Gæti hver sín, en Guð vor allra

Gæti hver sín, en Guð vor allra

Kjarni þessarar sögu er hugsunin og svo breytnin, gjörðin. Þar er eini munurinn á meyjunum sem allar ætluðu í brúðkaup og allar mættu með olíu og lampa og allar sofnuðu og allar vöknðu. Gjörðin, skrefið sem stigið er og skapar muninn á afdrifum meyjanna, skiptir hér öllu máli. Ekki afdrif þeirra.

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.

Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.

Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.

Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.

Á einum stað í Fimmtu Mósebók stendur skrifað: „Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa“. (5.Mós 30:19b)

Höfum það hugfast.

Þessi saga, um þessar tíu meyjar sem eru að vafstra með ljós og ljósmeti í bið eftir brúðguma, sem alls ekki er ljóst hvaðan er að koma né heldur hvað hann hefur verið að gera, hefur vafist fyrir mönnum um aldir. Svo ekki sé nú minnst á þau ósköp að það er eins og brúðurinn sé ekki til. Matteus er sá eini af guðspjallamönnunum sem segir þessa undarlegu sögu. Hjá honum er í hún í flokki dæmisagna Jesú þar sem fengist er við Guðs ríki, og samt er hún ekki nema hálfgildings dæmisaga (parabóla) því hún er öllu meiri táknsaga (allegóría). Það vill segja, hún vísar út og suður og ekki hvað síst um allar orðanna grundir í sjálfu guðspjallinu. Og víðar í hinni helgu bók.

Þegar Matteus færir þessa sögu í letur er góður hálfur mannsaldur, á nútíma vísu, frá því Jesús gekk um á meðal mannanna og lægði sjálfan sig og fórnaði loks sjálfum sér okkur til eilífs hjálpræðis. Þegar þarna var komið voru menn að bíða dómsdags, þess að vera kallaðir. Á það vill guðspjallamaðurinn minna. Hann tekur stef sem Jesús hélt á lofti, stefið um það að vera ávallt vakandi og viðbúinn efsta degi. Það er ekki óeðlilegt í ljósi sögunnar, ekki óeðlilegt í ljósi þeirrar gyðinglegu hefðar sem Matteus skrifar inn í og ekki óeðlilegt miðað við það sem áður hafði verið talað og nú var vænst.

„Enn sagði Jesús …“ þannig hefst þessi saga. Með þeim orðum er strax hafist handa við að vísa út fyrir hana, því úr því Jesús sagði „enn“ eitthvað – þá er víst að hann sagði eitthvað þar á undan.

Og hvað hafði hann svo sagt stuttu áður, sem kallar á þessa byrjun? Jú, hann hafði sagt aðrar sögur og hann hafði haldið á lofti þessu minni um að menn ættu að vera viðbúnir. Bara í kaflanum á undan þeim sem geymir söguna okkar um Meyjarnar tíu, segir hann: „Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða. En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ (Mt 24:35-6) og stuttu síðar: „Vakið því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ (Mt 24:42) og enn stuttu þar á eftir: „Verið þér og viðbúin því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“ (Mt 24:44) og andartökum áður en sagan okkar hefst: „þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi sem hann væntir ekki, á þeirri stundu sem hann veit ekki“. (Mt 24:44) Og sögunni um Meyjarnar tíu lýkur á þessum orðum: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ (Mt 25:13)

Og hvað þá? Er þetta bara allt einn hræðsluáróður og dómadagsspár, hörmungahjal, undirstrikun óttans? Illt fóður handa taugaveikluðum?

Nei, alls ekki. Þetta er einungis svarið við því sem er kjarni sögunnar um hinar tíu meyjar, sem við fyrstu sýn virðast svona og svona, en eru þegar betur er að gáð, afskaplega líkar og nánast nákvæmlega eins – um flest. Nákvæmlega eins þrátt fyrir sterk orð um ríkan mun á þeim strax við upphaf sögunnar: fimm voru fávísar en fimm hyggnar. Þetta er meira að segja nokkuð mildilega orðað í íslensku þýðingunni því í útlendum biblíum er oft kveðið sterkar að orði, í hinni ensku biblíu Jakobs konungs eru þær sagðar, „foolish“ (heimskulegar) og „wise“ (vitrar), þýska biblían segir þær „töricht“ sem líka er réttast að þýða sem heimskulegar og „klug“ sem þýðir helst, snjallar. Danska þýðingin kallar þær fávísu, afglapa, og svo mætti lengi telja.

En allt þetta hjal skiptir þó í raun engu. Líkt og það skiptir engu máli hvort þær sofna, því takið eftir því að þær sofna allar. Enda þurfa jú allir að sofa. Gætum enda að því, að það, þegar Jesús brýnir menn að vera viðbúnir þá er hann ekki að leggja til andvökur enda þess örugglega meðvitaður, þrátt fyrir að þá hafi svefnrannsóknir verið skammt á veg komnar, að fólk þarf að sofa. Heimskur, fávís, fyrirhyggjulaus, gáfaður, snjall, fyrirhyggjusamur – allir þurfa svefn.

Það skiptir heldur engu máli hvenær þær eru vaktar þótt það sé tekið fram að það sé á miðnætti. Við þurfum ekki annað en að líta í Markúsarguðspjall til þess að fá sönnun fyrir því að tíminn skiptir engu þegar svipaður boðskapur er til umfjöllunar: „Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ (Mk 13:35-7)

Og svo eru það þessir blessuðu lampar og olíukreppan. Þær meyjanna sem ekki tóku nóg af olíu biðja hinar um að gefa sér, en þær auðvitað neita því vegna þess að ekki er betra að allar verði olíulausar eftir smá stund – nei, þá er betra að það týri þó á þessum fimm lömpum. Og þá kemur þetta gullkorn: „Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.“ Bíddu, er þetta ekki á miðnætti? Tíðkuðust sólarhringsopnanir á þessum dögum á þessu landsvæði? Eee – nei. Fræðimenn sem hafa fjallað um þetta í löngu máli, benda flestir á að þessi setning sé undarleg og ekkert bendi til þess að fólk hafi staðið í viðskiptum á þessum tíma sólarhrings. Og það er fleira: hvar er það sem þessar meyjar sofa? -og meira: hvar bíða þær? -og enn meira: ef þær hefðu ætlað að marséra með brúðgumanum síðasta spölin þá hefði nú verið gáfulegara að vera með kindla en ekki lampa! En fræðimenn hafa bent á að það hafi verið venjan í svona skrúðgöngum við brúðkaup á þessu svæði.

Vissulega hafa menn stungið upp á hinu og þessu í kringum þessa sögu, talað um að brúðguminn hafi verið að koma úr föðurhúsum, á meðan enn aðrir hafa sagt hann hafa verið að koma frá húsi brúðarinnar að semja um heimanmund. En með slíkum túlkunum eru menn hlaupnir frá textanum og það kann ekki góðri lukku að stýra. Þá hafa enn aðrir bent á að þessi saga sé alls ekki að lýsa neinum veruleika. Merkur breskur guðfræðingur T.W. Manson sagði hinsvegar eitthvað á þá leið að þessi dæmisaga væri forvitnilegt samsafn hugmynda héðan og þaðan, sem hlaðið væri upp í kringum eina sáraeinfalda hugmynd - eða kjarna. Því ég er ég sammála og ég hef mína skoðun á því hver sá kjarni er.

Kjarninn liggur ekki í því sem hér hefur hálfvegis verið vísað út af borðinu; ekki í lömpunum eða olíunni, ekki í tímanum, ekki í biðinni, ekki í nóttinni, ekki í verslun og viðskiptum, ekki í neitun hinna hyggnari meyja ekki í aðgreiningu meyjanna í fávísar og hyggnar, ekki í brúðinni sem hvergi sést. Og ekki í því þegar dyrnar skella í lás.

Kjarni þessarar sögu er hugsunin og svo breytnin, gjörðin. Þar er eini munurinn á meyjunum sem allar ætluðu í brúðkaup og allar mættu með olíu og lampa og allar sofnuðu og allar vöknðu. Gjörðin, skrefið sem stigið er og skapar muninn á afdrifum meyjanna, skiptir hér öllu máli. Ekki afdrif þeirra.

Aðvörunarorðin sem sagan vísar til, meira að segja út fyrir sjálfa sig, um að við skulum vera viðbúin, bendir til þess sem gert er í hinu daglega smáa, vísar í litlu skrefin í breytni daglegs lífs: Sumar tóku til auka olíu – aðrar ekki. Aðvörunarorðin og boð frelsarans Jesú Krists um að við ættum að vaka vísa ekki til hinsta dags heldur til dagsins í dag, og til dagsins í gær og allra þeirra daga sem runnið hafa í ævi okkar, þeirra daga sem sem setja okkur svo kyrfilega á sinn stað í deginum í dag, í núinu. Eða segir ekki í pistli dagsins?: „Gætið þess, bræður og systur, að hafa ekkert illt í hjarta og láta engar efasemdir bægja ykkur frá lifanda Guði. Uppörvið heldur hvert annað hvern dag á meðan enn heitir „í dag““ (Heb 3:12-13b).

Vakningarorðin og boð þess sem vekur og boðar með náð og miskunn fjalla um orðin sem falla okkar á milli dag frá degi, um smyrslin (olíuna þess vegna) sem við berum á sárin, huggunina sem við veitum öðrum, ástúðina í verunni, bjargræðið í heiminum; þá ósk Hans okkur til handa að við veljum lífið. Vakningin er sú sem sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson átti við er hann orti: „Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér. / Vaka láttu mig eins í þér.“

Þarna liggur hún litla hugmyndin í sögunni, litla hugmyndin sem hlaðið hefur verið utan um. Það er þetta smáa val sem gerir okkur að því sem við erum, mótar okkur og afkomendur okkar, „Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa“. Endalok þessarar ruglingslegu sögu um tíu meyjar gerir ekkert annað en að minna okkur á að hvern dag skulum við velja lífið, lokaðar dyr fyrir helming meyjanna er tákn og áminning; í raun fyrst og fremst mælskubragð sem leiðir að lokaorðum sögunnar um að menn skuli halda vöku sinni, vera vakandi svo þeir geti farið, eins og segir í sálminum sem verður sunginn hér við messulok: „Leið trúar, leið trausts, leið tryggðar hvern dag“ – treystandi einum Guði. Það er gjörðin sem blífur, að ganga þá leið, og fylla sjálfan sig andlegu fóðri svo sú leið megi blessast. Sagan um hinar Tíu meyjar fjallar að mínu viti um þessa hugsun, þessa gjörð, þetta skref, þetta smáa sem skilur á milli – og nei, ég er ekki að boða verkaréttlætingu, ég er að boða lífið undir náð Guðs, því fyrir hana megum við hólpin verða, „svo verði‘ allt mitt líf í Guði“ -svo ég vitni aftur í fallega sálminn hans Hauks Ágústssonar sem þið fáið að heyra á eftir.

Svo við öll megum velja lífið, því eins og þar stendur: „Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa“. Þessvegna, einn dag í senn, Vakið!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.