Sálgæsla kirkjunnar

Sálgæsla kirkjunnar

Sálgæsla er trúnaðarsamtal prests, djákna eða annars starfsfólks kirkjunnar við hvern þann sem á trúnaði þarf að halda og kýs að leita til kirkjunnar með vandamál sín, tilfinningar eða lífsreynslu.

Haustlauf

Þegar ég segi fólki frá því að yfir helmingur vinnutíma míns sem prestur fari í sálgæslu hef ég orðið vör við það að fólk veit ekki hvað sálgæsla er.  Sumir gera ekki greinarmun á sálfræðimeðferð og sálgæslu og aðrir gera ekki greinarmun á sáluhjálp og sálgæslu. 

Sálfræðingar vinna meðferðarvinnu.  Á faglegan hátt greina þeir/þær sálarlífið og vinna með einstaklingum eftir aðferðum sálarfræðinnar.  Til slíkrar meðferðarvinnu hafa prestar ekki menntun, en þeir/þær hafa þó menntun í því sem heitir sálgæsla og ég fer nánar út í hvað það er hér á eftir.   Sáluhjálp er hins vegar trúarlegt orð, sem felur í sér hvað gerist eftir dauðann.  Að vera sáluhólpinn er að eiga þá trú að við hvílum í faðmi Guðs að eilífu og ekkert geti slitið okkur úr hendi Guðs, ekki einu sinni dauðinn.

En hvað er þá sálgæsla? 

Sálgæsla er trúnaðarsamtal prests, djákna eða annars starfsfólks kirkjunnar við hvern þann sem á trúnaði þarf að halda og kýs að leita til kirkjunnar með vandamál sín, tilfinningar eða lífsreynslu.   Fyrirmynd sálgæslunnar er Jesús sem átti mörg trúnaðarsamtöl við fólk á öllum aldri og öllum stéttum bæði karla og konur.  Þekktast er ef til vill samtal Jesú við samverska konu, sem er í 4. kafla Jóhannesarguðspjalls.  Jesús kemur þar að brunni og biður konu að gefa sér að drekka.  Í miðju samtalinu spyr Jesús um mann hennar.  Það kemur fát á konuna og hún segist ekki eiga neinn mann.  Þá segir Jesús að það sé rétt af því að hún hafi átt fimm menn og sá sem nú hvíli hjá henni sé ekki maður hennar.  Þegar samtalinu lýkur hefur myndast trúnaður á milli þeirra.  Konan tjáir sig á þann hátt að Jesús finnur að það er eitthvað sem liggur í lífsreynslu þessarar konu sem hún er ekki að segja berum orðum.  Hann finnur það út með því að lesa í svip hennar, lesa í hugsun hennar, reyna að lesa milli línanna þannig að smám saman kemur sannleikurinn um líf hennar fram í dagsljósið.  Þetta er list sálgæslunnar.  Ég segi list, en gæti allt eins kallað það náðargáfu, vegna þess að þetta er ekki öllum gefið.  Við getum lesið okkur til um sálarlíf fólks, en innsæið í sálina er náðargáfa.  Enginn mannvera hafði þá náðargáfu eins fullkomna og Jesús.  Það sýnir sagan um samversku konuna okkur best.  Guðspjöllin geyma miklu fleiri sögur um þetta innsæi Jesú.  Sagan um konuna sem smurði fætur Jesú og þerraði þær með hári sínu, sagan um óþekktu konuna sem hellti olíu yfir höfuð Jesú og hann sagði að hefði smurt líkama sinn til greftrunar (Mark. 14:3), samtal Jesú við Nikodemus sem kom til hans um nótt og þeir eiga mikið trúnaðarsamtal.  Við það tækifæri segir Jesús þau orð sem oft eru kölluð litla Biblían (Jóh. 3:16),og enn gæti ég nefnt samtal Jesú við unga ríka manninn sem ekki var tilbúinn til að gefa allar eigur sínar og svo margar margar aðrar. Dæmi um sálgæslusamtöl Jesú við samferðafólk sitt eru mýmörg og ráðlegg ég ykkur að lesa guðspjöllin til að sjá Jesú í nýju ljósi, sjá Jesú sem snilling í sálgæslu.

Sálgæsla kirkjunnar

Sálgæslustarf kirkjunnar er jafngamalt henni sjálfri.  Allt frá því að kirkjan varð til hinn fyrsta hvítasunndag og heilagur andi kom yfir postula Krists hefur það  fylgt kristnum lærisveinum að ala önn fyrir hvert öðru og sýna kærleika og umhyggju.  Skriftir urðu mjög snemma stór hluti af starfi presta kaþólsku kirkjunnar og er svo enn þann dag í dag.  Marteinn Lúter sem uppi var á 16. öld og vildi endurbætur innan kirkjunnar benti á það að skriftir kirkjunnar væru á villigötum.  Var það aðallega svokölluð aflátssala sem hann hafði andúð á.  Fólst hún í því að fólk gat keypt sér aflátsbréf í stað þess að vinna yfirbótavinnu fyrir þær syndir sem fólk játaði í skriftastólnum.  Þó Lúter væri á móti aflátssölu og uppreisn hans gegn kaþólsku kirkjunni endaði með því að stofnuð var ný kirkjudeild, var Lúter ekki í eðli sínu á móti skriftum og því voru þær aldrei aflagðar í hinni lútersku kirkju, sem íslenska Þjóðkirkjan tilheyrir.  Skriftirnar þróuðust hins vegar í þá sálgæslu sem við þekkjum í kirkjunni okkar í dag.  Meginatriði sálgæslunnar er ekki að játa syndir sínar, heldur að opna sig tilfinningalega frammi fyrir þjóni kirkjunnar og fá þannig sátt í líf sitt og fyrirgefningu ef viðkomandi finnst þörf vera á því.

Lykilorð sálgæslunnar er lífsreynsla.

Í öllum sálgæslusamtölum er lífsreynslan í brennidepli.  Öll lífsreynsla er mikilvæg hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð.  Allt sem við höfum upplifað hefur áhrif á okkur sem einstaklinga.  Allt sem við höfum sagt eða hefur verið sagt við okkur hefur haft mótandi áhrif á okkur.  Þess vegna eru orð þjóðskáldsins Einars Benediktssonar svo óendanlega mikilvæg: „Aðgát skál höfð í nærveru sálar“. 

Áherslan er ekki á þessum orðum í þeim tilgangi að við eigum að segja sem minnst og tala sem minnst um tilfinningar okkar.  Það var ekki áhersla Einars Benediktssonar, heldur að allt sem við höfum heyrt og séð mótar okkur. Allt sem hefur sært okkur eða glatt á lífsleiðinni, hefur gert okkur að þeirri tilfinningaveru sem við erum í dag.

Þegar við veltum fyrir okkur snertingu við sálgæslu hljótum við að líta til fyrirmyndarinnar, Jesú sjálfs. Jesús gekk um og gerði gott. Hann snerti þau sem hann læknaði, rétti þeim hönd sína, gerði meira að segja leðju úr munnvatni sínu og smurði á augu hins blinda sbr. guðspjall dagsins í dag. Í öllu hans atferli var ást og umhyggja og fullkomin virðing fyrir þeim sem hann gerði gott.

Þau sem sinna sálgæslu hafa þá lífssýn að öll erum við Guðs börn sem Guði þykir jafnvænt um hvort sem við erum ung eða gömul, menntuð eða ómenntuð, karlar eða konur.  Þau orð sem höfð eru að leiðarljósi eru orð Jesú úr Matteusarguðspjalli:  “Allt sem þið gjörðuð einum minna minnstu bræðra og systra það hafið þið gert mér.”(Matt. 25:40) Þessi orð hafði Móðir Theresa að leiðarljósi þegar hún gekk um götur Kalkútta og stéttleysingjarnir lágu þar hjálparvana í göturæsinu af því að því trú landa þeirra leit svo á að þau væru að taka út refsingu fyrir afbrot í fyrra lífi. Móðir Theresa sá hins vegar ásjónu Jesú Krists í andliti hvers og eins þeirra og hlúði að þeim með þá trú í hjarta að öll væru þau Guðs börn.

Þessi hugsun og þessi trú er kjarni sálgæslu kirkjunnar.