Andans fögru dyr

Andans fögru dyr

Ljósið lýsir einnig yfir bárur, brim og voðasker, atvik og atburði, sem við hörmum, jafnvel sem við vildum helst gleyma, en komumst ekki undan.

Þú, ljós sem ávallt lýsa vildir mér, þú logar enn, í gegnum bárur, brim og voðasker. Nú birtir senn. Og ég finn aftur andans fögru dyr og engla þá, sem barn ég þekkti fyrr.

Fjallar aðventan um þetta? Að finna aftur ljósið sem alltaf vildi lýsa mér og reyndist best, hvort sem var í blíðu eða stríðu? Birtir þá senn og opnast aftur andans fögru dyr? Og englar koma, sem ég þekki frá bernsku minni?

Það er einhver andans máttur sem umvefur aðventuna og ljómar af skínandi ljósi. Þegar börnin tendruðu hér ljósið á spádómskertinu, þá fóru þau með orð Jesú, þar sem hann líkir sjálfum sér við ljós: “Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins”.

Eru ljósin okkar á aðventu endurskin af þessari birtu? Eins og aðventuför í leit að ljósi lífsins? Að finna aftur andans fögru dyr og engla þá, sem barn ég þekkti fyrr?

Samkvæmt dagatalinu og hefðinni, þá er opinbert tilefni aðventunnar að undirbúa jól sem fagna fæðingu frelsarans, Jesú Krists. Enginn siður með hátíð rís hærra í íslenskri menningu. Hér áður fyrr, þá hélt fólk sig almennt við að miða undirbúninginn við aðventuna, en í seinni tíð er allt komið á fullt skrið um miðjan nóvember, ef marka má auglýsingar og dagskrá í fjölmiðlum. En hvað sem allri ytri umgjörð líður, þá er í okkar aðvetnuför fólgin einlæg þrá að finna andans fögru dyr og engla þá, sem barn ég þekkti fyrr. Og ljósið skiptir öllu máli í þeirri leit og för.

Fyrstu setningarnar í Biblíunni fjalla um ljósið. Þar segir:

“Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var auð og tóm . Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: “Verði ljós”. Og það varð ljós. Guð sá að ljósið var gott og Guð greindi ljósið frá myrkrinu”.

Samkvæmt Biblíunni var ljósið hið fyrsta sem Guð skapaði yfir jörðina. Og Guð sá að ljósið var gott.

Nú er þetta engin náttúruvísindaleg útskýring á því hvernig sköpun himins og jarðar varð til, ekki heldur framsetning sem stendur gegn þróunarkenningum. Þetta er lofgjörð, þakkargjörð til höfundar lífsins, skapara himins og jarðar. Sá hinn sami og veldur aðventu og jólum, og þjóðin heiðrar, þakkar og lofar, ekki með náttúruvísindalegum útskýringum, heldur með því að tendra ljós til að rækta ást, fegurð og frið.

Og við getum ekki hugsað okkur aðventu og jól án ljóssins. Ekki einvörðungu vegna hins náttúrulega myrkurs sem stystu dagar ársins vitna um, heldur vegna þess að frá ljósinu streymir eitthvað innilega gott sem okkur þykir vænt um. Hvað gæti það verið?

Jóhannes, guðspjallamaður, sagði um tilefni jólanna í guðspjalli sínu:

“Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.....Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans”.

Hér er fæðingu Jesús Krists í Betlehem líkt við komu hins sanna ljóss í heiminn. En fólkið hans hafnaði honum og er þar vísað til þeirra sem dæmdu hann til að deyja á krossi á Golgata. En öllum sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans.

Er það þetta sem við leitum að og þráum með ljósinu í undirbúningi jóla á aðventu, að verða Guðs börn og trúa á nafn hans, að finna aftur andans fögru dyr og engla þá, sem barn ég þekkti fyrr?

Það er einmitt það sem við leggjum okkur fram um að rækta á aðventunni, ást og von, fegurð og frið. Þetta sem trúin tjáir svo innilega og við þekkjum í fari Jesú Krists, orði hans og verkum. Að við verðum þá hvert öðru eins og englar sem flytja fallegan boðskap. Yfirskriftin á aðventu gæti því verið að verða Guðs börn og trúa á nafn hans.

Við opnum þá andans fögru dyr með því að elska og gefa, rækta gamla og góða siði sem eru okkur kærir, minnumst atvika og atburða frá bernskujólum sem minna á andans fögru dyr og nærveru engla og yfir allt lýsir fagurt ljós.

Minningar vitna líka um trega og söknuð. Nákomnir ástvinir sem horfnir eru, en höfðu svo fastan sess í hátíðarhaldinu. Þar lýsir ljós, blessar og þakkar. Ljósið lýsir einnig yfir bárur, brim og voðasker, atvik og atburði sem við hörmum, jafnvel sem við vildum helst gleyma, en komumst ekki undan. Þá reynir á bænina traustu og góðu: “Guð gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli”.

Það er einmitt inntak aðventunnar að gera upp, undirbúa, iðrast, fyrirgefa, sættast. Um það vitnar hinn fjölublái litur tímans. Ljósið á aðventunni getur orðið svo skært að undan því verður ekki komist, þó einhver feginn vildi. Krafan um eilíf þægindi og fullkomnun er svo ágeng nú til dags, að afneitun og flótti undan staðreyndum reynist oft nærtækt úrræði. En dugar skammt, því veruleikinn breytist ekki við það, heldur að horfast í augu við sjálfan sig og samferðafólk í raun og sannleika af sanngirni og leyfa ljósinu að græða og tendra von.

Á aðventu reynir oft meira á samskiptin í fjölskyldunni en í annan tíma. Það á að gera svo mikið sem felur í sér að hafa tíma til að undirbúa fagnaðarríka hátíð saman og þá þarf í mörg horn að líta. Er fjölskyldan í stakk búin til að gera það? Þannig getur reynt á þrekið í undirbúningi jóla og oft gengur nærri fjárhagslegu þoli.

Þó neyslukapphlaupið boði og ekki síst á aðventu, að alla hamingju megi kaupa með peningum, þá er það nú ekki svo. Það opinberar einmitt reynsla minninganna af aðventu og jólum um andans fögru dyr og engla, þá sem barn ég þekkti fyrr. Allt það verður aldrei metið til fjár, ekki fremur en heilagt ljós sem þráir að lýsa og logar enn.

Það er heilög vonin að verða Guðs börn, trúa á nafn hans og ganga inn með englum um andans fögru dyr. Amen