Áhrif jólanna

Áhrif jólanna

Jólaboðskapurinn er ekki froða, hann er ekki bara eins og englahár á jólatré eða silkimjúkur jólasöngur, jólaboðskapurinn er og á líka að vera krefjandi.

Guð gefi ykkur öllum friðsama og gleðilega jólahátíð!

Á þessu ári hafa margar greinarnar birst í blöðum og tímaritum um þjóðfélagsmál. Hver penninn á fætur öðrum hefur stigið fram á ritvöllinn og látið skoðanir sínar í ljós. Sú staðreynd er hluti af þeim viðbrögðum, sem þjóð í áfalli sýnir. Það virðist líka vera sem flestar greinarnar fæðist á suðvesturhorni landsins, væntanlega bæði vegna þess að þar er stærsta hlutfall íbúa landsins og síðan var mesti þungi fjármálahrunsins óneitanlega á því svæði.

Mikil spenna hefur einkennt umræðuna og hvort sem það hafa verið greinar eða ræður, þá hefur því miður vantað þar oft og tíðum yfirvegun og skynsemi. Hins vegar glittir, sem betur fer, öðru hvoru í yfirveguð greinarskrif og talað mál, en þó það sjaldan að það verður nánast áberandi. Ég er ekki að segja að ég sé sérfræðingur í að koma auga á yfirvegaða umræðu, en ég verð samt sem áður að halda því fram að það færist yfir mig óvenjuleg ró og visst þakklæti, góð tilfinning, þegar mér finnst ég skynja umræðuna þannig.

Það verður svona eins og þegar mikið hefur verið um að vera á aðventunni, jólaundirbúningur er síðan að baki, jólin ganga í garð og yfir sálartetrið færist friður, allt að því himneskur. Má vera að hann sé í ætt við þann, sem einkennir helgimyndina í Betlehem, þrátt fyrir að vitað sé að á bak við þá mynd hafi ríkt óróleiki og áhyggjur, en ómengaður friður fylgdi jólabarninu og fæðingarsaga hinnar fyrstu jólanætur birtir því eitthvað undursamlegt, vissa kyrrð og helgi.

Í hópi ófárra penna í íslenskum blaðaheimi er einn, sem venjulegast vekur jákvæða athygli og virðist skrifa af yfirvegun. Guðmundur Andri Thorsson er vel upplýstur greinahöfundur, sem nær á einhvern sérstæðan hátt að vera beittur án þess að gleyma alveg mýktinni, hann nýtir sér jafnframt í skrifum sínum kímnigáfu, sem missir sjaldnast marks í of mikilli kaldhæðni.

Ég er ekki að segja að Guðmundur sé frelsarinn í íslenskum blaðaskrifum, en hann er einkar laginn við að greina hismið frá kjarnanum. Það tekst honum t.a.m. í nýlegri grein, sem ber yfirskriftina “Okkar skömm.” Í þessari ágætu grein segir Guðmundur m.a. “Eitt er það sem íslenskt samfélag ætti að skammast sín fyrir……..Ekki klerkar sem klípa, ekki barnadrykkjan í miðbænum um helgar, ekki fasteignabólan, ekki einu sinni fótboltalandsslið karla: allt eru þetta vandræðaleg einkenni á íslensku samfélagi sem má bera kinnroða fyrir – en það sem við megum hins vegar skammast okkar fyrir – innilega – og við þurfum að hugleiða af alvöru hvernig við eigum að útrýma – eru opinberar biðraðir fátæklinga eftir mat.”

Í greininni bendir höfundur á það að það sé verið að einkavæða eymdina, það þyki allt að því ásættanlegur lífsstíll að standa í röð og fá útdeilt mat, það sé hins vegar hlutverk félagslega kerfisins að koma nauðstöddum til hjálpar. Og hann bendir réttilega á það að hvað sem líður hruni þá sé íslenskt samfélag eitt hið ríkasta í heimi, hér vantar ekki auðlindirnar, og því algjört lágmarksskilyrði að þjóðfélagið geti séð til þess að fjölskyldur hér á Fróni geti brauðfætt sig og sína, ef það getur það ekki telst það tæpast til siðaðra samfélaga.

Og svo er jafnframt verið að kaupa og selja eymdina og fólk hneykslast þegar öryrki kemur fram, segir sögu sína og opinberar nokkuð háar bótafjárhæðir, sem hann hefur til umráða í mánuði hverjum, en getur þó ekki lifað á þeim. Þá dæma margir í reiði sinni og allir öryrkjar eru allt í einu orðnir svindlarar og siðleysingjar. Það er t.d. mjög óyfirveguð umræða, sem grefur ennfrekar undan trausti og heiðarleika í samfélaginu og sáir meiri ótta, sem íslenskt samfélag þarf einmitt alls ekki á að halda þessa dagana.

Þessi grein og sá sannleikur, sem hún felur í sér, vakti mig til umhugsunar um það hvað breyttar aðstæður í þjóðfélaginu hafa litlu skilað í breyttum viðhorfum. Eiginhagsmunasjónarmið, pólitískar refskákir, takmörkuð samkennd og fleira það sem ríkti um of í þeirri góðæristíð, sem reyndist blekking ein, er því miður enn við lýði. Það er líka staðreynd að fjarlægð hefur aukist á milli fólks, hvort sem það er góðæristíma eða öðrum tíma að kenna, en sú fjarlægð kemur hvað best í ljós í stórum þéttbýliskjörnum, eins undarlega og það nú hljómar. Mjög margir vita lítið sem ekkert um nágranna sína þó þeir búi við hliðina í sama stigagangi, það hefur dregið verulega úr þeirri góðu stemmningu þegar fólk kom við fyrirvaralaust, fékk sér kaffi og flutti fréttir við eldhúsborðið, þetta hefur sömuleiðis breyst með breyttri þjóðfélagsgerð.

Matarboð eru skipulögð með löngum fyrirvara, samskipti fara að stórum hluta fram í tölvum. Hún er varasöm þessi fjarlægð, sem hefur skapast á milli fólks. Það er t.d. talað um að einmanaleikinn sé heldur meiri í stórborgum en í dreifbýli. Það er á sama hátt svo dýrmætt og gefandi að verða vitni að þeirri persónulegu nálgun, sem viðgengst í talsvert meiri mæli í minni samfélögum, að ekki sé talað um sveitasamfélagið. Það finn ég að er enn til staðar eftir að hafa fært mig um set úr höfuðborginni. Flestir þekkja flesta, skulum við segja, fólk veit meira af hvert öðru, aðstæðum og jafnvel kjörum, sem styður og örvar samhjálpina. Lendi sveitungi í vanda stendur ekki á nágrönnum að leggja til alla krafta, sem til eru svo vel fari, já eins vel og unnt er. Í slíkum aðstæðum þarf allt að gerast hratt og örugglega. Þegar björgunarliðar þekkjast vel fyrir utan björgunarstörfin eru heldur meiri líkur en minni að samvinna gangi hraðar fyrir sig. Það er segin saga.

Kristinn boðskapur leggur áherslu á einmitt þetta, að við könnumst hvert við annað, að við látum aðra skipta okkur máli og þá breytir það engu hver á í hlut, hvort sem það er sveitungi minn eða aðkomumaður. Jólaguðspjallið hvetur til þessarar nálgunar milli jarðarbarna. Nálgun er vilji Guðs, fjarlægð er það augljóslega ekki, miðað við boðskap Biblíunnar, miðað við jólaboðskapinn, því þar gerðist Guð maður, Guð kom til jarðar og bjó á meðal manna. Fjarlægð okkar við Guð er það sem kallað er einu orði synd. Þetta gap sem myndast milli Guðs og manns. Og okkur finnst það vera synd þegar gap myndast á milli vina og vandamanna vegna slæmra samskipta ellegar tómlætis. Jólin minna okkur á að bæta úr, ef um slíkt er að ræða.

Jólaboðskapurinn er ekki froða, hann er ekki bara eins og englahár á jólatré eða silkimjúkur jólasöngur, jólaboðskapurinn er og á líka að vera krefjandi. Hann fjallar um barn, sem kemur utan frá, því er úthýst vegna þess að það fær ekki rými. Barn, sem fæðist inn í fátækt, barn sem er í lífshættu út af veraldlegri valdsýki og græðgi. Með þeim hætti kemur Guð og vitjar sköpunar sinnar og kallar á viðbrögð. Hver eru viðbrögð þín? Það er jafnsatt og jólaguðspjallið, að enginn er undþeginn því að svara krefjandi spurningu sem þessari. Við þurfum öll að takast á við hana með einum eða öðrum hætti og hún verður í raun aldrei jafn knýjandi og á þessari hátíð. Þú svarar henni kannski ekki alltaf með orðum, það getur frekar verið með gjörðum, siðum, huga eða hjarta. Hver veit?

Þú leggur þig kannski fram um að svara henni ekki, afneita henni, dusta henni í burtu eins og hverri annarri laufabrauðsmylsnu af hátíðarborði, en hún sækir á þig aftur, það er það sem gerir boðskapinn og trúnna svo spennandi, að þú þarft að taka afstöðu og velta öllu því fyrir þér, þetta er lífsskoðun, lífsviðhorf og það fylgir því að lifa að taka afstöðu til slíkra mála og þess vegna er mikilvægt að kynna sér það sem stendur á bak við. Þú getur afneitað kirkjustofnunni sem slíkri, prestunum og öllum þjónum kristinnar kirkju, en kjarnaspurningar trúarinnar sækja á þig aftur og aftur, með nýrri lífsreynslu, með auknum aldri ellegar því hugarfari, sem vaknar gjarnan þegar efnishyggja og pólitískar vangaveltur yfirgnæfa ekki þjóðfélagsumræðu.

Með þetta í huga get ég vel tekið undir orð eldri konu, sem hringdi inn í útvarpsþátt og þakkaði mannréttindaráði Reykjvíkurborgar fyrir tillögur sínar í tengslum við samskipti skóla og kirkju, ekki vegna þess að hún væri eitthvað sérstaklega sammála þeim, heldur einkum og sérílagi vegna þess að þær vöktu þjóðina til umhugsunar um kirkju og kristni. Og það er svo einstakt við jólaboðskapinn, hann er þess eðlis að hann vekur upp umræðu, því það er eitthvað svo mikið satt við söguna í grunninn. Það er einkum vegna þess að hún verður aftur og aftur að veruleika í lífi mannfólksins. Barnið, sem kallar á aðhlynningu, þú horfir í augu þess og veltir fyrir þér framtíð þess og lífi, vilt þú vera þátttakandi í að búa því bjarta framtíð, vilt þú dást að því og segja frá því öðrum þeim, sem á eftir koma? Vilt þú láta það verða til þess að þú nálgist frekar fólkið þitt og náunga, að þú nálgist frekar Guð.

Það er gott markmið, því það er um leið viðleitni til þess að skapa hér hollt samfélag, er lætur ekki stjórnast af eiginhagsmunasjónarmiðum, pólitískum refskákum og takmarkaðri samkennd. Já, Guð gefi ykkur öllum gleðilega, friðsama og umhugsunarverða jólahátíð í Jesú nafni. Amen.