Trúin - glatað tækifæri?

Trúin - glatað tækifæri?

Á meðan sótti efinn enn á prestinn um að fara með bæn í skólanum. Það varð þögn, svolítið vandræðaleg þar til lítil stúlka sagði: „Getum við ekki beðið Guð um að hjálpa okkur?“ ... Kirkjan er í fótsporum Jesú Krists sem hvorki sakfellir né dæmir, heldur umvefur og líknar, biður og vonar

Ó faðir gjör mig sigursálm eitt signað trúarlag sem afli blæs í brotinn hálm og breytir nótt í dag.

Sæluboðin eru okkur hjartfólgin og eru guðspjallið á allra heilagra messu, fyrsta sunnudegi í nóvember, þegar kirkjan heiðrar minningu látinna ástvina. Sæluboðin, þessi fallegi óður sem vekur frið í hjarta. Um leið erum við minnt á hve daglegt mál er samofið í kristna trúarhefð. Við heilsumst og kveðjumst einmitt með orðunum sæll og blessaður, sæl og blessuð, sem skírskotar beint inn í sæluboðin og blessunarorðin. Verum sæl eins og sæluboðin í Biblíunni segja og megum við njóta verndar og blessunar Guðs. Íslenskan er eina tungumálið á meðal nágrannaþjóða sem ræktar slíkan sið.

Þetta er enn eitt dæmið um hve kristin trú og þjóðlíf er samgróið á Íslandi þar sem heilsan og kveðjan í dagsins önn er í raun lifandi trúarjátning. Engar kröfur hafa enn komið fram um banna það, þó bænabann hafi verið innleitt í reykvíska grunnskóla og nokkrar háværar raddir vilji útrýma flestu úr menningu og siðum sem minnir á kristna trú. Reynslan er sú, að þó látið sé vaða á súðum gagnvart trú og kirkju á meðan allt leikur í lyndi, þá þagna slíkar raddir þegar neyðin blasir við. Þá er trúin hinsta skjólið. Það hefur þjóðin reynt á ögurstundum í aldanna rás hvort sem litið er til náttúrhamfara eða áfalla í lífi einstaklinga og fjölskyldna.

Prestur sagði mér frá því, að hann hefði heimsótt skólann í bænum sínum í framhaldi af slysi sem snerti mjög nemendur og kennara. Hann var óöruggur í ljósi umræðna hvort honum yrði stætt á að fara með bæn og biðja Faðir vorið í skólanum. Hann talaði við börnin og í lokin vildi hann gefa kost á því að spyrja. Á meðan sótti efinn enn á prestinn með bænina. Það varð þögn, svolítið vandræðanleg, þar til lítil stúlka sagði: “Getum við ekki beðið Guð um að hjálpa okkur”. Og skólinn ómaði þá af einlægri, hjartans bæn, Faðir vor, þú sem ert á himnum. Hversu oft hefur ekki þessi bæn verið líflínan úr neyð til vonar? Hversu oft hefur ekki einmitt bænarorðið verið haldreipið? Ég gleymi aldrei orðum móður minnar þegar fjölskylda mín stóð andspænis sárum missi: “Nú getum við ekkert annað gert, en að biðja Guð um að hjálpa okkur”.

En Guð er meira en bjargráð á ögurstundum. Guð þráir, að fagurt mannlíf megi blómgast og dafna á meðal okkar. Um það fjalla sæluboðin sem beina sjónum að sönnum lífsgæðum. En oft er leitað langt yfir skammt, vatnið sótt yfir lækinn og haldið að flest sé betra en það sem er í hendi, glepjast af öfund og hégóma og græðgin látin ráða för.

Saga H.C Andersen um fátæka konungssoninn sem var ástfanginn af ríku keisaradótturunni er táknræn fyrir það. Konungssonurinn ákvað að gefa keisaradótturinni sín dýrustu gersemi til að tjá ást sína, rauða rós sem þótti fegurst allra rósa og ilmaði svo sætt, að maður gleymdi öllum sorgum og áhyggjum. Einnig næturgalann sem söng svo fallega að það var eins og öll fegurstu sönglög væru samankomin í barka hans. En keisaradótturinni fannst lítið varið í slíkar gjafir og vildi langtum fremur kisu en rós og spiladós heldur en söngfugl og ekki væri mikið varið í mann sem gæfi svona gjafir. Konugssonurinn gafst þó ekki upp og klæddi sig í tötralegan búning, óhreinkaði andlit sitt og fekk vinnu hjá keisaranum sem svínahirðir.

Á meðan hann var þar bjó hann til pott með bjöllum og þegar sauð í pottinum þá léku bjöllurnar vinsælasta dægurlagið og ef fingurinn var setur yfir gufuna úr pottinum, þá mátti óðara vita hvaða mat væri verið að elda í hverju einasta eldhúsi í allri borginni. Þennan pott vildi keisaradóttirin fyrir alla muni eignast, en varð að kyssa svínahirðinn sjö sinnum í skiptum fyrir pottinn. Það þótti mikil skömm að keisaradóttir kyssti svínahirði. En það mátti nú ýmislegt á sig leggja til að komast yfir dýra hluti.

Og nú gat keisaradóttirin skemmt sér hressilega með hirðmeyjum sínum yfir pottinum, sungið vinsælasta lagið um leið og hún var með nefið ofan í hverjum einasta potti í borginni. En þá bjó svínahirðirinn til hrossabrest sem gat spilað alla valsa, hopsa og polka sem þekktir voru frá fyrstu sköpun heimsins. Og þennan hrossabrest vildi keisaradóttirin fyrir alla muni eignast. En hún varð að greiða fyrir það með því að kyssa svínahirðinn með 100 kossum. Á meðan kossaflansinu stóð, kom keisarinn þar að, hneykslaðist og reiddist svo ógurlega, að hann rak dóttur sína og svínahirðinn í útlegð. Hvar þau standa saman úti í miðjum skóginum í grenjandi rigningunni og óhreinindin hverfa úr andliti konungssonarins og konungsdóttirin sér hver hann er í raun og veru. Þá sá hún eftir öllu, grét af harmi yfir því að hafa ekki þegið gjafirnar góðu, rósina og fuglinn og tekið á móti fallegum konungssyni sem elskaði hana, en látið glepjast af græðginni og hégómanum. Því konungssonurinn gekk inn í konungsríki sitt, skellti aftur hurðinni, en keisaradóttirin stóð ein og alslaus eftir.

Er þetta dæmisagan um mannlíf nútímans? Það er þekkt þegar maðurinn stendur eftir með glötuð tækifæri og hurðin skellist í lás á eftir honum. Fjölmiðlar segja oft slíkar sögur. Það varð heilt efnahagshrun á Íslandi af því að dýrmætum tækifærum var fórnað í súginn fyrir græðgi og hégóma. Trúin stendur öllum til boða til að rækta og njóta. Verður hún glatað tækifæri þegar á reynir? Þrátt fyrir alla þekkingu og allar framfarir, þá er maðurinn sístæðri í baráttu við sjálfan sig um að rata góðar leiðir í lífinu. Keisaradóttirin stóð uppi með glötuð tækifæri í fanginu, en framtíðin var óráðin. Hún stóð á vegamótum, iðraðist og horfðist í augu við sjálfa sig og ábyrgð sína. En kannast nútíminn fremur við, að í slíkum aðstæðum sé allt lagt í sölurnar til að kenna öðrum um ófarir og það sem miður hafi tekist? Bænin um æðruleysið á alltaf svo mikið erindi í síbreytilegum aðstæðum í blíðu og stríðu:

“Guð gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli”.

Þetta er hin kristna von, að gefast ekki upp, skynja ábyrgð sína af sanngirni, læra og þroskast af reynslunni, hjálpast að og rækta vináttu. Þegar Frísearnir ætluðu að fara að grýta konu til dauða sem staðin hafði verið að því að drýgja hór, þá sagði Jesús: “Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum”. Farísearnir hurfu þá á braut. En Jesús sagði þá við konuna: “Sakfelldi þig enginn? Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar”.

Kirkjan er í fótsporum Jesú Krists sem hvorki sakfellir né dæmir, heldur umvefur og líknar, biður og vonar. Kirkja sem kallar í Krists stað: “Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eru hlaðin”. Þetta verður svo ljóst þegar alvara lífsins blasir við. Þá er kirkjan heilagt skjól, skjólið sem hefur Guð í miðju, haldreipið þegar jarðneska krafta þrýtur og barnið kallar: “Getum við ekki beðið Guð um að hjálpa okkur”.

Það gerum við þegar við minnumst látinna ástvina. Þá reynir á staðfasta trú í ærðuleysi um að látinn ástvinur hvíli í náðarfami Guðs. Hvorki viska né máttur mannsins getur nokkru um það ráðið. Aðeins eitt megnar að tendra lifandi von: “Ég treysti Guði”. En minningar allar, fagrar og góðar, eigum við í huga og hjarta. Það er heilagur sjóður auðs og gæða. Guð blessi það allt og glæði þakklæti vort.

Ó faðir gjör mig blómstur blítt sem brosir öllum mót og kvíðalaust við kalt og hlýtt er kyrrt á sinni rót.

Amen.