Kölluð til kærleiksþjónustu

Kölluð til kærleiksþjónustu

Jesús er fyrirmynd. Líf hans sem manneskju opnar leið okkar, sem á hann trúum, á meðal fólksins í samfylgd Guðs. Jesús nam staðar þar sem hans var þörf. Hann spurði ekki um trúarafstöðu né kynþátt en tjáði í orðum og með verkum kærleika Guðs. Enn í dag opnar hann augu okkar fyrir kærleika Guðs, því við þurfum á honum að halda.

Jesús kom ekki í þennan heim til að dæma. Hann kom með fyrirgefninguna til okkar, frelsaði okkur manneskjurnar og opnaði okkur nýjan lífsveg. Því Guð sendi Jesú Krist í þennan heim sem sönnun kærleika síns.

Köllun Jesú var á svipaðan hátt og köllun spámanna gamla testamentisins sú að benda á það óréttlæti og þann ójöfnuð sem viðgekkst í samfélaginu. Þessi staða er óbreytt í dag. Trúin á Guð felur í sér þátttöku í baráttu gegn mismunun.

Því hjá Jesú eru sannleikurinn og kærleikurinn óaðskiljanlegir þættir. Og sannleikurinn er fólginn í þeirri náð sem Guð sýnir okkur þegar hann í stað refsingar fyrir syndir okkar sýnir okkur kærleika. Það kennir okkur að taka sáttargjörð fram yfir hefnd, jöfnuð fram yfir ójöfnuð, réttlæti fram yfir óréttlæti, miskunn fram yfir miskunnarleysi, manneskjuna fram yfir sífellt aukna kröfu um skilvirkni.

Allt líf okkar ætti að endurspegla þá lífssýn sem Guð vill að við berum í hjarta okkar. Lífssýn þar sem hver og ein manneskja er elskuð, umvafin kærleika af því hún er, ekki vegna þess hvað hún gerir.

Jesús er fyrirmynd. Líf hans sem manneskju opnar leið okkar, sem á hann trúum, á meðal fólksins í samfylgd Guðs. Jesús nam staðar þar sem hans var þörf. Hann spurði ekki um trúarafstöðu né kynþátt en tjáði í orðum og með verkum kærleika Guðs. Enn í dag opnar hann augu okkar fyrir kærleika Guðs, því við þurfum á honum að halda. Verk Jesú höfðu og hafa enn varanleg áhrif á manneskjur og samfélagið í heild. Því Jesús frelsar undan oki.

En Jesús er meira en fyrirmynd. Mikilvægast var og er að hann braut niður múrana milli Guðs og fólksins. Að sama skapi braut hann niður múra milli fólks. Dauði hans og upprisa tengdu saman á ný Guð og sköpun hans.

Kirkja dagsins í dag, samfélag kristinna, þarf að nema staðar þar sem hennar er þörf. Með boðskap sínum og breytni er henni ætlað að hafa varanleg áhrif á manneskjuna sem til hennar leitar og samfélagið allt.

Þannig nær guðsþjónusta safnaðarins út fyrir múra kirkjubyggingarinnar. Því sérhver kristinn einstaklingur er kallaður til þjónustu, kærleiksþjónustu.