Að ganga í dag svo líki þér

Að ganga í dag svo líki þér

En um leið var ljóst að nokkur hópur átti ekkert eftir þegar reikningar voru greiddir. Enn fremur hefur komið í ljós að viðmiðun framfærsluupphæðar er of lág. Kæru vinir. Fátækt er raunveruleg á Íslandi og hún er viðvarandi.

Mótmælin og fátæktin

Í dag mun ég fjalla um fátækt og samstöðu með fólki í erfiðleikum.

Við setningu alþingis voru mikil mótmæli á Austurvelli eins og við vitum. Þar var ýmsu mótmælt með flautum, spjöldum, bumbuslætti og einnig var kastað mat og lyklum í alþingishúsið, Dómkirkjuna, þingmenn, forsetann, biskupinn og presta. Athöfnin sýndi djúpa sorg, reiði og gríðarlega óánægju með ástandið. Fólkið í landinu var að mótmæla. Það tjáði sig með með áþreifanlegum hætti. Með því að henda hús og bíllyklum var það að benda á að þau eru að missa heimilin sín. Þó menn reyndu að skila bílunum inn, þá skulduðu þeir heilt bílverð í það minnsta. Það eru meira en þúsund heimili á nauðungaruppboði. Með því að henda brauði, tómötum og eggjum í ráðamenn voru mótmælendur að benda á að með atvinnuleysi og hækkandi verðlagi væri búið að taka matinn frá fjölskyldunum. Fátækt er raunveruleiki. Í góðærinu var fátækt fyrir hendi, mest hjá öryrkjum. Þá jókst bilið milli ríkra og fátækra stöðugt. En eftir hrun bættist nýr hópur fátækra við, atvinnulausir og lágt launaðir, með skuldir á bakinu.

Fleiri hundruð fjölskyldur þurfa að leita á náðir hjálparstofnana í hverri viku til að fá mat til heimilisins. Við hjá kirkjunni fáum greinagóðar upplýsingar um stöðuna í gegnum Hjálparstarf kirkjunnar. Ef við skoðum upplýsingar um innanlandsaðstoð og velferð barna sérstaklega, þá sjáum við að félagsráðgjafar Hjálparstarfsins veita fólki á Íslandi aðstoð í neyð. Hún felst í ráðgjöf, mataraðstoð, greiðslu fyrir lyf og stuðningi við börn og ungmenni vegna skóla og tómstunda. Prestar, félags- og námsráðgjafar úti um allt land taka við umsóknum þar. Þannig stendur aðstoðin öllum til boða óháð búsetu.

Árið 2009 varði Hjálparstarf kirkjunnar 81,4 milljónum í aðstoð við fólk á Íslandi og að auki fékk það gefna matvöru sem er áætlað að kostaði 6,5 milljónir. Mataraðstoð var veitt meira en 5.000 fjölskyldum. 162 börn voru styrkt á námskeið og til tómstunda. 13-20 fengu föt í viku hverri á sig og fjölskyldu sína.

Stundum hefur verið rætt um að verið sé að misnota hjálparstarfið og að þeir sem ekki þurfi á hjálp að halda séu að ná í mat. Niðurstaða þeirra sem eru hjá Hjálparstarfi kirkjunnar varð sú að biðja alla sem til stofnunarinnar leituðu um að skila inn gögnum um tekjur og útgjöld. Þannig var hægt að sjá hvert ráðstöfunarfé viðkomandi væri að greiddum öllum reikningum og hvort það dygði til framfærslu. Ákveðið var að miða við framfærsluupphæð Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna varðandi ákvörðun um hver fengi aðstoð. Með þessum breytingum kom í ljós að sumir umsækjendur voru yfir þessum mörkum. En um leið var ljóst að nokkur hópur átti ekkert eftir þegar reikningar voru greiddir. Enn fremur hefur komið í ljós að viðmiðun framfærsluupphæðar er of lág. Kæru vinir. Fátækt er raunveruleg á Íslandi og hún er viðvarandi. Það er óþolandi og ólíðandi að þjóð sem telur að hún byggi á kristnum grundvelli og kennir sig við norræna velferð hafi fátækt fólk bíðandi í röðum eftir mataraðstoð hjá hjálparstofnunum.

Kristin trú og fátæktin

Í vikunni sem nú er liðin kenndi ég fermingarbörnum um nokkur grundvallaratriði kristinnar trúar. Þau eiga vel við nú í umfjöllun um fátækt og samstöðu með fólki í erfiðleikum. Kristin trú kennir Guð sé skaparinn, að allt sem Guð skapar sé gott og að maðurinn sé skapaður í Guðs mynd.

Með því að skoða þessar grundvallar reglur ásamt tveimur í viðbót, sem ég nefni á eftir, sjáum við aðalatriðin. Guð er góður og skapar allt gott. Allt sem er á jörðinni er handa manneskjunni, en henni er samt falið að fara vel með gjafir Guðs. Allt sem er vont eins og t.d. fátækt er á móti vilja Guðs, því það gengur gegn góðum vilja Guðs. Maðurinn er skapaður í Guðs mynd. Það gefur honum virðingu og gildi sama hvernig húðlitur hans er, líkamlegt eða andlegt ástand, það í hvaða landi hann er fæddur eða hvort hann er veikur eða hefur misst vinnuna. Þannig eiga fátækir og þau sem eiga í einhverjum erfiðleikum rétt á sömu virðingu og viðmóti og allir aðrir. Það eru allir jafn mikils virði. Guð elskar alla jafnt og vill að við virðum hvert annað og styðjum hvert annað.

Einnig vil ég benda á tvöfalda kærleiksboðorðið og gullnu regluna til viðbótar. Tvöfalda kærleiksboðorðið fjallar um að elska Guð af öllu hjarta, sálu, mætti og huga og náungann eins og sjálfan sig. Og gullna reglan er svona: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.

Tvöfalda kærleiksboðorðið segir kristnum mönnum að elska Guð, en um leið náungann eins og sig sjálf. Þegar við horfum á aðra manneskju sjáum við Krist. Þegar gullnu reglunni er bætt við um að koma fram við aðra á sama hátt og við viljum láta koma fram við okkur, verður það ljóst að við eigum að berjast gegn fátækt og vinna að því að allir búi við sæmandi kjör.

Hlutverk kirkjunnar og fátæktin

Þjónusta kirkjunnar er að biðja, boða og þjóna. Í messum og á bænastundum í kirkjum um allt land er beðið fyrir þeim sem eru fátækir og eiga erfitt. Það er einnig hlutverk kirkjunnar að kenna um hinn kristna grundvöll virðingar, samhjálpar og boða kærleika í verki. Ég nefndi áðan hvernig fermingarbörn hafa fengið uppfræðslu í kristnu manngildi og mannvirðingu. Þau fengu heimsókn af ungu fólki frá Úganda, sem fræddu þau um lífið þar. Þau munu fá frekari fræðslu um líf ungs fólks í Afríku. Síðan fá þau tækifæri til að þjóna. Þau fá tækifæri til að elska náungann eins og sjálf sig, sýna kærleika í verki, með því að safna fyrir brunnum í Mósambík.

Á Akureyri er nú landsmót Æskulýðsfélaga þjóðkirkjunnar fyrir unglinga á aldrinum 14-16 ára, 9.,10. og fyrsta bekk í framhaldsskólum. Þar eru nú 650 unglingar. Frá sameiginlegu æskulýðsfélagi Digranes og Hjallakirkju fóru 24 þátttakendur og fimm leiðtogar. Aðalefni ráðstefnunnar er frelsun þrælabarna á Indlandi. Það verður ekki aðeins fræðsla sem Hjálparstarf kirkjunnar verður með heldur verður einnig seld handavinna og handverk þátttakenda. Markmiðið er að frelsa eitt barn fyrir hverja götu á Akureyri. Frábært verkefni.

Kirkjan stendur ávalt opin þeim sem leita stuðnings. Viðtal við presta kostar ekki neitt. Þjóðkirkjan hefur vel menntaða presta um allt land. Við fáum til okkar fólk sem ekki hefur efni á að leita sálfræðings eða læknis. En við búum svo vel hér í okkar söfnuði að geta boðið upp á eftirfylgd í erfiðum aðstæðum. Það er hún sr. Yrsa Þórðardóttir sem hefur getið sér sérstaklega gott orð fyrir þá þjónustu. Við höfum boðið öðrum prestum hér í Kópavogi til að beina fólki til hennar.

Við þurfum að sýna þeim sem búa við erfiðar kringumstæður stuðning. Stundum er fátt annað sem við getum gert en að hlusta og biðja. Stundum getum við hjálpað. Reynum að finna leiðir, þar sem allir halda reisn sinni. Gefum öðrum með okkur. Mér hefur sjálfum reynst vel að styrkja Hjálparstarf kirkjunnar og á jólaföstunni höfum við í söfnuðinum styrkt Hjálparstarfið og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs. Höldum því áfram. Horfum til Drottins og látum gott af okkur leiða eins og unga fólkið.

Nú er ég klæddur og kominn á ról, Kristur Jesús veri mitt skjól. Í guðsóttanum gefðu mér að ganga í dag svo líki þér.

Látum þessa morgunbæn leiða okkur hvern dag. Amen.