Freistarinn í Nevada

Freistarinn í Nevada

Í janúar síðastliðnum dvöldum við hjónin í Kaliforníu. Þar var hlýtt og þurrt og fróðlegt að vera. Einum sólarhring ákváðum við að eyða í Las Vegas í Nevadaeyðimörkinni. Þarna keyrðum við í fjóra tíma á hraðbrautinni frá Los Angeles og virtum fyrir okkur eyðimerkurlandslagið, Jósúatrén og óhrjálegar vegasjoppur þar til við runnum inn í Vegasborg.

Í janúar síðastliðnum dvöldum við hjónin í Kaliforníu. Þar var hlýtt og þurrt og fróðlegt að vera. Einum sólarhring ákváðum við að eyða í Las Vegas í Nevadaeyðimörkinni. Þarna keyrðum við í fjóra tíma á hraðbrautinni frá Los Angeles og virtum fyrir okkur eyðimerkurlandslagið, Jósúatrén og óhrjálegar vegasjoppur þar til við runnum inn í Vegasborg, sem birtist eins og skrattinn úr sauðarleggnum.Tilbúin borg, sem hefur þann eina tilgang að skemmta fólki, þetta er borg freistinga, fjárhættuspila, aragrúa veitingahúsa, sýninga hverskonar, þarna færðu meira að segja að sjá frelsisstyttuna og Eiffelturninn þannig að þú þarft ekkert að koma til New York né Parísar. Einhver komst svo skemmtilega að orði að Vegas væri Disneyland fyrir fullorðna. Á kvöldin er rafmagnsveiturnar undir töluverðu álagi, því borgin er eins og ein risastór marglit jólakúla og þú gengur um og veltir fyrir þér hvað þetta eigi nú allt að fyrirstilla. Síðan mætir þú fólki í margvíslegum búningum, öskudagur virðist vera alla daga, Spiderman situr á bekk og drekkur kaffi og á næsta götuhorni sprettur fram Superman, sem hoppar um eins og hann sé að reyna að taka á flug. Og þetta er allt fullorðið fólk, sem er að reyna að lifa af, sjá fyrir sér, það hvetur þig m.a. til að fá mynd af sér með þér og rukkar þig eins og það hafi gert þér verulegan greiða. Þetta er allt dálítið skrýtið! Síðan gengur þú í gegnum spilavítin, sem eru staðsett á jarðhæðum glæsihótela og þakkar þá Guði fyrir að hafa aldrei haft gaman að spilum, tókst kannski Olsen Olsen hér í den af eintómri skyldurækni. Ef eymd er að finna, þá er hana að finna í þessum spilasölum, þar sem tóm andlitin sitja við spilakassana, bjórinn og sígarettan í seilingarfjarlægð, já takið eftir því að það má svæla í sig vindlingum í sölunum, það er nefnilega ekki í boði að missa fólkið út í reyk, það þarf að halda því við efnið. Klinkið er í stórum könnum og andlitin tómu stinga spilapeningum í raufirnar og bíða eftir risavinning, vinningnum sem kemur vafalaust aldrei og tómir vasar og brostnar vonir yfirgefa síðan borgina. Evrópskur ferðamaður einn tjáði mér það er við tókum tal saman á veitingahúsi, að hann kæmi til borgarinnar til þess að spila, það hefði hann gert árlega eftir að hann missti konu sína fyrir um 10 árum síðan, hann viðurkenndi það að svo margt í borginni væri tálsýn ein, en eitthvað ræki hann alltaf af stað til þess að spila. Ég hugsaði hins vegar með mér, hingað getur verið fróðlegt að koma einu sinni, en aldrei aftur. Las Vegas, „been there, done that“ er nokkuð viðeigandi slagorð! En síðan kemur borgin einhvern veginn upp í hugann í upphafi föstunnar þegar lesin er freistingarfrásagan um Jesú sem er drifinn af andanum út í eyðimörkina, þar sem hann tekst á við freistingar djöfulsins, tálsýnir hans og brögð. Ég veit ekki hvort menn hafi haft þessa frásögn hreinlega í huga þegar þeir fundu land undir Vegas og tóku svo til við að byggja upp þessi ævintýralegu háhýsi í eyðimörkinni, sem bjóða nánast upp á allt er fellur undir svokallaðar freistingar. Það sem mér dettur í hug eftir þessa Vegasheimsókn og eftir að hafa lesið freistingarfrásöguna er þegar freistarinn býður Jesú að nota mátt sinn til að gera steina að brauðum. Jesús neitar því. Það var vegna þess að Jesús féll ekki í þá gryfju að hugsa hvað hann sjálfur fengi út úr þvílíku. Hvað er átt við með því? Jú, höfum það hugfast að hvert og eitt okkar þiggur gjöf frá Guði og við getum þá spurt okkur tveggja spurninga: Hvað get ég sjálfur fengið út úr þeirri gjöf eða hvað get ég gert fyrir aðra með þeirri gjöf og Jesús stóðst freistinguna með því að einbeita sér að seinni spurningunni. Las Vegas byggist á fyrri spurningunni. Ég hef ekki heyrt af því að manneskja sem er búin að spila rassinn úr buxunum í spilasölum Vegas hafi fengið þaðan sálrænan stuðning ellegar fjárstyrk á leiðinni út, hins vegar er miklu fremur alvarlega fylgst með þér ef þú ert sérlega heppinn í spilum og vasarnir orðnir ískyggilega troðnir. Vegasborg hugsar fyrst og fremst um það hvað hún getur með mætti sínum fengið út úr þeim sem þar dvelja og þess vegna virkar hún eins og tálsýn ein þarna úti í hinu eyðilega landslagi. Eins höfðar freistarinn til sjálflægra hvata er hann leiðir frelsarann upp á brún musterisins á fjallinu Síon og biður hann um að kasta sér fram af og sýna þannig mátt sinn, kasta sér í faðm englana og sýna með þeim hætti uppruna sinn, að hann sé sonur Guðs, hvað segir ekki í 91. Davíðssálmi: „því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum. Þeir munu bera þig á höndum sér svo að þú steytir ekki fót þinn við steini.“ Og af hverju lét Jesús ekki tilleiðast, hefði hann getað verið þarna með mikið „sjóv“ eins og sagt er á frekar slæmri íslensku og uppskorið fullt af viðhlægjendum og aðdáendum? Fagnaðarerindi sem byggist á slíku er grundvallað á sandi, því flugeldasýningar eru eins og dægurflugurnar, þær eru fljótar að úreldast og krafan um stærri og meiri flugeldasýningar verður strax háværari, útbreiðsla fagnaðarerindisins er dæmd til að mistakast falli hún ofan í svoleiðis farveg. Þá er heldur ekki snjallt að setja sig í hættuaðstæður að nauðsynjalausu, ögra Guði með því að sjá hversu langt þú getur farið með Hann. Að endingu fær Jesús svo freistandi tilboð á fjallinu um að eignast allar dýrðir heims, öll ríki, ef hann tilbæði freistarann og bregst hann við því með því að vísa í 1. boðorðið að tilbiðja skuli aðeins Drottinn Guð einan. Þarna setur freistarinn fram málamiðlun, biður Jesú um „séns“, daðraðu aðeins við hið illa og fólkið mun fylgja þér. En Jesús var búinn að taka ákvörðun, ákvörðun um að kaupa ekki fólk til fylgis við sig, að sýna sig ekki fyrir fólki með einhverjum hasarhetjustælum þannig að það myndi vilja fylgja honum og hann hafnaði öllum málamiðlunum, fagnaðarerindið væri yfir það hafið og krafa trúarinnar þeim æðri. Öll þessi tilboð freistarans báru þau einkenni að hann höfðaði til sjálflægninnar, til eiginhagsmunasjónarmiða, til hégómans er birtist í þeim vangaveltum hvað allt þetta þýðir fyrir mig og getur gagnast mér. Stundum virðist þessi þankagangur ætla að tröllríða veröldinni, þjóðfélögum, margvíslegu framabrölti mannskepnunnar og þess vegna held ég að það sé hverri sál að vissu leyti hollt að heimsækja Vegas, því staðurinn sá virðist ekkert vilja fela neitt í þessum efnum, heiðarlegur að því leytinu til, og fær okkur því til að velta ennfrekar þessum hugarfarslegu freistingum fyrir okkur, sem freistingarfrásagan birtir. Amen.