti og mun birta okkur það sannleiksljós, sem vísar okkur veginn í átt til dýrðar Guðs. Þess biðjum við í Jesú nafni. Amen