Ljós Krists skín á alla

Ljós Krists skín á alla

Það er stórkostlegt að vera hluti af sköpun Drottins og fá að upplifa að náð hans er ný á hverjum degi. Ef við tökum Orð Guðs, Biblíuna í hönd og gefum okkur tíma til lestrar þá gefst okkur tækifæri til að sjá daglegt líf okkar í ljósi Biblíunnar og kraftaverkin fá sterkari trúarlega skírskotun.

Það er stórkostlegt að vera hluti af sköpun Drottins og fá að upplifa að náð hans er ný á hverjum degi. Ef við tökum Orð Guðs, Biblíuna í hönd og gefum okkur tíma til lestrar þá gefst okkur tækifæri til að sjá daglegt líf okkar í ljósi Biblíunnar og kraftaverkin fá sterkari trúarlega skírskotun. Og við lesum um að ljós Krists skín á alla! Eða getur verið að við viljum hlaupa yfir þann hluta?

Bogi Pétursson, betur þekktur sem Bogi á Ástjörn, tók hverjum þeim sem vildi hjálpa til á Ástjörn opnum örmum. Af almennum áhuga og gleði yfir því að kynnast öðru fólki ræddi hann gjarnan við einstaklingana um þá lifandi trú sem hinir kristnu einstaklingar sameinuðust um og spurðist fyrir um hvar viðkomandi ætti sitt andlega samfélag. Öðru hvoru fékk hann þá spurningu hvernig honum þætti samstarfið ganga meðal starfsfólksins þar sem að það kæmi frá mörgum kristnum söfnuðum. Hér svaraði Bogi því gjarnan til að þegar á endastöðina kæmi væri ekki spurt hvar menn hefðu tekið ökuprófið heldur aðeins hvort þeir hefðu ökuskírteini. Með því undirstrikaði hann mikilvægi þess að einstaklingurinn ætti sína lifandi trú á hinn upprisna Jesú Krist. Um leið dró hann úr þeim mun sem mörgum þykir vera á milli trúfélaga án þess þó að hann gerði lítið úr einu einasta trúfélagi.

Fyrir réttu ári síðan var haldin ráðstefna í Sibiu í Rúmeníu. Yfirskrift ráðstefnunnar var Ljós Krists skín á alla. Þar voru samankomnir fulltrúar stóru kirkjudeildanna í Evrópu auk fulltrúa frá fjölda minni kristinna kirkna og trúfélaga. Þar höfðum við sem tókum þátt í þeirri ráðstefnu tök á því að spyrja okkur þessarar spurningar hvort að ljós Jesú Krists skini aðeins á fáa útvalda eða alla. Meðal þeirra Biblíutexta sem við skoðuðum í því samhengi voru orð Páls postula þar sem hann segir:

Lögmálið leiddi mig til dauða svo að nú er ég ekki lengur undir valdi þess heldur lifi Guði. Ég er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig. Ég ónýti ekki náð Guðs. (Gal. 2. 19-21a)

Það var fróðlegt og á stundum áskorun að ræða slíkar vangaveltur við einstaklinga með mismunandi trúarlegan og menningarlegan bakgrunn. Oft sýndist sitt hverjum en ekki einu sinni upplifði ég það viðhorf frá þeim viðmælendum sem ég hafði tök á að ræða við að þeim þætti mín trú skör lægri en þeirra trú, mín kirkja minna virði en þeirra kirkja. Það var dýrmæt upplifun.

Í Glerárkirkju höfum við ákveðið að stíga frekara skref í þessum anda og leggja okkar lóð á vogarskálarnar þannig að samtal og samstaða meðal kristinna hópa á Akureyri megi eflast, Drottni til dýrðar. Því boðum við í samstarfi við Eyjafjarðarprófastsdæmi til fullorðinsfræðslukvölda um samkirkjumál í október og nóvember undir yfirskriftinni Trú, kristni, kirkja. Námskeiðin eru á miðvikudagskvöldum kl. 20:00. Sjá nánar á: http://www.kirkjan.is/eyjafjardarprofastsdaemi/?fraedsla/samkirkja2008