Hversvegna aðfangadagskvöld?

Hversvegna aðfangadagskvöld?

Af hverju byrja jólin kl. 18 þann 24. desember þegar fæðingardagur Jesú frá Nasaret er 25. desember? Og hvenær hefst aðventan og helgidagarnir yfirleitt? Kristnin hefur að dæmi Gyðinga talið nýjan dag byrja við sólsetur þess sem á undan fór.

Af hverju byrja jólin kl. 18 þann 24. desember þegar fæðingardagur Jesú frá Nasaret er 25. desember? Og hvenær hefst aðventan og helgidagarnir yfirleitt?Kristnin hefur að dæmi Gyðinga talið nýjan dag byrja við sólsetur þess sem á undan fór. Það kemur fram í orðalagi Sköpunarsögunnar í I. Mós. 1: Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur. Það merkir að með kvöldinu og morgninum sem hlutum fyrir heild, í réttri röð talið, gerðist hinn fyrsti dagur.

Nú hafa menn ekki haft úr til að mæla tímann nema skamma stund mannkynssögunnar og urðu því að reiða sig á gang sólarinnar til að mæla tíma dags. Þeir létu sér duga að miða gang daganna við það sem seinna var kallað eyktir dags, þ.e. þrjár klukkustundir eða svo.

Þær eyktir höfum við á Íslandi að fyrirmynd annarra þjóða lengst af talið vera: (mið)aftan kl. 18; náttmál kl. 21; miðnætti kl. 24; ótta kl. 3; rismál kl. 6; dagmál kl. 9; hádegi kl 12; nón kl. 15.

Aftan var fyrsti hluti nætur og byrjaði með sólsetrinu og því varð til orðið aftansöngur um það helgihald sem miðaðist við þann tíma. Náttsöngur var kl. 21. Þessi orð þekkjum við sem og miðnæturmessu í sambandi við jólahald.

Jólin byrja af þessum ástæðum kl. 18 þann 24. desember. Við köllum reyndar aðfangadagskvöld eftir þeim degi og er jóladagskvöldið ekki kvöldið á undan honum eins og við gætum glapist á að álykta út frá framansögðu, heldur að jóladeginum liðnum.

Aðfangadagur er skemmtilegt orð og merkir þann dag sem við drögum að þau föng sem við höfum enn ekki útvegað en þurfum til jólahaldsins. Helgi hans kemur af kvöldinu og hefst ekki fyrr en dagurinn er í raun liðinn. Aftansöngurinn sem er þá honum tilheyrandi í þessum skilningi er þá í raun forleikur jólanna svo sem til undirbúnings þeirra, enda má sjá hjá flestum þjóðum að hann er minniháttar í helgi jólanna ólíkt sem er hjá okkur.

Flestir kristnir menn halda jólin um miðnætti með hátíðlegri messu sem þeir jafnvel vaka eftir eða vakna til. Að morgni hefjast svo veisluhöld á heimilum kristinna svo sem amerískar bíómyndir hafa fært okkur heim sanninn um. Í Svíþjóð er julottan til merkis um að sumstaðar hafa menn fyrst haldið jólaguðsþjónustuna kl. 3. Sennilega eru mannlegar forsendur tilefni breytileikans eins og til dæmis færri prestar en kirkjur eins og hér hefur verið lengst af. Löngum hafa því prestarnir verið á kreiki frá kvöldi til morguns á jólunum og lengur, og jólamessur verið á mismunandi tímum í hverri sókn.

Allar stórhátíðir höfðu aðfangadaga og var talað um aðfangadaga páska og hvítasunnu.

En jólin byrja klukkan 18 þann 24. desember þetta árið sem ávallt og því óhætt að kveikja á aðventukertinu á sama tíma fyrir hvern sunnudag aðventunnar. Það eru svo fáir á ferli á miðnætti og engin ástæða til að verða of seinn með að fagna aðventusunnudögunum.

Það er umhugsunarvert að þegar við reiknum tímann þá notum við fremur raðtölur heldur en frumtölur. Það má best sjá af nöfnum vikudaganna s.s. þriðjudagur og fimmtudagur. Þetta kemur líka fram í öðru nafni nýársdags, áttidagur og þrettándanum. Þess vegna voru ekki aldamót fyrr en við lok ársins 2000 því það var tvöþúsundasta árið frá burði Krists og því aldrei árið núll. Litli stúfur verður heldur ekki búinn að lifa fyrsta ár sitt fyrr en hann verður árs gamall og þá hefst annað ár aldurs hans.

Nánar

Almanak Háskóla Íslands