Tími tortryggninnar er liðinn

Tími tortryggninnar er liðinn

Nú á sér stað vitundarvakning um fásinnu tortryggninnar. Við finnum að við getum ekki leyft okkur að einangra okkur í tortryggni. Við erum öll á sama báti og við vitum þetta betur í dag en nokkru sinni fyrr. Þess vegna er þjóð okkar í uppnámi. Við vitum ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga. Í aðra röndina erum við veiðimenn sem sækjum bráð okkar þegar hún gefst, en hinsvegar horfum við á náttúruna með svo ríkum tilfinningum að við eigum bágt með að bera þær.
Jóna Hrönn Bolladóttir - andlitsmyndJóna Hrönn Bolladóttir
29. október 2006
Meðhöfundar:
Bjarni Karlsson

Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti: Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns, en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu. Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir. Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum. Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir. Mt. 22.1 – 14

I

Þegar við hjónin vorum prestar í Vestmannaeyjum þá var það eitt sinn að það gerði mikla blíðu með staðviðri dögum saman. Eftir messu á sunnudegi var okkur gengið út fyrir suðurvegg kirkjunnar og þar standa nokkrir eldri menn á spjalli. Fer þá einn að dásama veðurblíðuna, því það var miður vetur skömmu eftir jól og enginn átti þessu að venjast. Þá verða hinir þungbrýnir og einn segir: “Svona var nú veðrið, einmitt dagana áður en gaus!” Sá sem dásamað hafði veðrið var Sigurfinnur Einarsson heitinn, bróðir herra Sigurbjörns biskups. “Af hverju skyldum við ætla náttúrunni allt illt?” spurði þá Sigurfinnur með áherslu í röddinni, og bætti við: “Hví skyldum við ekki þiggja þessa daga úr Guðs hendi og njóta þeirra?”

Við þekkjum það sem Íslendingar, að það er innbyggt í þjóðarvitund okkar viss tortryggni gagnvart náttúrunni. Því hljómuðu orð trúmannsins Sigurfinns í eyrum okkar sem spámannleg orð. Af öldungnum lýsti sú meðvitaða lífsafstaða að hann kaus að lifa ekki í óttanum, heldur njóta lífsins. Enda urðu viðmælendurnir heldur niðurlútir er hann svaraði þeim af svo miklu æðruleysi.

II

Í dag er guðspjallið all roasalegt. Þar falla menn fyrir morðingjahendi, borgir eru brenndar og skelfingulostnum veislugesti er varpað á dyr, bundnum á höndum og fótum. Og maður getur varla varist þeirri hugsun að e.t.v. hafi Jesús verið eitthvað illa fyrir kallaður þennan dag. Sú var líka raunin, því hér er pálmasunnudagur um garð genginn, átök Jesú við ríkjandi valdhafa þjóðarinnar eru að ná hámarki og þessum ræðukafla lýkur með hinu sársaukafulla ákalli Jesú: “Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.” (Matt. 23.37)

Sorg frelsarans yfir borginni var sú að þjóðin kunni ekki að heyra hið spámannlega orð og við honum blasti sú hörmulega staðreynd að hroki og blindni á svo mörgum sviðum var við það að leiða þjóðina í glötun. “Hús yðar verður í eyði látið!” hrópaði hann. (v. 38)

Í dæmisögu guðspjallsins í dag líkir Jesús þjóð sinni við brúðkaupsgesti sem ekki kunnu gott að meta, en hafna boðinu ýmist með fálæti eða beinum árásum. Þjóð Jesú átti sögu um andvaraleysi og hroka gagnvart spámönnum Guðs, sem í mörgum tilfellum höfðu þolað píslarvætti, eins og orðið höfðu örlög Jóhannesar skírara. Og svo lýsir Kristur með líkingum þeirri staðreynd að eins og konungurinn í sögunni sendir þjóna sína út að safna vondum og góðum til brúðkaupsins, því hinir boðnu höfuð ekki reynst verðugir, þannig hefur Guð ákveðið að útvíkka sáttmálann sem hann í upphafi gerði við Ísraelsmenn og kalla allar þjóðir til fylgdar við sig. Á nútímamáli heitir svonalagað útrás og alþjóðavæðing.

Hér er Jesús að krefjast hlustunar, ekki bara af einstaklingum heldur þjóðum. Hér er á ferð ákall Guð til hvers samfélags og þjóðar að hún glati ekki hæfileikanum til þess að heyra hið spámannlega orð. Þjóðir þurfa að kunna að staldra við og hlusta. Geti þær það ekki, mun illa fara. Þessum veruleika er lýst með hinum harkalegu orðum: “Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingum þessum og brenna borg þeirra.” (Matt. 22.7)

III

Í dag lifum við sérstaka tíma á Íslandi. Ég held að óhætt sé að fullyrða að hin íslenska þjóð sé farin að hlusta með nýjum hætti. E.t.v. er það þessvegna sem skyndilega er farið að tala um hleranir í öllum áttum!!

Hver var annars ástæðan fyrir kaldastríðinu, sem hlerarnirnar allar tengjast? Af hverju var ógnin svona mikil? Ekkert einfalt svar er til, en ljóst er að sá þáttur sem mestum þrýstingi olli var sá að þjóðir höfðu í heimsku sinni og ólýsanlegum hroka útbúið kjarnavopn sem dygðu til að eyða veröldinni, ekki bara einu sinni, ekki tvisvar heldur margfalt. Við sem vorum börn og unglingar á þessum tímum, litum mörg svo á að við myndum aldrei ná gamalsaldri, þar sem heimsendir væri óumflýjanlegur veruleiki. Kjarnavopn eru í eðli sínu djöfulleg. Því að hugsunin á bak við þau er gjöreyðing lífsins. Kjarnavopn eru tilgangsleysið í sinni grátlegustu mynd. Hver er annars tilgangurinn með því að geta eytt lífinu mörgum sinnum?

Svo lifðum við þá daga hér á Íslandi að hingað komu leiðtogar stórveldanna, sem þá voru Gorbatsjof og Ronald Regan, til þess að hlusta hvor á annan og deila hugsunum sínum. Í dag, tuttugu árum síðar, veit heimsbyggðin að þar fékk hið spámannlega orð að hljóma og bera ávöxt. Dyrahúninum á Höfða var snúið og út gengu leiðtogar stórveldanna í friðarhug.

IV

Nú má segja að veröldin bíði enn á ný eftir spámanni sem flutt geti friðarorð inn í ringulreið átaka. Við horfum á misskiptingu lífsgæða ná áður óþekktum hæðum, við sjáum nýjar víglínur dregnar milli menningarheima og trúarbragða, náttúran kveinkar sér undan okkur og enn eru þjóðir að pukrast og gorta með kjarnaoddana sína og hótanir ganga á víxl. Og sú tilfinning verður sífellt áleitnari að heimskan og hrokinn herði nú valdatökin, en rödd skynsemi og hófsemi sé aftur orðin veikari.

Eins vex vitund okkar þessi misserin um það að við erum öll einn heimur. E.t.v. má segja að síðasta öld, með sínum tveimur styrjöldum og kaldastríðinu, hafi fært okkur heim sanninn um það að allir jarðarbúar eru samskipa og deila óhjákvæmilega örlögum hver með öðrum. Í þeim átökum var okkur öllum ógnað og sú sjálfsmynd sem þjóðir höfðu við upphaf síðustu aldar er gjörbreytt hundrað árum síðar. Nú erum við ekki fyrst og síðast þjóðir, við erum jarðarbúar sem deilum andrúmslofti, hafstraumum og hugmyndum. Gerð kjarnorkuvopna í einu landi er ógn við öll lönd, ógnarstjórn eins ríkis er málefni okkar allra og umgengni okkar um náttúruna er ekki lengur innanríkismál, heldur látum við okkur varða hvernig aðrar þjóðir haga sér gagnvart lofthjúpnum, gróðrinum, dýraríkinu og hafinu.

Sigurfinnur gamli spurði réttilega “Af hverju skyldum við ætla náttúrunni allt illt?” Hann sá það sem við erum farin að skilja, að við þurfum ekki lengur og megum raunar ekki líta á náttúruna sem andstæðing. Tími tortryggninnar verður að vera liðinn. Og frá guðspjalli dagsins megum við draga þá ályktun að tími tortryggninnar gagnvart samfélagi og náttúru er löngu liðinn, og hefur í raun aldrei verið, því tortryggni er röng lífsafstaða.

V

Nú á sér stað vitundarvakning um fásinnu tortryggninnar. Við finnum að við getum ekki leyft okkur að einangra okkur í tortryggni. Við erum öll á sama báti og við vitum þetta betur í dag en nokkru sinni fyrr. Þess vegna er þjóð okkar í uppnámi. Við vitum ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga. Í aðra röndina erum við veiðimenn sem sækjum bráð okkar þegar hún gefst, en hinsvegar horfum við á náttúruna með svo ríkum tilfinningum að við eigum bágt með að bera þær. Við erum þjóð sem veiðir hvali með rökum um stofnstærðir og nýtingu, en stöndum andaktug þegar vorar og bíðum eftir söng lóunnar og velli spóans, sem við myndum aldrei í lífinu, jafnvel ekki í hungursneyð, leggja okkur til munns, þótt stofninn sé fjarri allri útrýmingarhættu. Á sama tíma og við umgöngumst náttúruna út frá beinskeyttum nýtingarsjónarmiðum og langar að virkja og veiða allt sem best og mest, þá varðveitum við með okkur vitundina um helgi lífsins og yfirfærum hana á valdar fuglategundir, lóur, spóa og svani, án þess að geta beinlínis gert grein fyrir ákvörðunum okkar. Á sama tíma og við erum í hópi hinna staðföstu bandamanna um Íraksstríð fáum við Yko Ono í Vieyjarheimsókn og vonumst til að setja á fót friðarstofnun í Reykjavík. Þetta er ekki slæmt. Það að við tvístígum er gott tákn um það að okkur er ekki sama, að við erum farin að hlusta með nýjum hætti, þótt við séum ringluð.

VI

Í lok guðspjallsins er sagt frá manninum sem kominn var inn í veislusalinn en var ekki í brúðkaupsklæðum. Og þegar hann gat ekki útskýrt hversdagsgallann þá var hann bundinn á höndum og fótum og varpað út.

Þessi ógæfumaður táknar okkur, þegar við kunnum ekki að hlusta í okkar eigin lífi og getum þ.a.l. ekki endurskoðað hugsanir okkar og breytt því sem breyta þarf. Á máli Biblíunnar heitir þessi nauðsynlega sjálfsskoðun iðrun og yfirbót. Það er krafa Guðs til okkar í dag jafnt sem á öllum tímum, að við hlustum, iðrumst og gerum yfirbót. Brúðkaupsklæðin tákna það að vera íklæddur Jesú Kristi, vera íklæddur hógværðinni og æðruleysinu andspænis veruleikanum. Sá sem er íklæddur Kristi er ekki hræddur, heldur þiggur hann lífið að gjöf. “Hví skyldum við ekki þiggja þessa daga úr Guðs hendi og njóta þeirra?” Sagði öldungurinn Sigurfinnur.