Foreldri – lífstíðardómur ábyrgðar

Foreldri – lífstíðardómur ábyrgðar

„Hvers vegna neytir manneskja fíkniefna?“ Ég var spurður þessarar spurningar um daginn og það var fátt um svör hjá mér. Það er heldur ekki til einhlítt svar. Eitt svarið er að það ætlar sér engin að vera fíkniefnaneytandi. Neyslan byrjar á saklausu fikti sem síðan oftar en ekki leiðir af sér meira.
Þór Hauksson - andlitsmyndÞór Hauksson
06. ágúst 2006

„Hvers vegna neytir manneskja fíkniefna?“ Ég var spurður þessarar spurningar um daginn og það var fátt um svör hjá mér. Það er heldur ekki til einhlítt svar. Eitt svarið er að það ætlar sér engin að vera fíkniefnaneytandi. Neyslan byrjar á saklausu fikti sem síðan oftar en ekki leiðir af sér meira. Því var spáð fyrir einhverjum tíu árum af írskum fyrirlesara, sem kom hingað til lands– man ekki nafn hans, en hann sagði að vandinn sem þeir (Írar) væru að glíma við með auknu ofbeldi samfara fíkniefnaneyslu ætti eftir að skola á land á litla Íslandi. Staðreyndin er sú að það varð og það er það sýna allar tölur hvað varðar ofbeldi hverskonar, rán og líkamsmeiðingar af hendi fólks sem er frávita af neyslu hverskonar. Ef við höldum að ástandið muni batna þá gerist það ekki.

Einn anginn af því að ástandið batnar ekki er sá á meðan að við “samþykkjum” unglingadrykkju mun ástandi aðeins versna. Á meðan að við látum aðra en okkur sjálf að sjá um að börnin okkar virði útivistareglur – að þau eru sjálfala á þvælingi einhverstaðar úti í bjartri sumarnóttunni á meðan við gerum það bjóðum við hættunni heim, það er svo einfalt. Það þarf ekki sérfræðinga með prófgráður upp um alla veggi til að segja okkur hvernig við eigum að ala upp börnin okkar. Við foreldarnir erum sérfræðingarnir sem því miður oftar en ekki viljum ekki skilja og treysta því að það erum við sem eigum að ala upp börnin okkar. Það erum við sem eigum að sýna jákvæðan aga. Það erum við sem setjum mörkin, að það erum við sem erum fyrirmyndirnar. Það erum við sem...eigum ekki að fara í ríkið og kaupa áfengi handa börnunum okkar.

Foreldri aðspurt hvers vegna þau geri það? Jú – betra að þau sem foreldri sjái um aðföngin svo að þau eru ekki að drekka einhvern óþverra með sumarnóttina sem bland! Er ekki allt í lagi! Á ekki foreldri að standa á tánum að koma barni sínu til manns? Framundan er ferðahelgi ársins sem því miður er helgi sem margur prófar í fyrsta skipti og því miður ekki í síðasta skipti fíkniefni. Fyrsta helgin þar sem farið er úr bænum án foreldra og barnið ekki lögráða. Hvað er að þegar barn fer á útisamkomu án afskipta foreldris. Ungmennið finnst það vera allir vegir færir og “leiðbeinendurnir” eru margir sem eru tilbúnir að beina því inn á óæskilegar brautir.

Einhver sagði einhverntíma og einhverstaðar “að vera foreldri væri lífstíðardómur” Það eru mikil sannindi í þessari hugsun og orðum. Það er ekki hægt að segja sig frá því að vera foreldri hversu erfitt sem það getur verið. Það vita foreldar sem misst hafa börnin sín í myrkan heim fíkniefna. Angistin, óttinn, vonbrigðin, hræðslan við að horfast í augu við aðra, að finna til þess að vera ekki nógu gott foreldri-vera dæmd af öðrum. Málið er að fíkniefnadjöfullinn getur bankað á hvaða hurð sem er og sótt hvaða barn sem er hversu sem vel hefur verið hlúð að barninu í uppeldi þess. Þar kemur til ábyrgð okkar forelda að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að bægja þessum vágesti frá og berjast við hann með kjafti og klóm. Það gerum við best með þvi að vera fyrirmyndir og sýna jákvæðan stuðning við þá sem sinna málum ungmenna en ekki á sama tíma að vera stikkfrí í því að ala upp börnin.

Eflaust fáum við aldrei viðhlítandi skýringu á hversvegna ungmenni leiðast inn inn á brautir fíkniefnaneyslu. Fíkniefnaneysla mun því miður vera viðvarandi en á sama tíma þurfum við ekki að sætta okkur við það! Það sýnum við best með því að vera vakandi fyrir því hvað börnin okkar eru að gera í sínum tómstundum. Hvaða vinahópi þau tilheyra og hafa áhuga á því sem þau eru að gera. Það kostar vinnu og yfirlegu en það er vel þess virði fyrir þig og barnið þitt til framtíðar.