Gorgeuos Grandma Day

Gorgeuos Grandma Day

Sérstakur ömmudagur er haldinn hátíðlegur víða í Bretlandi í dag, 23. júlí eins og ár hvert. Svipað er uppi á teningnum þann 14. október er sérstakur ömmudagur haldinn hátíðlegur í Bæjarahéraði í Þýskalandi og í nóvember afa og ömmudagur. Við hliðina á degi aldraðra sem þjóðkirkjan stendur svo sómasamlega fyrir, væri flott að kirkjan hefði framgöngu um ömmu og afadaga á Íslandi.

Sérstakur ömmudagur er haldinn hátíðlegur víða í Bretlandi í dag, 23. júlí eins og ár hvert. Svipað er uppi á teningnum þann 14. október er sérstakur ömmudagur haldinn hátíðlegur í Bæjarahéraði í Þýskalandi og í nóvember afa og ömmudagur. Við hliðina á degi aldraðra sem þjóðkirkjan stendur svo sómasamlega fyrir, væri flott að kirkjan hefði framgöngu um ömmu og afadaga á Íslandi.

Nýverið voru ömmur mér ofarlega í huga og þá varð eftirfarandi pistill til sem birtist í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni „Hefur þú faðmað ofurhetju?“

Sjaldan heyrum við fólk greina frá því opinberlega að ofurhetjur gegni mikilvægu hlutverki í lífi þeirra. Sumir halda því fram að ofurhetjur séu ósýnilegar. Til eru þeir sem segja að ofurhetjur séu aðeins til í þjóðsögum og ævintýrum. Ofurhetjur verða til í menningu hvers tíma en búa yfir skilningi sem virðist yfir öll landamæri hafinn. Á Íslandi eru þessar verur gæddar hæfileikum sem annars þekkjast bara í álfa- og hulduheimum. Þegar þessar ofurhetjur láta til skarar skríða virðast jötnar, tröll og helstu skrímsli skreppa saman og máttur þeirra dvína. Þekktustu verkfæri umræddra ofurhetja eru seigla og þrái. Seiglan smyr innviði þeirra og gerir þeim kleift að beita þráanum í þágu þeirra sem þær elska. Kærleikurinn sem þær bera í móðurbrjósti sér er óendanlegur. Til er sú kenning að þegar þeim fæðist barnabörn margfaldist kærleiksgen ofurhetjanna. Ég kalla þessar ofurhetjur ömmur. Lýsingin hér að ofan getur í mesta lagi talist inngangur að lýsingum á eiginleikum þeirra.

Ég var heppinn. Ég átti tvær ömmur. Báðar voru þær kjarnakonur og ofurhetjur í mínum augum. Langt er síðan þær héldu til nýrra heimkynna yfir móðuna miklu. En minningin lifir og hefur þann eiginleika að draga fram myndir litaðar af draumnum um mig barnið og ömmuna mína. Ég er heppinn. Jákvæð hugrenningatengsl við ömmurnar í lífi mínu skapa í huga mér einstakar sögur um mikilvægi þessara kvenna í lífi mínu og minna nánustu. Amman verður táknmynd fyrir von, trú og kærleik, já, hún verður allt að því guðdómleg. Ömmurnar verða ofurhetjur númer eitt í lífi mínu og bera titilinn: Verndarar bernskuminninganna.

Allt of sjaldan heyri ég fólk greina frá því opinberlega að ömmur gegni mikilvægu hlutverki í lífi þeirra. Sumir halda því fram að ömmur séu ósýnilegar þar til þær birtast í minningargreinum. Til eru þeir sem segja að alvöruömmur séu bara til í ákveðnum fjölskyldum. Það er sannfæring mín að ömmur verði til í fjölskyldusamhengi hvers tíma og að hver og einn eigi sína ömmu. Ef vel er að gáð eru þær úti um allt. Hlutverk okkar sem erum ekki ömmur er að segja þessum frábæru einstaklingum frá mikilvægi þeirra í lífi okkar allra.

Ömmur eru litlar og stórar, feitar og mjóar, fiskverkakonur og forsetar, þögular og símalandi, búa í sama húsi og barnabörnin eða jafnvel í öðru landi. Það er ekki hægt að skilgreina hvað amma er. Hver amma hefur fullt frelsi til að ákveða hvernig amma hún er. En það breytir því ekki að allar ömmur eru ofurhetjur, hver á sinn hátt.

Og nú spyr ég: Hefur þú faðmað ofurhetju í dag?