Í boði forseta Íslands

Í boði forseta Íslands

Mér finnst ástæða til að segja þetta sögukorn. Hér var skráð dýrmæt minning í hjarta barns, og ég er viss um að Hermann Ingi var verðugur fulltrúi langveikra barna á Bessastöðum þennan dag.
Gunnlaugur S Stefánsson - andlitsmyndGunnlaugur S Stefánsson
16. janúar 2012

Hermann Ingi á Bessastöðum

Hermann Ingi Stefánsson, sjö ára sonarsonur minn og búsettur hjá fjölskyldu sinni á Vopnafirði, á við ólæknandi vöðvarýrnuarsjúkdóm að stríða, en er hress og hugmyndaríkur strákur.

Það hefur verið honum mikið hjartans mál í tvö ár og sannkölluð hugsjón að fá tækifæri til að hitta Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, sem hann hefur miklar mætur á.

Ég færði þetta í tal við Örnólf Thorsson, forsetaritara, og nefndi að Hermann Ingi yrði í Reykjavík föstudaginn 6. janúar. Strax í framhaldi okkar samtals var Hermanni Inga boðið að þiggja boð Forseta Íslands að Bessastöðum viðkomandi dag ásamt foreldrum sínum. Þar tók Ólafur Ragnar á móti þeim af reisn og hlýju, bauð til veitinga og leiddi síðan Hermann Inga ásamt foreldrum hans um forsetasetrið, sagði frá sögu húss og muna og með slíkum hætti að greiptist í vitund unga mannsins. Og öllu var gefinn góður tími og hafði Ólafur Ragnar gott lag á að ná til drengsins og afmá kvíðann og spennuna sem eðlilega hafði búið um sig í litlu hjarta gagnvart langþráðri stund. Og það fór sannarlega vel á með þeim og nutu samvistanna.

Mér finnst ástæða til að segja þetta sögukorn. Hér var skráð dýrmæt minning í hjarta barns, og ég er viss um að Hermann Ingi var verðugur fulltrúi langveikra barna á Bessastöðum þennan dag. Það er mikils virði, að á Bessastöðum sitji forseti með hjarta sem slær með þjóðinni og skynji einstaklinginn í mannfjöldanum. Það gerði Ólafur Ragnar eins og þetta kærleikans boð vitnaði um. Fyrir það vil ég þakka.