Örlæti og Facebook

Örlæti og Facebook

Fólk er alltaf að lenda í einelti og jafnvel ofbeldi í blogg heiminum. Sá heimur er stundum eins og heimur út af fyrir sig. Hver sem er getur stofnað bloggsíðu og skrifað nánast hvað sem er. Við erum þó alltaf að læra af reynslunni og átta okkur á að stundum þarf að setja mörkin fyrir fólk því það er ekki fært um það sjálft. Til er fullt af fólki sem virðist ekki hafa neitt annað að gera en að níða náungann á netinu.

Orð sem meiða Þegar við stækkum þá hættum við að passa í gömlu fötin og verðum að útvega okkur stærri föt. Á sama hátt verður boðskapur Biblíunnar, Kristninnar að skipta um búnað eða búning þegar við breytumst, þegar tímarnir breytast. Það er ekki hægt að boða orð Guðs á sama hátt á öllum stöðum og á öllum tímum.  

Nýir tímar gefa einnig nýja túlkunarmöguleika. Merking tungumálsins breytist og við sjáum aðrar víddir í frummálum Biblíunnar, Hebresku og Grísku.  

Það er ekki vænlegt að standa í prédikunarstól og lesa upp ræðu í 25 mínútur í dag. Það virkaði vel einu sinni. En í dag er ekki margt fólk sem hefur þolinmæði til þess að hlusta svo lengi. Reyndar eru til rannsóknir sem sýna að við getum aðeins hlustað á talað mál í 7.5 mínútur án þess að fara að láta hugann reika og missa þráðinn.  

Þeir miðlar sem við höfum yfir að ráða í dag gera okkur ekki rólegri í hlustuninni. Hraðinn í samfélaginu, í samskiptunum hefur aukist gífurlega á stuttum tíma. Nú skrifum við SMS í skammstöfunum og búum til tákn yfir tilfinningar okkar á Facebook og MSN.  

Allir þessir samskiptamiðlar sem við höfum í dag gefa okkur ný tækifæri og það er sjálfsagt að nota þá í boðun orðsins. Já, það er nánast ábyrgðarleysi að nota þá ekki í boðun orðsins. Kristin trú er og hefur alltaf verið hluti af samfélagi og því verðum við að nýta okkur þær samskiptaleiðir sem meirihluti fólks notar í dag.  

Þau sem renna yfir fréttafyrirsagnir og lesa aðeins það sem vekur mestan áhuga, þau sem lesa stuttar bloggfærslur, skrifa í skammstöfunum og nota tölvutákn yfir tilfinningar sínar, sitja ekki í kirkju eða annarsstaðar og hlustar á langar ræður án mynda eða myndrænna útskýringa.  

Þegar við tileinkum okkur nýja samskiptamáta á þessum miðlum öllum, þá er skiljanlegt að við gerum mistök til að byrja með. Við áttum okkur ekki alltaf á hverjir hafa aðgang að því sem við segjum og gerum á internetinu. Líf okkar verður opnara. Mun fleiri geta gægst inn í okkar heim og við inn í heim annarra.  

Það eru óteljandi kostir við þessa samskiptamiðla. Það er auðveldara að eiga samskipti við fólk, við mikið af fólki. Þú getur rætt daglega við vini erlendis án teljandi kostnaðar. Þú getur rofið einangrun með því að tala við fólk þó þú sitjir heima í stofu. Þú getur fylgst vel með því sem er að gerast um allan heim og því sem þú hefur mestan áhuga á. Fyrirtæki og stofnanir, t.d. kirkjan geta náð til margra með boðskap sinn í gegnum samskiptasíður á veraldarvefnum. T.d. hefur Grafarvogskirkja verið á Facebook í rúmlega ár núna og er að ná til breiðari hóps á þann hátt.  

En það eru líka ókostir. Ókostirnir eru kannski fyrst og fremst þeir að við verðum að vera duglegri að setja okkur og öðrum mörk en við þurfum að gera í samskiptum sem fara fram augliti til auglitis. Það er svo auðvelt að skrifa meira en við myndum nokkurn tíma segja, og ýta svo á senda.  

Við verðum jafnvel að gæta okkar enn frekar í samskiptum við fólk og með það sem við skrifum á samskiptasíðum, bloggsíðum og öðru á veraldarvefnum. Við sjáum ekki hvernig móttakandinn meðtekur það sem við erum að tjá okkur um, þegar lesendur, eða þau sem við erum í samskiptum við, heyra ekki raddblæ okkar og sjá ekki líkamstjáninguna. Við reynum vissulega að bæta þetta upp með táknum, en það dugir ekki alltaf til.  

Fólk er alltaf að lenda í einelti og jafnvel ofbeldi í blogg heiminum. Sá heimur er stundum eins og heimur út af fyrir sig. Hver sem er getur stofnað bloggsíðu og skrifað nánast hvað sem er. Við erum þó alltaf að læra af reynslunni og átta okkur á að stundum þarf að setja mörkin fyrir fólk því það er ekki fært um það sjálft.  

Til er fullt af fólki sem virðist ekki hafa neitt annað að gera en að níða náungann á netinu.  

Orð geta meitt!  

Lifandi Orð En í upphafi var Orðið. Þetta Orð var með stórum bókstaf. Þetta Orð var lifandi. Orðið var Jesús Kristur.  

Þetta lifandi Orð er ekki hægt að skrifa eða bera fram. Þetta Orð er miklu frekar þögnin sem kemur áður en þú segir eitthvað. Þegar orðin sem við segjum bera hið eina sanna Orð, Jesú Krist, ef  þau eru innblásin af Kristi þá verða þau lifandi. Þá meiða þau ekki.  

Orð Guðs er að finna í Biblíunni. Það þýðir þó ekki að öll orð Biblíunnar séu heilög. Þau verða ekki heilög eða lifandi nema þau séu notuð af kærleika, lesin og töluð í samhengi. Að öðrum kosti verða orðin bókstafleg.  

Orð eru bara form. Þau verða að vera borin af einhverju meira og stærra til þess að fá líf. Alveg eins og vatnið sem slekkur þorstann verður að vera í skál/glasi/lófa eða einhverju svo hægt sé að drekka það. En við megum ekki rugla ílátinu saman við innihaldið. Ílátin eru nauðsynleg en það er innihaldið sem skiptir máli.  

Á sama hátt eru orðin í Biblíunni ekki heilög í sjálfu sér. Þau verða heilög þegar þau eru borin af Jesú Kristi.  

Djöfullinn vitnaði í Heilaga ritningu þegar hann freistaði Jesú í eyðimörkinni.  

 

Örlæti Orðsins Í dæmisögunni sem Jesús sagði um sáðmanninn sem fór út að sá heyrum við dæmi um afar kærulausan bónda.  

Svo mikið vitum við að bændur fara ekki út og kasta útsæðinu í allar áttir. Þeir plægja jarðveginn fyrst og sjá til þess að sem mest af sæðinu lendi í góðri jörð og beri ávöxt.  

En þetta er víst ekki saga af lélegum bónda. Það vitum við vel því Jesús útskýrir söguna sjálfur. Útsæðið er orð Guðs.  

Guð er örlátari en bóndinn sem þarf að gæta þess að útsæðið fari ekki til spillis. Hann á ekki nóg af því en orð Guðs þverr aldrei.  

Það sem mér þykir merkilegast við þessa dæmisögu í dag er örlætið sem hún vitnar um. Guð dreifir orði sínu allsstaðar. Guð skoðar ekki fyrst hver okkar eru tilbúin að heyra það heldur gefur það öllum. Það er síðan okkar að finna hvort við viljum taka á móti því.  

Hversu örlát erum við á orð, tilfinningar, hlýju, já allt það jákvæða sem við fáum frá Guði.  

Nú er neikvæðni, vonleysi og reiði alls ráðandi í samfélaginu okkar. Það er skiljanlegt og eðlilegt en við verðum að reyna að vera alltaf svolítið betri við hvert annað. Þegar þú sýnir náunganum hlýju þá ber náunginn þá hlýju með sér til einhvers annars og svo koll af kolli. En það sama á við um kulda og reiði. Hún berst á milli fólks á sama hátt. Þetta á ekki síst við þegar við erum nettengd. Gætum orða okkar þar. ------- Ég ætla nú að biðja ykkur að ganga hér fram og sækja ykkur miða úr körfunni. Opnið miðann og lesið þar sem þar stendur þegar þið eruð sest í sætin ykkar. (Á hverjum miða stendur eitt orð. Miðarnir eru rauðir og fallegir)  

Tónlist. ------- Á þessum miðum er að finn orð yfir margt af því góða sem lifandi Orð Guðs gefur okkur. Þetta eru orð yfir margt af því góða sem Guð gefur okkur af örlæti sínu með aðferðum kærulausa bóndans í dæmisögunni.  

Nú skulum við vera örlát.  

Mig langar til að hvetja ykkur til þess að taka til ykkar það sem stendur á miðanum og reyna nú að gefa fólkinu sem þið mætið með ykkur af þessu, af örlæti.  

Ég er viss um að við getum komið á meiri kærleika ef við erum aðeins kærleiksríkari við hvert annað, meiri fegurð ef við erum aðeins fallegri í framkomu, meiri friði ef við erum friðsamari í orði og athöfnum.  

Byggjum betri heim og gerum Orð Guðs lifandi með orðum okkar, athöfnum og hugsunum.  

Verum örlát!  

Amen.