Móðir, kona, meyja

Móðir, kona, meyja

Mörgum konum hefur reynst það þrautin þyngri að gera Maríu að alvöru fyrirmynd. Hún hefur gjarnan verið notuð sem ímynd hinnar fullkomnu konu sem á að vera allt í senn; hrein mey, táknmynd frjóseminnar, margra barna móðir. Hún á að vera til í allt en um leið fullkomlega fjarlæg, niðurlút og ómögulegt að ná til hennar.

Hvernig eru góðar mömmur? Eru það konur sem skamma lítið og faðma mikið? Eru það konur sem eru alltaf í góðu jafnvægi og tilbúnar að gefa börnum sínum jákvæða athygli? Eða eru það konur sem stundum gleyma að vera í fullkomnu jafnvægi, múta börnum sínum með tölvuleikjum eða nammi til þess eins að fá smá hvíld?

Í dag, á öðrum degi jóla langar mig að tala um mömmur. Eða nánar tiltekið um eina ákveðna mömmu. Þessi mamma er María móðir Jesú.  Við heyrðum um hana í guðspjallinu sem ég las rétt í þessu og við nefnum hana um hver jól. Þessi merkilega kona hefur þó orðið svolítið útundan í okkar Lútersku kirkju.

María var merkileg manneskja og sannarlega þess virði að við hyllum hana sem móður, konu og manneskju. Konur skipa ekki mörg, stór eða áhrifamikil hlutverk í Biblíunni en þær sem höfðu áhrifamikil hlutverk hafa ýmist fallið í gleymsku vegna þöggunar, verið breytt í karlmenn af Biblíuþýðendum og/eða orðið svo upphafnar að þær urðu ómanneskjulegar.

Og það er svolítið merkilegt með Maríu að á meðan hún var nánast þögguð niður af sumum kirkjudeildum var hún upphafin af öðrum.

María varð þekkt fyrir að fæða frelsara heimsins. En fleira dreif á daga hennar en fundurinn með englinum, ferðin til Nasaret á asnanum og fæðingin í fjárhúsinu. Hún varð ólétt þegar hún var unglingur -sem reyndar var algengt á þessum tíma- í samfélagi þar sem litið var á konur sem eign karla. Hún var ekki gift kærastanum sínum, honum Jósef, sem var góður maður af fínum ættum. Hún fæddi síðan barn sitt á ferðalagi í fjárhúsi eða það sem er enn líklegra, í köldum helli. Og fljótlega eftir fæðinguna þurfti hún að flýja með barnið í gegnum eyðimörk þar sem líf þess var í hættu.

María gaf allt til þess að vernda þetta litla barn. Barnið sitt. Hún vildi sjá það vaxa og þroskast og geta síðan sleppt af því hendinni sem myndugum einstaklingi, tilbúnum til að lifa eigin lífi. Hún lagði sitt af mörkum til þess að sonur hennar gæti gæti orðið það sem hann varð.

María var valdamikil kona vegna þess að hún var móðir Jesús, sá um uppeldi hans og umönnun. Þrátt fyrir það hefur hún ekki fengið að skipa stóran sess í hinni Lútersku kirkju og hafa áhrif hennar og mikilvægi fallið í þagnargildi í kirkjunni okkar. Reyndar voru Íslendingar víst frekar seinir að útrýma henni úr trúarlífinu og voru enn að semja um hana kvæði löngu eftir að önnur Lútersk samfélög í Evrópu höfðu losað sig við áhrif hennar og myndir. En þrátt fyrir eindæma óhlýðni Íslendinga tókst okkur nokkurn veginn að úthýsa Maríu að lokum.

Kristin kirkja öll hefur átt í ákveðnum vandræðum með Maríu og líklega hefur engu okkar tekist að gera henni rétt til.

Til þess að hún yrði ekki of áhrifamikil í kristninni, var annars vegar gripið til þess ráðs að gera allt er henni tengdist óraunverulegt, upphafið og ómennskt. Kannski til þess að leggja á það áherslu að mennsk kona gæti aldrei haft slík og þvílík áhrif. Einnig hefur margt er henni viðkemur verið þaggað niður. Og þegar hún á annað borð hefur birst í myndlistinni hefur það verið sem sem niðurlút, fögur meyja sem er of vel upp alin til að mæta augnaráði okkar.

Meydómur Maríu hefur gegnt þýðingarmiklu hlutverki í kristni og hefur að einhverju leyti ýtt undir tvíhyggju, aðskilnað sálar og líkama, hins æðra og hins óæðra, hins kvenlega og hins karllega.

Mörgum konum hefur reynst það þrautin þyngri að gera Maríu að alvöru fyrirmynd. Hún hefur gjarnan verið notuð sem ímynd hinnar fullkomnu konu sem á að vera allt í senn; hrein mey, táknmynd frjóseminnar, margra barna móðir. Hún á að vera til í allt en um leið fullkomlega fjarlæg, niðurlút og ómögulegt að ná til hennar. Þessi upphafna kvenmynd, meyjan og móðirin ósnertanlega spilar enn í dag stór hlutverk í fjölda vinsælla kvikmynda og sjónvarpsþátta samtímans en hefur enga tengingu við líf raunveruleika kvenna af holdi og blóði.

Það hvarflar ekki að mér að María, mamman hans Jesú hafi verið svona fullkomin. Hvernig má það líka vera? Jesús sem var sönn manneskja, um leið og hann var Guð, hlýtur að hafa verið alinn upp af fullkomlega mennskri móður.

María átti án efa bæði góðar og slæmar stundir. Ég er viss um að hún hafi skammað drenginn þegar þolinmæðin brast og þreytan náði yfirhöndinni (þótt ekki hafi hún haft tölvuleiki til að múta honum með). Ég er sannfærð um að hún hafi hrósað honum reglulega og knúsað hann rækilega. Hún hefur sennilega gert ýmis mistök í uppeldinu og hún hefur án efa gert margt rétt. Hún hefði sjálfsagt skuldað Jesú nokkra sálfræðitíma þegar hann óx úr grasi ef „þerapíur“ hefðu verið í boði á þeim tíma.

Þannig eru nefnilega venjulegir foreldrar af holdi og blóði.

Þið kannist eflaust vel við þessar lýsingar, kæru foreldrar sem í dag hafið borið barnið ykkar til skírnar. Okkur tekst oft vel upp sem foreldrar en við gerum líka mistök. En það besta sem við, mömmur og pabbar, getum gert er að elska börnin okkar og minna þau endalaust á að þau eru elskuð.

Það er mín ósk í dag að þið berið með ykkur myndina af Maríu móður Jesú, sem góðri foreldrafyrirmynd og sem magnaðri konu sem var falið stærsta hlutverkið. Þessi kona gæti allt eins verið þú eða ég því Guð, sem sér það góða og fullkomna í sköpun sinni, velur þig og mig til að framkvæma góðu verkin í heiminum.

María er hetja jólanna. Hún er andlit hugrekkisins, viljastyrksins og kærleikans. Hún vissi hvað einmannaleiki, varnarleysi og fátækt var.

Jólin eru einmitt allt þetta. Þau eru ekki aðeins gleði, friður, gjafmildi og huggulegheit. Á meðal okkar er einnig einmannaleiki, varnarleysi og fátækt.

Munum eftir Maríu þessi jól. Heiðrum Maríu öll jól. Án hennar væru engin jól. Amen.