"Augað þitt heilaga þekkir og sér"

"Augað þitt heilaga þekkir og sér"

Oft er gagnrýnt og sett út á gerðir og athafnir samferðafólks. Skiptir það máli hvernig gagnrýni er sett fram? Að hún sé sett fram í kærleika, með virðingu eða sett fram í formi fordóma svo dæmi séu nefnd?

Biðjum saman í Jesú nafni:

“Þú hefur játast mér eins og ég er, augað þitt heilaga þekkir og sér hjarta mitt, vafið í villu og tál, vilja minn blindan og flekkaða sál.

Samt viltu eiga mig, allsvana barn, eigrandi skugga um vegalaust hjarn, sekt minni gleyma, þótt særði ég þig, sýkna og lækna og umskapa mig.” Amen.

Þetta eru bænarorð dr.Sigurbjarnar Einarssonar, biskups en á Skálholtshátíð þessa helgi er meðal annars ráðstefna í aldarminningu þessa ræðussnillings og áhrifavaldar í íslenskri kristni.

Dr. Sigurbjörn kunni meðal annars, þá list að tala í meitluðum og mögnuðum orðum til samtíðar sinnar þannig að hlustað var með athygli og eftirtekt hvort sem fólk aðhylltist kristna trú eða ekki.

__________________________

Oft er gagnrýnt og sett út á gerðir og athafnir samferðafólks.

Skiptir það máli hvernig gagnrýni er sett fram?

Að hún sé sett fram í kærleika, með virðingu eða sett fram í formi fordóma svo dæmi séu nefnd?

Í daglega lífinu er stöðugt verið að fella dóma hvort sem er til dæmis: í íþróttum, samtölum, samskiptum eða í fjölmiðlum.

Hér fyrir neðan Digraneskirkju er í þessum töluðu orðum verið eða fella dóma í knattspyrnuleikjum Símamótsins, sem er knattspyrnumót fyrir 5,6 og 7 flokk kvenna og hefur farið fram hér í Kópavogi síðustu daga.

Yfir fimmtán hundruð taka þátt í mótinu og mun fleiri fylgjast með leikjum þess.

Þúsundir landsmanna hafa svo farið og eða tekið þátt í ýmsum íþróttamótum sumarsins og dómar hafa verið uppkveðnir.

Dómar samtímans þykja réttlátir eða ranglátir. ___________________________

Svo eru það fordómarnir.

Orðið “fordómar” er samkvæmt orðanna hljóðan það að dæma aðra fyrirfram.

Með þeim er alhæft um hegðun fólks eða hugarfar og oftast á neikvæðan hátt.

Fordómarnir geta heldur betur tekið á sig margvíslegar myndir til dæmis; til þjóðernislegra minnihlutahópa og ákveðinna starfsstétta.

Á heimsíðu Rauða kross Íslands er meðal annars sagt að allir menn hvar sem þeir búa séu með fordóma, mikla eða litla en afleiðingar fordóma séu ekki alltaf eins.

Fordómar, sem birtast í dagalegu lífi sýna fjandsemi við ókunnuga og mismunun í verki eða viðmóti.

_______________________

Í einu blaðanna í gær voru eftirfarandi orð rituð í tónlistardómi:

“Þegar ég setti plötuna á fóninn, hugsaði ég með mér að enn eitt stórslysið í íslenskri tónlistarsögu fengist nú í plötubúðum landsins.

Í þetta skipti kom mannlegt eðli mitt í ljós og hafði ég rangt fyrir mér, eins og svo oft áður.

Segja má að ég hafi orðið hreint út sagt gáttaður þegar ýtt var á “play” og fyrsta lagði á plötunni, tók að hljóma.

Lagið hafði ég heyrt áður spilað og var ég þess fullviss þá, að hér væri um erlendan söngvara og lagahöfund að ræða.

Fordómar og fáfræði mín gangvart íslenskri tónlist komu heldur betur í ljós í þetta skipti.”

__________________________ Og í öðrum fjölmiðli er svo nýlega rangt greint frá dómsniðurstöðu.

Hvers vegna er rangt greint frá?

Er um að ræða mannleg mistök eða er sagt frá með vilja, af því að það þjónar einhverjum tilgangi?

Er algengt að lesa eða heyra viðurkenningu á fordómum hjá þeim, sem starfa í fjölmiðlum?

Ráða markaðsöfl, fordómar, einelti, kunningsskapur eða vilji til áhrifa á almenningsálit stundum för í þessu lífi?

Eða ræður Jesús Kristur og gildin sem hann lagði áherslu á? _________________________

Farísearnir og fræðimennirnir reyndu að leiða Jesú Krist í gildru í guðspjalli dagsins.

Reyndu að klekkja á honum, koma honum í vandræði, vegna þess að hann kenndi og sagði hluti sem þeim voru ekki að skapi.

Svör hans hittu þá í hjartastað, þeir sáu sína eigin synd og gengu burt.

Hvenær lítur maður í eigin barm?

Bendir maður öðrum frekar á að horfa í eigin barm og eða stundar sjálfsupphafningu og sjálfsmiðlægni?

__________________

Lýsing Jóhannesar á samskiptum Jesú og fræðimannanna og farsíseanna er mögnuð.

Það var efalaust spenna og taugatitringur,.

Jesús skrifaði í sandinn og þeir biðu þess að hann felldi dóm sinn.

Gætu þeir núna neglt hann?

Spurningar dundu á honum og svo þögn, algjör þögn þegar steinarnir duttu úr höndum þeirra og einn af öðrum hurfu þeir á braut.

Orð Jesú hittu þá í hjartastað, þeir sáu sína eigin synd.

“Því hefur þú, maður sem dæmir, enga afsökun hver sem þú ert “ segir í pistil dagsins.

Að grýta steinum var ævaforn leið samfélags til að hegna eða hefna sín á þeim, sem gerst höfðu brotleg að dómi fólks.

Að grýta var ein leið dauðarefsingar og samkvæmt lögmálinu ætti að grýta fólk til bana fyrir ýmsa glæpi, einkum þá, sem snéru að kyngerðisbrotum og ýmissi vanhelgun og uppreisn.

_____________________

Þegar komið var með konuna, sem staðin hafði verið að því að brjóta gegn lögmálinu til Jesú þá ætluðu þeir að leiða Jesú Krist í gildru.

Rómverjarnir sem réðu voru búnir að afnema dauðarefsingar þannig að ef Jesú hefði sagt fræðimönnunum og faríseunum að grýta konuna hefði hann sett sig í andstöðu við Rómverjana.

Hefði hann hins vegar sagt berum orðum að hinir sjálfskipuðu dómarar konunnar ættu að láta hana lausa hefði hann sett sig í andstöðu við lögmál Móse.

Hvort tveggja hefði gert hann að sakamanni, annars vegar í augum Rómverja og hins vegar í augum Gyðinga.

Viska Jesú í þessum aðstæðum er borin uppi af réttlæti hans og kærleika.

Honum er síður en svo sama um velferð konunnar.

Guð er Guð lífins og hins nýja upphafs og engum er heimilt að dæma aðra manneskju til dauða.

Dauðarefsinguna afnam Jesús í eitt skipti fyrir öll með dauða sínum á krossi.

Jesú segir konunni að fara, gefur henni tækifæri að byrja að nýju og syndga ekki framar.

_____________________

Hvernig dæmum við hvort annað?

Eftir orðum og athöfnum?

Hinu ytra eða eftir því sem innra býr?

Hvernig eigum við að dæma hvort annað?

Eigum við að gæta hvers annars og ef svarið er já, hvernig eigum við að framkvæma það?

Í lexíu dagsins um Kain og Abel er svarið já, við eigum að gæta hvors annars.

Gerum við það með fordómum, einelti, reiði, hefnd eða miskunnarleysi?

Nei, við gerum það með trú, von og kærleika.

Gæska Guðs vill leiða okkur til afturhvarfs segir í öðrum kafla Rómverjabréfsins.

Lítum í eigin barm og leyfum Guði að starfa í okkur og vera með okkur yfir og allt um kring allar stundir.

Hans ríki er ekki af þessum heimi og hann mun vel fyrir sjá.

Trúir þú því?

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postulegri blessun:

“Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.

Amen.”

Guðspjall: Jóh 8.2-11 "Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“ Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga