Frelsi til að elska

Frelsi til að elska

En þegar hann var kominn niður á markaðstorgið barðist hjartað um í brjósti hans og hann nötraði allur. Af hverju? Jú, þótt hann ætti allt heimsins gull og réði ríkjum yfir herdeildum og býsn af starfsfólki þá réði hann ekki yfir hjarta blómsölustúlkunnar.

Texti Jes. 9.1-7; Blómasölustúlkan; Lúk.2.1-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 I Gleðileg jól. Þessi kveðja hefur ómað manna á milli síðustu dagana. Við höfum flest getað dvalið í faðmi fjölskyldunnar, borðað góðan mat, tekið upp gjafir og jólakort en umfram allt verið með þeim sem okkur þykir vænst um.

Í sögu Sörens Kierkegaards um blómasölustúlkuna sem lesin var áðan var konunugurinn ástfanginn. Hann hafði séð óbreytta blómasölustúlku sem hreif  hann. En þar með var ekki öll sagan sögð. Þó að hann væri konungur ríkisins og hefði vald til að skipa mönnum að gera hitt og þetta þá hafði hann ekki vald yfir hjarta blómasölustúlkunnar. Hann gat komið í öllu sínu skarti á gullvagni, rennt út rauðum dregli, haft í kringum sig lúðrasveit og herfylkingu og reynt að hrífa hana þannig með ríkidæmi sínu, en hann yrði samt ekki viss um ást hennar.

Honum datt líka í hug að gefa henni gullvagninn, gæðingana og herflokkinn, en þegar allt kom til alls tryggði það ekki ást stúlkunnar til hans og hvers virði var það að gifta sig ef blómasölustúlkan gerði það bara af þakklæti eða hrifningu yfir veraldlegum gæðum hans. Konungurinn elskaði hana og ekkert var fullnægjandi fyrir hann nema ást hennar. Hann hafði vald á miklu en hann hafði ekki vald yfir ástinni. Hjarta hennar gat hann aðeins unnið með því að mæta henni á jafnræðisgrunni. Hann fór til hennar klæddur eins og fátækur bóndi og ætlaði að vinna ást hennar þannig. En þegar hann var kominn niður á markaðstorgið barðist hjartað um í brjósti hans og hann nötraði allur.

Afhverju? Jú, þótt hann ætti allt heimsins gull og réði ríkjum yfir herdeildum og býsn af starfsfólki þá réði hann ekki yfir hjarta blómsölustúlkunnar.

Þarna var sjálfur kóngurinn óstyrkur og varnarlaus. Hér var það frelsi stúlkunnar sem réði ríkjum. Við vitum ekki hvort hún sagði já, en ég held að við vonum að hún hafi sagt já við þessum einlæga konungi sem lagði frá sér allt ríkidæmið og skartið til að ná til stúlkunnar á réttum forsendum.

II Við getum hugsað um Guð sem hliðstæðu þessarar sögu. Hann vildi í ást sinni nálgast manninn og deila með honum kjörum. En Guð gat ekki komið í hátign sinni sest mitt á meðal mannanna og vingast við þá. Mennirnir hefðu skelfst yfir þeim ógnarkrafti og hreinleika sem Guði fylgdi, svo að þeir hefðu hlaupið í felur eins og Adam og Eva forðum. Skömmustutilfinningin veldur því oft að við komum ekki fram fyrir hinn æðsta. Guð, skapari himnafestingarinnar, jarðarinnar, manneskjunnar, hvers smærsta blóms, er svo miklu voldugri og æðri en við að það veldur miklu ójafnvægi.

Í einum elsta sálmi Biblíunnar segir: „…hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess?“ Sálm.8.5

Og þrátt fyrir þennan mikla mun á Guði og manni þá elskar Guð hvert og eitt mannsbarn í veröldinni. Hann hefur skapað okkur í sinni mynd. Og hann vill eiga vináttusamfélag við hvert og eitt okkar. Við erum öll sköpuð til samfélags við Guð. Á meðan við nærum það ekki með hugsun og bæn til Guðs þá finnum við fyrir tómarúmi innst inni sem við erum alltaf að reyna að fylla. Yfirgengilegt pakkaflóð er ein birtingarmynd þessa. Við þjótum á allskonar uppákomur, við kaupum okkur eitthvað nýtt, við drekkum okkur drukkin, við sækjum í sambönd þar sem við ætlum að láta hinn aðilann fylla upp í allt sem upp á vantar hjá okkur. Við erum alltaf að reyna að fylla upp tómarúmið sem Guð einn getur uppfyllt. Og við verðum sí og æ fyrir vonbrigðum.

En Guð bíður þolinmóður hjá okkur eins og konungurinn, á milli vonar og ótta, hann bíður þess að við bjóðum honum inn.

Þar sem Guð skynjaði þetta bil á milli Guðs og manns þá varð hann að koma til okkar sem einn af okkur.

„Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn, á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla.“Jes.9.5a Svo segir í spádómsbók Jesaja. Við minnumst fæðingu frelsarans á hverjum jólum. Guð kom til okkar í litlu ósjálfbjarga barni. Mannlegar þarfir voru komnar á dagskrá. Þetta litla barn var háð ástúð umheimsins. En strax á fyrstu dögum þess leitaðist Heródes konungur við að láta drepa það. Jósef og María þurftu að flýja með Jesú til Egyptalands. Þarna var Guð á áþreyfanlegan hátt farinn að taka þátt í mannlegum kjörum. Hann skilur aðstæður flóttamanna og tekur undir byrði þeirra. Þegar Jesús var orðinn fulltíða sagði hann að refar ættu greni en hann ætti hvergi höfði sínu að halla. Þar með er hann bróðir og systir þeirra sem eru heimilislaus. Í elsku sinni finnur hann til. Hann grét yfir Lasarusi látnum með Mörtu og Maríu systrum hans. Hann grætur með syrgjendum í dag og styður þá. Hann var svikinn í hendur Rómverja og hann varð fyrir einelti þegar múgurinn kallaði krossfestu hann, krossfestu hann. Jesús líður með þeim sem líður. Hann tók dauða minn og dauða þinn á sig svo að við mættum lifa í fullri gnægð hjartans hér og lifa í Guði þótt að við deyjum. Hann tók á sig sök okkar og bar hana upp á krossinn. Hann gerði hreint fyrir dyrum okkar frammi fyrir Guði. Hann sigraði dauðann og allt hið illa. Vegna alls þessa getum við komið með skömmustu tilfinningu okkar fram fyrir Jesú og skilið hana eftir við krossinn. Þess vegna er aðskilnaðurinn á milli Guðs og manns ekki til staðar lengur nema að þú lokir hjarta þínu. Því ræður ekki Guð. Ást hans til þín hefur birst í lífi og dauða Jesú Krists. Það er þitt að velja hvort þú  hafnar elskunni eða segir eins og sálmaskáldið Einar Sigurðsson frá Heydölum:

Þér gjöri eg ei rúm með grjót né tré, gjarnan læt ég hitt í té, vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér minn kæri. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.

III Í sama sálmi segir að það sé „nú heimsins þrautarmein að þekkja hann ei sem bæri.“ Við megum þekkja Jesú í því að hann gekk inn í allar erfiðustu aðstæður lífsins svo að hann gæti verið okkur styrkur þegar við stöndum þar.  Þegar við horfum til siðferðisgilda hans standa upp úr tvöfalda klærleiksboðorðið sem snýst um að þú skalt elska Guð og virða af heilum hug, þú skalt elska og virða náunga þinn og þú skalt elska sjálfan þig. Hitt er Gullna reglan sem segir „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ Mt.7.12

Sjónarhorn hans á manngildið var kærleikurinn ofar öllu. Með kærleika skyldi skera úr málum. Postulinn Páll orðaði boðskapinn svo: „Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað…Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein.“ Róm.13.8,10I  Hér er virðing fyrir manneskjunni og kærleikur að leiðarljósi. Þetta er boðskapurinn sem allt í einu má ekki vera sýnilegur innan veggja skólans. Talað hefur verið um þennan boðskap í fjölmiðlum eins og hér væri skemmdarstarfsemi á ferð, eitthvað sem gæti verið hættulegt barnssálum. En þetta er grunnstefið í því að samfélag geti orðið farsælt. Kærleikurinn og réttlætið hefur verið leiðarljós í siðgæði þjóðarinnar í gegnum aldirnar. Enda hafa margir komið að máli við mig sem hafa lýst furðu sinni á þessari umræðu í samfélaginu.  Skólastarf á að vera unnið faglega, þar á ekki að stunda trúboð, kristinfræðin eiga að vera fræðsla ekki boðun og ég held að því sé líka almennt þannig farið. Við höfum vel menntaða og færa kennara sem vinna erfitt starf.

Það er alveg ljóst að ef  þjóðin á að lifa í sátt og samlyndi í fjölmenningunni sem er að myndast hér þá verður að efla almenna trúarbragðafræslu í skólum því að í gegnum hana skiljum við sið og menningu þjóða. Með fræðslu er von um skilning og umburðarlyndi. Fræðslan slær á fordóma og ótta. Við þurfum líka að halda fast við þann kristna sið sem hefur mótað menningu okkar og siðgæði í gegnum aldirnar. Undanfarið hefur gripið um sig einhver órökvís viðkvæmni. Eins og eftir eitthvað upphlaup og allir eru að passa sig að stíga ekki á tærnar á neinum öðrum. Í því hugarástandi gæti einhver verið til í að kasta barninu út með baðvatninu án þess að átta sig á því að barnið er fjársjóðurinn. Það er kannski kominn tími til að þjóðin skoði gaumgæfilega hvaða fjársjóð hún á í kristnum sið og standi með honum.

Við þurfum að ræða málið áfram í samfélaginu. Við þurfum að vera tilbúin að viðurkenna hvaða jákvæðu áhrif kristin gildi hafa á samfélagið og við þurfum að horfast í augu við að ef við ýtum öllum kristnum gildum út þá koma einhver önnur gildi inn í staðinn. Við vitum ekki hver þau eru. Erum við tilbúin að skipta á þeim? Hvaða gildi sína meiri elsku og réttlæti en að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur?

IV Kristin hefð boðar að á jólum kom Guð í mannheim. Hann gaf okkur stærstu jólagjöfina í Jesúbarninu. Það var auglýsing á elsku Guðs til mannsins. Brátt líða jólin hjá en Guð stendur áfram hjá þér í Jesú Kristi og knýr á um ást þína. Hann vill fylla tómarúm þitt með sjálfum sér. Ef þú játast honum og tómið fyllist þá er eins og síðasta pússluspilið í myndinni sé fundið. Guð er þinn og þú ert hans og jákvæð verkandi áhrif Guðs anda kalla fram hjá þér kærleika til náungans. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.