„Innrætingin“

„Innrætingin“

Er þá best að hvetja skólana til að fara með börnin sem oftast í verslunarmiðstöðvar því þar er örugglega enga „innrætingu“ eða „áróður“ að finna sem ógnar „hlutleysinu“?
Gunnlaugur S Stefánsson - andlitsmyndGunnlaugur S Stefánsson
11. desember 2014

Það er í tísku á meðal þeirra sem hafa kristna trú og kirkjuna á hornum sér að skreyta ræðu sína með orðum eins og „innræting“, „áróður“, “hlutleysi“. Þetta er algeng aðferð hjá þeim sem forðast að ræða innihald og kjarna máls á málefnalegum grundvelli, enda verður fátt um svör þegar spurt er:

Hvað er það í kristnum boðskap sem ógnar velferð, felur í sér óæskilega „innrætingu“ og sundrar „hlutleysi“ ?

En börnin í skólanum kunna lítið fyrir sér í slagorðaflaumi og klókindum fullorðinna og vilja einlæg svör um kjarna máls.

Barnið spyr: „Afhverju er kross í þjóðfánanum“? Og kennarinn svarar: „Af því að við erum kristin þjóð“.

Er kennarinn að láta „áróður“ rugla sig í ríminu samkvæmt „innrætingu“ sem reiknar út „hlutleysi“ og heimtar boð og bönn um allt mögulegt og ómögulegt?

En barnið vill vita meira og spyr: „Afhverju urðum við kristin þjóð“?

Og kennarinn segir barninu frá Þorgeiri, Ljósvetningagoða, og endurtekur rökin hans og niðurstöðu á Alþingi árið 1000 um kristnitökuna.

Er kennarinn að ögra með skelfilegum „áróðri“.

Og svo spyr barnið: „Afhverju biður íþróttafólkið bænar áður en landsleikur hefst“?

Kennarinn svarar og telur sig alveg öruggan um að ögra engum: „Af því að þetta er þjóðsöngurinn“.

En þá spyr barnið: „Getum við ekki farið með svona bæn hér í skólanum líka“?

Nú svarar kennarinn: „Nei, það er bannað“.

Það er von að sumir hafi áhyggjur af frelsinu gagnvart „innrætingu“ og „áróðri“.

Er þá best að hvetja skólana til að fara með börnin sem oftast í verslunarmiðstöðvar því þar er örugglega enga „innrætingu“ eða „áróður“ að finna sem ógnar „hlutleysinu“?