Farsæld og félagsleg heilsa

Farsæld og félagsleg heilsa

Ég held að það hafi vantað eina spurningu í heilsufarskönnunina sem ég sagði frá í upphafi. Það er spurningin: “Hversu margar manneskjur í þínu umhverfi elskar þú?”. Því jafn mikilvægt og það er að vera elskuð þá er ég nokkuð viss um að það gefi okkur enn meira að vera fær um að elska og fá að upplifa að elska aðra manneskju og okkur sjálf.

Hér er hægt að horfa á prédikunina á Youtube

Farsæld og félagsleg heilsa ...og farsælt komandi ár! Hver kannast ekki við þessa algengustu áramótakveðju sem mörg okkar hafa ritað í jólakortin, á facebook eða annarsstaðar í aðdraganda jóla: “Gleðileg jól og farsælt komandi ár”.

Hver er hún þessi farsæld sem er svona eftirsóknarverð á nýju ári? Í hverju felst hún? Nú er nýja árið komið og þá má farsældin koma líka.

Er farsældin góð heilsa, frægð og frami. Er hún fjárhagslegt öryggi, barnalán eða ást? Í hverju er þín farsæld fólgin? Hvað færir þér mesta lífshamingju og sátt?

Á þessari aðventu lenti ég í úrtaki vegna könnunar fyrir Hagstofu Íslands á heilsufari Íslendinga. Ég tók að sjálfsögðu þátt í könnuninni sem fór fram í gegnum síma, enda hef ég, af einhverjum undarlegum ástæðum, mjög gaman af að taka þátt í könnunum. Fyrstu spurningarnar voru þessar hefðbundnu um hjúskaparstöðu, atvinnu og almennt um heilsufar, líkamlegt og andlegt, og lyfjanotkun en þeim var frekar fljótsvarað. En síðan komu spurningarnar um lífsstílinn og félagslega heilsu. Þær voru svo sem ekkert flóknar heldur nema þá helst þessar félagslegu, sem fengu mig til að sperra eyrun sérstaklega og velta fyrir mér þessari könnun á annan hátt. Þar fékk ég t.d. spurningu um það hversu mikið af fólki ég teldi að þætti vænt um mig. Ég var einnig spurð þarna hveru margar manneskjur væru í mínum nánasta hring aðstandenda og hversu mörg þau væru sem yrðu fyrir áhrifum af því ef eitthvað kæmi fyrir mig. Þarna gat ég síðan valið á milli fjölda t.d. 1-5, 6-10 og þess háttar. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þessar spurningar voru orðaðar en þetta var innihaldið, svona um það bil.

Það var erfiðara að svara þessum félagslegu spurningum og þurfa að meta hversu mörg þau eru sem þykja vænt um mig.

Það er gott að vita að heilsufar okkar sé ekki aðeins metið út frá líkamlegri heilsu og andlegri, heldur einnig út frá félagslegri líðan okkar og tengslum við umhverfið. Það er nefnilega alveg ljóst að tengsl okkar við fólkið í kringum okkur, okkur sjálf og umhverfi okkar hefur gríðarleg áhrif á okkar líkamlegu og andlegu líðan.

Mælikvarðar á farsæld Ætli farsældin sé kannski fólgin í félagslegri heilsu og fjölda þeirra sem þykir vænt um okkur?

Það er erfitt að meta farsæld alveg eins og það er erfitt að meta heilsufar. Það verður alltaf aðeins hægt að meta hana upp að vissu marki því það er erfitt að bera saman farsæld. Það sem er farsæld fyrir mér er kannski ekki farsæld fyrir konu á Indlandi eða karli í Japan. Og jafnvel ekki fyrir konu í Kópavogi eða karli á Egilsstöðum. Fyrir einum er góð heilsa mælikvarði um farsæld á meðan það er fjárhagslegt öryggi hjá öðrum. Hjá einni er farsæld það sama og líf án ofbeldis á meðn það er metorðaklifur hjá annarri.

Ég held þó að við getum fundið einn mælikvarða á farsæld sem gæti virkað og hann gengur út á að skoða líf hans sem í guðspjalli dagsins er umskorinn og fær nafnið Jesús. Hann varð reyndar aldrei ríkur og gaf meira af sér en hann fékk tilbaka. Ég held samt að Jesús, sem kom í heiminn til þess að sýna okkur hvernig Guð er, geti sýnt okkur eitthvað um það hvernig við getum eignast farsælt líf. Ég á ekki við að við reynum að lifa eins lífi og hann heldur að við tökum okkur líf hans og persónu til fyrirmyndar.

Líf Jesú einkenndist allt af réttlæti og ást. Hann tók alltaf málstað þeirra sem minna mega sín og hann leit aldrei í hina áttina þegar hann sá ranglæti og hann fór ekki í manngreiningarálit þegar hann valdi sér vini og kunningja. Hann gaf alltaf meira en hann þáði. Reyndar er spurning hversu fullkomið samband hans við fjölskylduna var. Hann var í það minnsta ekki alltaf jafn almennilegur við móður sína. Hann missti líka stundum stjórn á skapi sínu þegar honum ofbauð ranglætið og heimskan í kringum sig. En þetta eru einmitt þeir hlutir sem sýna okkur að hann var líka venjuleg manneskja úr hæfilega vanvirkri fjölskyldu, eins og við öll.

Kannski var það farsældin sem varð til þess að valdafólkið í kringum hann fékk nóg og tók hann af lífi.

Það dugði þó ekki til því hann reis bara upp aftur.

Getur verið að ást og réttlæti sé vegurinn að farsælu lífi? Að það sé líklegra að við öðlumst farsæld ef við gefum meira en við þiggjum? Ætli það sé trúlegra að við verðum farsælar manneskjur ef elskum meira en við þráum að vera elskuð? Að barátta fyrir réttlæti gefi okkur meiri farsæld en afskiptaleysi?

Ef við tökum Jesú alvarlega sem fyrirmynd um farsæla manneskju þá er svarið já, við öllum þessum spurningum.

Farsæld og félagsleg heilsa Ég held að það hafi vantað eina spurningu í heilsufarskönnunina sem ég sagði frá í upphafi. Það er spurningin: “Hversu margar manneskjur í þínu umhverfi elskar þú?”. Því jafn mikilvægt og það er að vera elskuð þá er ég nokkuð viss um að það gefi okkur enn meira að vera fær um að elska og fá að upplifa að elska aðra manneskju og okkur sjálf.

Ég er nokkuð viss um að farsæld sé yfirleitt ekki eitthvað sem gerist að sjálfu sér heldur þarfnast hún fyrirhafnar. Ég tel að farsæld geti að miklu leyti byggst á vali og ákvörðun. Að við getum sett okkur það markmið að reyna að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að öðlast farsæld.

Við getum gert það með því að velja að líta á glasið sem hálffullt í staðin fyrir að sjá það sem hálftómt. Við getum gert það með því að reyna að elska frekar en að leita að einhverjum til að elska okkur. Og við getum gert það með því að reyna að vera réttlátar og þokkalega almennilegar manneskjur.

Við getum þó aldrei stýrt farsældinni að öllu leyti með hugarfari og framkomu einni saman. Við stjórnum ekki öllum aðstæðum og vondir hlutir geta gerst í lífi okkar sem við höfum enga stjórn á og ekki er nokkur leið að sjá það jákvæða og góða við. Stundum verða þessir hlutir jafnvel það vondir og erfiðir að þeir lita allt okkar líf og viðhorf til lífsins. En farsæld er ekki það sama og fullkomið líf, án áfalla eða fullkomin hamingja. Heldur snýst hun um að við gerum það besta úr því sem verður á vegi okkar. Þegar vondir hlutir gerast getum við valið að sækja okkur hjálp og stuðning hjá fólki í kringum okkur og það að leita okkur hjálpar mun að öllum líkindum auka möguleika okkar á farsæld, smám saman.

Og nú á þessum fyrsta degi ársins langar mig til að við óskum hvert öðru farsældar og reynum að leggja okkar af mörkum til bæði eigin farsældar og annarra. Við skulum því taka í höndina á manneskjunum við hliðina á okkur, fyrir framan okkur og aftan okkur, og óska þeim farsælpopodar á þessu ári með orðunum: “Ég óska þér farsældar”. Amen.