"Allir krakkar, allir krakkar..."

"Allir krakkar, allir krakkar..."

Þessa barnavísu þekkir hvert mannsbarn á Íslandi. Öll höfum við raulað hana marg oft þegar við vorum börn að leik – nú eða með börnum okkar.

Þér eruð ljós heimsins. […] Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum. Mt 5.13-16

Þessa barnavísu - "Allir krakkar ..." þekkir hvert mannsbarn á Íslandi. Öll höfum við raulað hana marg oft þegar við vorum börn að leik – nú eða með börnum okkar.

Það sagði mér gömul kona sem hér hvílir í kirkjugarðinum í Hruna að þegar hún var ung hafi hún heyrt að þessa vísu hafi ungur drengur samið, drengur sem eitt sinn bjó á þessum gamla og merka sögustað. Drengurinn hét Valdimar Briem og ólst hér upp frá 10 ára aldri hjá frændfólki sínu.

Seinna varð hann þekkt sálmaskáld og einn af höfuðklerkum þjóðarinnar, prestur í Hrepphólum og seinna á Stóra-Núpi. Ekki get ég fullyrt að sagan sé sönn – en hún þarf heldur ekki að vera ósönn. Við þekkjum sálmana hans Valdimars, eins og jólasálminn Í dag er glatt, eða áramótasálminn Nú árið er liðið og sálminn góða Þú Guð sem stýrir stjarna her.

Í dag er merkisdagur, - það er verið að halda hátíðlegt 140 ára afmæli kirkjunnar hér í Hruna. Og í dag höldum við líka upp á allra heilagra messu. Það er að verða hefð að minnast á þessum degi þeirra sem látnir eru, þeirra sem gengnir eru á vit eilífðar Guðs.

Það fer einnig vel á því að við heiðrum hér í dag það fólk sem hér bjó á sinni tíð og lagði alúð sína – og auð í byggingu þessa musteris til dýrðar Guði. Það var fósturfaðir Valdimars sálmaskálds, Jóhann Briem prestur hér sem hafði forystu um að reisa þessa kirkju 1865. Og hugsið ykkur þá var þetta stærsta hús á Suðurlandi með einni undantekningu austur á Síðu, - ég veit nú ekki um Landakirkju sem er nú reyndar enn eldri en Hrunakirkja, eða 225 ára.

Eflaust segið þið Eyjamenn að hún sé stærri en Hrunakirkja. Þið eruð nú ekki vanir að láta ykkar hlut fyrr en í fulla hnefana...

Og sjálfum er mér mikill heiður að vera með ykkur hér í dag – ég er nú einu sinni gamli presturinn eins og einhver minnti mig á.

Gömul barnavísa, gömul kirkja, gömul hefð.

- Samt syngja börnin á Íslandi enn “allir krakkar...”, - samt söfnumst við enn til þessarar kirkju til að heiðra Guð, - samt hjálpar þessi gamla hefð, allra heilagra messa okkur til að minnast þeirra sem eru horfnir okkur, jafnvel syrgja þá sem voru okkur nákomnir.

Tungan gerir okkur að mönnum, en minningar að manneskjum sagði einhver, ekki síst minningar um þá sem við elskuðum en eru horfnir frá okkur.

Gömul barnavísa, gömul hefð. Og þó er kannski réttara að segja sígild, klassísk - nokkuð sem höfðar til manneskjunnar í okkur öllum, sama á hvaða tímum við lifum.

Börnin hér í Hruna sem sungu þessa vísu á sinni tíð, upp úr miðri 19. öld áttu sér svipaða drauma og þau okkar sem eru ung, - að verða hamingjusöm, - að vinna afrek, - að á Íslandi væri gott að búa.

Og hér uxu þau úr grasi, sum fluttu burt og byggðu betri heim, gáfu okkur mörg þau gæði sem nú þykja sjálfsögð. Gáfu okkur þessa kirkju. Voru salt jarðar, ljós í heiminum, til að lýsa okkur sem á eftir komum.

Við skulum þakka þeim og heiðra minningu þeirra. – og biðja Guð að geyma þau í sinni eilífu hendi.

Og hér í kirkjugarðinum hvíla þau sum sem eitt sinn léku sér hér börn. En við trúum því samt, við leyfum okkur að vona fyrir upprisu Krists að þau lifi nú í eilífð Guðs, þar sem er ljós, þar sem er leikur. Skyldu þau ekki syngja “allir krakkar” á himnum?

Þér eruð salt jarðar, þér eruð ljós heimsins, segir Jesús í Fjallræðunn, í texta dagsins, allra heilagra messu.

Allra heilagra messa minnir okkur á samhengið.

-Samhengi við þá sem lifðu á undan okkur, -Samhengið við þá sem koma á eftir okkur -Samhengið sem nær út yfir gröf og dauða, á himni sem á jörðu.

Þetta er samfélag kristinna manna, kirkjan - og í þessu kirkjuhúsi hefur verið minnt á þetta samhengi hlutanna í 140 ár.

Þetta samhengi sést meira að segja í handverki þessarar gömlu kirkju. Sjáið þið handriðið hérna. Gráturnar sem við köllum svo. Þær eru í hálfhring um altarið. Það er stundum sagt að hringurinn lokist í eilífð Guðs. Þegar við söfnumst að borði Krists er okkur boðið til veislu á himni og jörð - veislu eilífðarinnar.

Já, eilífðin er sem glaður leikur lítilla barna sagði einn spekingur. Og ég trúi því sem hann segir. Í þeim glaða leik er eflaust sungið “allir krakkar” -

Og þar mega allir vera með, allir sem það vilja, allir sem vilja vera salt jarðar og ljós í heiminum. Krakkar, konur og karlar sem tigna Hann sem er Herra himins og jarðar, allir sem vinna verk hans hér á jörð. Í Jesú nafni. Amen.

Predikun þessa flutti sr. Halldór Reynisson í Hrunakirkju á allra heilagra messu 6. nóvember s.l. Þá var einnig minnst 140 ára afmælis kirkjunnar. Barnakórar Flúðaskóla og Landakirkju sungu og sóknarprestarnir í Hruna og Vestmannaeyjum, sr. Eiríkur Jóhannsson og sr. Kristján Björnsson þjónuðu fyrir altari.