Tjáning, ábyrgð og frelsi

Tjáning, ábyrgð og frelsi

Niðrandi tal um fólk eða til fólks brýtur ekki aðeins á viðkomandi einstaklingum, heldur stuðlar það að því að samfélagið allt sé brotið niður.

Þegar einstaklingur tjáir sig velur hann orð sem geta verið til þess fallin að byggja upp samfélagið eða orð sem geta haft skaðleg áhrif á samfélagið. Hlutleysi orða er og verður alltaf takmarkað.  Þegar og ef við leyfum að talað sé á niðrandi hátt um fólk eða til fólks þá brjótum við ekki aðeins á þeim einstaklingi sem ráðist er á með orðum, heldur stuðlum við að því að samfélagið allt sé brotið niður.

Ábyrgð þess sem tjáir sig með orðum er ekki síst mikil þegar kemur að því að við viljum gagnrýna það sem okkur þykir miður fara. Það kostar töluverða æfingu að ná því að tjá sig á slíkan hátt að umræðan sé málefnaleg en ekki persónuleg. Orðaval okkar og það hvert við beinum orðum okkar smitar út frá sér til þeirra sem við störfum með.

Brýnt er að við gerum okkur grein fyrir því að þegar ljótum eða særandi orðum er beint að einstaklingi, hvort heldur það er í töluðu eða rituðu máli og sama hvar þau orð eru látin falla, erum við að ala samfélagið allt upp við það að einelti sé réttlætanlegt. Tjáningarfrelsið býr við sömu annmarka og öll önnur mannréttindi, það nær einvörðungu að þeim mörkum þar sem brot á öðrum mannréttindum hefjast.

Þörf er á því að í rannsóknum og kennslu við háskólana sé horft á orðræðuna, hún greind og bent á hvar hætt sé við að orðanotkun, það er hvaða orð eru valin og hvernig þeim er beitt, leiði til hatursáróðurs eða eineltis. Í skýrslu Baldurs Kristjánssonar, fulltrúa Íslands í Evrópunefndinni gegn kynþáttafordómum til félags- og tryggingamálaráðherra sem hann skilaði í október 2009 kemur meðal annars fram að þau atriði eru ófá sem nefndin telur vera ábótavant hér heima.

Vissulega kreppir skóinn að víða. Vissulega er hægt að færa þau rök að ekki séu til peningar. En umræðunni verður að halda lifandi. Við verðum að finna leiðir til að byggja upp samfélagið og koma í veg fyrir uppgang þeirra sem brjóta niður samfélagið. Manneskjan sem býr á Íslandi er alveg jafn dýrmæt, hvort heldur hún er biskup, forseti, sjómaður eða útigangskona. Og það er okkar að virða manneskjuna og hætta að flokka fólk eftir búsetu, bakgrunni, kyni eða hverju því sem er til þess fallið að draga upp staðalímyndir. Vöndum orðavalið!

Ítarlegri grein höfundar um þetta mál er að finna á bls. 26 í Morgunblaðinu í dag, laugardaginn 12. febrúar 2011.