Koma einelti og mansal jólunum við?

Koma einelti og mansal jólunum við?

Jólin merkja: Guð er með okkur. Guð kom til okkar í litlu barni til að vera með okkur. Guð kom til okkar í Jesú til að gefa okkur kraft og styrk og til að sýna okkur kærleika.

Það er gott að koma í Miðfjörðinn á aðventu og það er gott að koma hingað á Hvammstanga. Hingað hef ég allt of sjaldan komið þó ekki hafi ég tölu á þeim ferðum sem ég hef ekið um Miðfjörðinn. Meðan tengdafaðir minn Jón Helgason frá Hnausakoti var á lífi hringdum við alltaf í hann þegar við ókum um Miðfjörðinn. Honum fannst gott að finna fyrir okkur á sínum æskuslóðum.

Reyndar eigum við hjónin bæði ættir okkar að rekja í Miðfjörðinn því langafi minn Jón Þórarinsson, síðar fræðslumálastjóri í Reykjavík var fæddur á Melstað. Hann var sonur sr. Þórarins Böðvarssonar prests á Melstað sem síðar varð prófastur á Görðum á Álftanesi. Í barnæsku minni var gjarnan farið með vísu þegar farið var framhjá Melstað sem mig minnir að sé eftir Jakob Hafstein frænda minn. Hún er svona:

Heim að Melstað mænir sjón magnast hugarljóri. Þarna fæddist fyrrum Jón fræðslumálastjóri.

Enn á ný erum við komin hingað og nú á aðventu. Stef aðventunnar er: Sjá, konungur þinn kemur til þín. Við fáum að heyra guðspjallið um innreið Jesú inn í Jerúsalem, guðspjall sem okkur finnst tilheyra pálmasunnudegi og páskum frekar en jólum og aðventu. En í upphafi aðventu skreytum við hús okkar með grænum greinum. Við klippum niður greinar eins og fólkið í Jerúsamlem þegar það fagnaði komu Jesú inn í borgina. Og það var einstök upplifun að koma hér inn í bæinn í kvöld og sjá hvað bærinn er fallega skreyttur með jólaljósum á hverju heimili. En nú þegar jólaundirbúningurinn hefst þurfum við að íhuga til hvers við erum að undirbúa þetta allt saman. Hver er tilgangur jólanna í okkar lífi?

Ég hef núna undanfarnar vikur verið að fóta mig á nýjum stað og í nýju starfi. Það var einstaklega ánægjulegt að fyrsti hópurinn sem ég tók á móti heima á Hólum var hópur aldraðra héðan frá Hvammstanga og úr Miðfirði. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka ykkur fyrir síðast. Það var ánægjulegt á fá ykkur í heimsókn. Síðan þá hef ég verið að heimsækja söfnuði og er það mikil gæfa að fá að fylgjast með öllu því góða starfi sem er veriða að vinna í kirkjum landsins.

Það eru nefnilega margir sem velta því fyrir sér hvað vígslubiskupar geri eiginlega. Hlutverk mitt er að vera í góðu sambandi við presta, sóknarnefndir og starfsfólk kirkjunnar í stiftinu sem nær allt frá Hrútafirði til Djúpvogs, koma í heimsóknir og leysa úr vanda ef einhver er.

Eitt af því eftirminnilegast sem ég hef tekið þátt í var Landsmót æskulýðsfélaganna, sem haldið var á Egilsstöðum síðustu helgina í október. Þetta er einn stærsti kirkjulegi viðburður ársins. Þar voru saman komnir 600 unglingar alls staðar að af landinu. Einstaklega gott og vel skipulagt mót. Þangað komu 25 unglingar héðan með sr. Magnúsi og vil ég þakka ykkur krakkar sem voruð á landsmótinu líka kærlega fyrir síðast. Það er stórkostlegt að finna hvað hér er vel haldið utan um barna- og unglingastarf. Barna- og unglingastarf er lang mikilvægasta starfið sem unnið er í kirkjunni. Og ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri til að hrósa ykkur hér á Hvammstanga hvað þið hafið haldið vel á lofti merkjum barna- og æskulýðsstarfs þrátt fyrir sílækkandi sóknargjöld.

Önnur eftirminnileg stund sem ég hef upplifað undanfarnar vikur var þegar kirkjuklukkunum var hringt á degi gegn einelti. Þá komu börnin úr Grunnskólanum á Hólum að kirkjunni og við hringdum kirkjuklukkunum í sjö mínútur, eina mínútu fyrir hvern dag vikunnar. Því þið munið, krakkar, einelti á ekki að viðgangast nokkurn dag vikunnar, ekki frekar á laugardegi frekar en miðvikudegi. Hér þurfum við öll að leggjast á eitt, bæði börn og fullorðnir að útrýma þessum vágesti sem einelti er. Að hringja kirkjuklukkum þennan dag er líka mikilvægt samstarfsverkefni kirkju og skóla.

Annað sem einkennir aðventuna er 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Við höfum fyrir nokkrum árum lyft hulunni af heimilisofbeldi. Við erum farin að ræða kynferðislega misnotkun og nú þurfum við að fara að ræða um mansal í alvöru því það er ekki bara eitthvað sem gerist úti í hinum stóra heimi heldur líka hérna hjá okkur. Okkar er að uppræta það. Því ef við gerum það ekki, þá gerir enginn það.

Annað sem tengist aðventu er söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar. Jólasöfnunin er hafin og við sem höfum eitthvað á milli handanna ættum að láta eitthvað af hendi rakna til þeirra sem eru þurfandi.

En þá kem ég aftur að fyrr spurningu minni: Hvaða merkingu hafa jólin fyrir okkur og hvaða merkingu hafa jólin fyrir þau málefni sem ég hef hér bryddað uppá?

Jólin merkja: Guð er með okkur. Guð kom til okkar í litlu barni til að vera með okkur. Guð kom til okkar í Jesú til að gefa okkur kraft og styrk og til að sýna okkur kærleika.

Það verður gott að aka um Miðfjörðinn í framtíðinni og eiga í huganum minninguna um þessa hátíðlegu stund hér í kvöld. Guð gefi ykkur innihaldsríka aðventu og gleðiríka jólahátíð.