Vantrú, trú, von og kærleikur

Vantrú, trú, von og kærleikur

Þessi vika hefur verið öll hin undarlegasta! Við höfum verið að upplifa sögulega tíma. Þessarar viku verður minnst í sögubókum, bæði innlendum og erlendum. Þær erlendu eiga eftir að minnast innsetningu Obama en bækur um sögu Íslands eiga eftir að minnast mestu mótmæla í sögu lýðveldisins.

Postularnir sögðu við Drottin: „Auk oss trú!“

En Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.

Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, tak þig til og þjóna mér meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið. Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gera það sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gert allt sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“ Lúk 17.5-10

Vantrú

Þessi vika hefur verið öll hin undarlegasta! Við höfum verið að upplifa sögulega tíma. Þessarar viku verður minnst í sögubókum, bæði innlendum og erlendum. Þær erlendu eiga eftir að minnast innsetningu Obama en bækur um sögu Íslands eiga eftir að minnast mestu mótmæla í sögu lýðveldisins.

Almenningur hefur gert uppreisn. Sem er ágætt. Oft þarf stöðug mótmæli til þess að breytingar verði en áhrifamestu mótmæli sögunnar hafa þó verið friðsamleg. Það er erfiðara að beita fólk sem mótmælir friðsamlega, kylfum, piparúða eða táragasi. Gandhi, sem fór fyrir friðsamlegri baráttu Indverja fyrir sjálfstæði frá Bretum, var einn þessara friðsamlegu mótmælenda og hann fékk sitt fram að lokum. Það þýddi samt ekki að lagabókstaf væri fylgt. Gandhi ögraði yfirvöldum á hárfínan hátt. Ef til handtöku eða ofbeldis lögreglu kom streittust mótmælendur ekki á móti. Ekki kom til greina að greiða sektir eða tryggingar til að sleppa við fangavist.

Gandhi og hans fólk kastaði ekki gangstéttarhellum eða sprengdi flugelda framan í lögregluna. Þau mótmæltu án alls ofbeldis og unnu baráttuna.

Flestir mótmælendur hér á Íslandi eru líka friðsamir og vilja vel. Það kom kannski best í ljós þegar útför fór fram í dómkirkjunni í miðjum mótmælum því þegar mótmælendur áttuðu sig á hvers kyns var þá þögnuðu þeir og hófu ekki aftur að berja í potta og skálar fyrr en útförinni lauk. Þetta sýnir að mótmælendur á Austurvelli er ekki stjórnlaus skríll þótt misjafna sauði sé að finna í öllu fé.

Þau sem mótmæla núna er fólk sem hefur misst trúna á stjórnvöldum. Atburðir á Íslandi á undanförnum mánuðum hefur gert fólk reitt og vonsvikið og við eigum erfitt með að treysta stjórnvöldum og öllum fjármálageiranum. Mörg okkar eiga erfitt með að treysta atvinnurekendum nú þegar uppsagnir og launalækkanir vofa yfir. Og ráðherrar og þingfólk, jafnvel innan sama flokks, virðist meira að segja sumt ekki treysta hvert öðru lengur.

Grundvallartraust hefur beðið hnekki og ekkert samfélag stenst án trausts! Trú á samfélagið eins og við Íslendingar höfum þekkt það allra síðustu ár er óðum að hverfa, eða kannski er hún nú þegar horfin.

Er þá hægt að trúa á eitthvað? Er hægt að treysta einhverjum?

Trú

Allir textar þessa sunnudags fjalla um trú. Þeir segja okkur hvað trú er, hvernig trúuð manneskja hegðar sér og hvernig Guð annast þau sem trúa á hann.

Biblíutextarnir fjalla ekki um trú á manneskjur, á banka, á stjórnmálakerfi eða nokkuð sem stjórnað er af fólki. Þeir fjalla um trú á hið góða, trú á kærleikann, trú á Guð. Guð er sá sem ALDREI bregst! Guð er kærleikur og því getur aðeins gott komið frá Guði.

Þetta er mikilvægur boðskapur einmitt í dag þegar vonleysi, hræðsla og reiði er meðal þess sem einkennir þjóðarsálina. Boðskapurinn um þann sem elskar þig, sama í hvaða liði þú ert, hvort sem þú kýst vinstri græna, samfylkinguna, sjálfstæðisflokk eða eitthvað annað, sama hvort þú tekur þátt í mótmælum eða ert í lögreglunni, á alltaf við – og kannski sérstaklega í dag.

Við megum nefnilega ekki gleyma því í öllum látunum að ÖLL erum við elskuð af Guði og að ÖLL erum við jafn dýrmæt í augum Guðs.

Við eigum alltaf að berjast fyrir réttlæti, því annars verður heimurinn aldrei betri, en við ættum að vara okkur á því að fara of hart fram gegn ákveðnum persónum. Þau sem kannski eru mest sek fyrir því að svona fór hér á Íslandi, ef þau eru einhver, eru líka manneskjur. Að sjálfsögðu eigum við að gera ráð fyrir iðrun og afsökunarbeiðni en við megum ekki fara út í ómanneskjulegar nornaveiðar.

Við þurfum að koma á sátt hér á litlu eyjunni okkar og hún næst að öllum líkindum ekki fyrr en einhverjar breytingar verða gerðar í stjórnmálum og jafnvel kosið upp á nýtt. En kannski ættum við að hafa Guð meira með í ráðum og spyrja okkur aðeins oftar, hvað Jesús Kristur myndi gera í okkar sporum.

Það er ekkert sjálfsagt að treysta hverjum sem er fyrir því að stjórna landinu okkar, og stofnunum í dag. Það hefur sýnt sig að öll erum við breysk en við vissum það svo sem... En hvernig byggjum við upp trú. Trú á hvert annað og trú á Guð. Leiðin sem Jesús bendir okkur á í guðspjalli dagsins er að við eigum að fara út og vera almennileg við hvert annað. Hann segir að við eigum að þjóna hvert öðru og gera aðeins meira en við viljum og nennum, aðeins meira en okkur þykir sjálfsagt. Við eigum að fyrirgefa hvert öðru þegar okkur verða á mistök en við verðum líka að vera nógu miklar manneskjur til þess að sýna iðrun og biðjast fyrirgefningar.

Von

Það gefur mikla von að sjá ykkur kæru fermingarbörn hér í dag með fjölskyldum ykkar. Þið kæru unglingar, eruð framtíðin okkar! Og þið hafið öll valið að fermast vegna þess að þið trúið á Guð eða í það minnsta vegna þess að þið viljið trúa á Guð. Það er ekki hægt að krefjast meira af þrettán eða fjórtán ára ungling en þess að vilja trúa.

Í dag munum við ganga til altaris. Stór hluti fermingarbarnanna hefur þegar farið til altaris og veit allt um það hvernig við förum að. Hvort þið munið hversvegna við gerum þetta er síðan annað mál og svo sem ekki að undra að þið gleymið því. Það er nefnilega þannig að það sem gerist í altarisgöngunni er leyndardómur, eitthvað sem við getum aldrei alveg skilið og hvað þá útskýrt til fullnustu.

Við vitum bara að við erum velkomin að borði Drottins eins og við erum. Breyskar manneskjur með alla okkar kosti og alla okkar galla.

Jesús Kristur sagði sjálfur að við ættum að minnast hans með þessum hætti. Með því að eta brauð og drekka vín sem minnir á líkama og blóð Krists sem lét sitt líf svo við myndum fá eilíft líf.

Altarissakramentið er þó meira en bara minningarathöfn því Jesús er mitt á meðal okkar í máltíðinni. Hann er undir og yfir og allt um kring.

Kærleikur

Altarisgangan er samfélag. Það þýðir að við göngum alltaf til altaris með öðru fólki og við trúum því að þegar við tökum við altarissakramentinu þá er Jesús mitt á meðal okkar. Við erum ekki ein.

Lengi vel var gengið til altaris í fyrsta skipti í fermingarathöfninni.

Hér eru öll þau sem skírð eru velkomin að borði Drottins. Þú þarft ekki að kunna kenningar kristinnar kirkju til þess að vera velkomin. Það þarf ekki að hlýða þér yfir um kristindóminn áður en þú færð að taka við líkama og blóði Krists, áður en þú færð að vera með í því allra leyndardómsfyllsta í kirkjunni okkar.

Já þessi vika hefur verið skrýtin. Borgin okkar hefur logað. Við fengum fréttir um að forsætisráðherrann hefði greinst með krabbamein sama dag og von var á utanríkisráðherra heim úr aðgerð vegna æxlis í höfði. Þetta minnir okkur á að öll erum við bara manneskjur. Hvorki neitt meira né minna.

Reynum að koma fram við hvert annað eins við viljum að komið sé fram við okkur og reynum að sjá Jesú í andliti ALLRA sem við mætum á lífsleiðinni.