Þarfnast kirkjan sjálfboðaliða?

Þarfnast kirkjan sjálfboðaliða?

Þjóðkirkjan þarf að leggja mun meiri áherslu á námskeið meðal ungra sem eldri. Námskeið sem bæði fræða um kristna trú og kynna safnaðarstarfið. Mín reynsla er sú, að þegar fólk styrkist í þekkingu sinni á kristinni trú vex löngun þess til að fá að starfa fyrir kirkjuna.
Mynd
Magnús Björn Björnsson - andlitsmyndMagnús Björn Björnsson
05. febrúar 2010

Úr kirkjustarfi

Á nýlegu málþingi um hagnýtar leiðir til að fá fleiri sjálfboðaliða til starfa í kirkjunni, kom fram að þörfin er mikil en framboð einnig. Flestir koma til starfa af því að þeir eru sýnilegir kirkjugestir, sækja messur og kirkjulegt starf meðal unglinga og aldraðra. Einnig var bent á mikilvægi námskeiða s.s. Alfa og Lifandi steina, þar sem fræðsla um trúna leiðir til beinnar þátttöku í kirkjulegu starfi.

Innan kirkjunnar hefur sjálfboðaliðastarf alla tíð verið mikið. Nægir að nefna að sóknarnefndir, sem stjórna sóknunum og sjá um rekstur kirkna og safnaðarheimila. Hér erum við að tala um á þriðja hundrað stórra og smárra sókna um allt land. Sýnilegur vaxtarbroddur á sjálfboðnu starfi innan kirkjunnar er starf messuþjóna. Þeir taka á móti fólki er það kemur til guðsþjónustu, lesa ritningarlestra og bænir og aðstoða presta við útdeilingu.

Hugmyndafræði um sjálfboðastarf innan kirkjunnar sækir fyrirmynd sína í sögur af frumsöfnuðinum í Postulasögunni, þar sem fólk kom saman í heimahúsum, lofaði Guð, bað og átti samfélag um Guðs orð og brauðið. Það skipti öllu á milli sín og veitti þurfandi aðstoð. Lúther kom fram með kenningar um hinn almenna prestsdóm í skrifum sínum. Þar kallar hann eftir ábyrgð veraldlegs yfirvalds og viðurkennir þekkingu almúgans á fagnaðarerindinu. Þrátt fyrir vígslu sína áttu prestar ekki að hafa völd umfram aðra í söfnuðinum. Skírnin var sú vígsla sem gerði alla að prestum og kenningin um hinn almenna prestsdóm tók flugið. Á tímum heittrúarstefnunnar var lögð áhersla á þekkingu á ritningunni. Íslendingar geta þakkað þeirri stefnu að allur almenningur var orðinn læs og skrifandi um 1800. Allt fram á 20. öld var þekking almennings á grundvallaratriðum kristinnar trúar með ágætum. Hún byggðist á kverum kirkjunnar, sem börn hófu sum að læra um leið og þau urðu læs, og endaði með fermingunni. Þeirri þekkingu hefur farið mikið aftur. Spyrja verður hvort kirkjan hafi tekið nægilega alvarlega á þeirri staðreynd að frá því um 1950 var kristinfræðitímum fækkað niður í eina kennslustund á viku í grunnskólum landsins. Síðan þá hefur námsskrá breyst og trúarbragðafræðsla bæst inn í námið á kostnað kristinfræði. Það er þakkarefni að fermingarfræðsla kirkjunnar skuli ná til mun fleiri ungmenna en tilheyra þjóðkirkjunni. En það er einnig áhyggjuefni að unglingastarf með tilheyrandi fræðslu nái aðeins til fárra. Og er ég nú kominn að kjarna máls míns.

Þjóðkirkjan þarf að leggja mun meiri áherslu á námskeið meðal ungra sem eldri. Námskeið sem bæði fræða um kristna trú og kynna safnaðarstarfið. Hér má nefna bæði Alfanámskeiðin og Lifandi steina. Markmið beggja námskeiðanna er að tengja þátttakendur söfnuðinum. Það næst með því að bjóða upp á samfélag sem lætur fólki líða vel. Þess vegna er mikilvægt að borða saman. Fræðslan þarf að vera alþýðleg og fræðandi, og mikilvægt er að allir þátttakendur geti tjáð sig í hópum. Einnig þurfa námskeiðin að gefa innsýn í trúarlíf einstaklinga og safnaðarins. Þess vegna er mikilvægt að sálmar og bænir séu eðlilegur hluti námskeiða. Mín reynsla er sú, að þegar fólk styrkist í þekkingu sinni á kristinni trú vex löngun þess til að fá að starfa fyrir kirkjuna. Kirkjan þarfnast sjálfboðaliða og byggir tilvist sína á þeim.