Marsípankakan

Marsípankakan

Er Guð almáttug ofurhetja sem bjargar öllu, eða sumu? Eða er Guð persónulegt afl sem gengur með okkur í gegnum lífið, sem elskar okkur og vill okkur aðeins gott? Eða er Guð einhvern veginn allt öðruvísi? Við sem lifum hér í vesturheimi höfum kannski haft tilhneigingu til að sjá Guð fyrir okkur eins og hvítan miðaldra karl. Stundum jafnvel með pípukraga og allt.

marsipankaka.jpeg
Hefur þú orðið fyrir opinberun?
Eða bænheyrslu?

Hvernig fara opinberanir fram og hvernig vitum við hvort  bænum okkar hafi verið svarað?

Við heyrðum um eina opinberun áðan sem átti sér stað uppi á fjalli.

Það er reyndar ekki óalgengt í Biblíunni, að magnaðir hlutir gerist einmitt uppi á fjalli. Kannski erum við nær guðdómnum þegar við erum komin upp á fjall og því líklegra að stórkostlegir hlutir gerist þar en niðri við sjávarmál. Við þurfum í það minnsta að hafa fyrir því að klífa fjöll þó ekki viti ég til þess að sú áreynsla sé guðdómleg.

Síðustu fjögur ár hef ég gengið á u.þ.b. eitt til þrjú fjöll á sumri og tel ég þá með bæði Úlfarsfell og Helgafell, sem eru ekkert sérstaklega há. Sjálfsagt eru þið mörg hér inni sem farið reglulega í fjallgöngur, jafnvel allt árið um kring og hafið klifið hæstu fjöll á Íslandi og jafnvel úti í heimi. Önnur hér inni vita kannski fátt leiðinlegra en að ganga á fjöll.

En hvernig sem áhuga okkar og getu við fjallgöngur er varið þá held ég að við getum flest verið sammála um að að er sérstök tilfinning sem fylgir því að komast á toppinn. Enda líklegt að við höfum þurft að komast yfir nokkrar hindranir á leiðinni, líkamlegar eða andlegar.

Í Biblíunni gerast magnaðir hlutir á fjöllum. Jesús umbreytist fyrir augum vina sinna. Rödd kemur að ofan og segir: ”Þetta er minn elskaði sonur”. Spámenn Gamla testamentisins, Elía og Móse hurfu þegar þeir voru á fjöllum. Sagt var að þeir hefðu verið hrifnir upp til himna.

Hefur eitthvað magnað þá gerst á Esjunni eða á Hvannadalshnjúk?

Já, áreiðanlega. Ég er reynar sannfærð um að ef við færum að deila sögum af upplifunum úr fjallgöngum og veru okkar úti í náttúrunni, þá kæmi ýmislegt áhugavert í ljós.

Ég held nefnilega að við séum alltaf að verða fyrir vitrunum, upplifnunum sem sum okkar tengja við Guð og telja trúarlegar á meðan önnur skýra þær á annan hátt. Skýringar okkar byggja á reynsluheimi okkar og uppeldi, trúararfi eða skorti á honum.

Dæmi: Þegar ég var barn átti ég mikil og náin samskipti við Guð. Ég er alin upp í kristinni trú og við ákveðna kirkjurækni. Að sumu leyti upplifði ég Guð sem almáttugan og strangan karl, þó ekki að öllu leyti. Fyrir mér var Guð líka einhver sem hægt var að tala við um hvað sem var og ég var óhrædd við það.

Þannig var það dag einn, mér finnst að það hafi verið föstudagur, þegar ég var um átta ára gömul, að ég var á leið heim úr tónlistarskólanum, með strætó. Ég sat þarna í annari sætaröð vinstra megin þegar yfir mig kemur þessi sterka löngun í eitthvað sætt. Ekki átti ég pening fyrir súkkulaði frekar en venjulega svo ég gerði það sem mér var tamt. Ég deildi þessari löngun með Guði og bað um það sem mig langaði mest af öllu í, marsípanköku.

Og hvað haldið þið? Jú, mikið rétt. Þegar ég kom heim sátu móðir mín og amma við eldhúsborðið og á miðju borðinu stendur einmitt dýrindis marsípankaka.

Atvik þetta greyptist í huga mér því sjálfsagt hefur þetta verið brjálæðisleg upplifun fyrir átta ára gamalt barn sem var búið að biðja Guð um hitt og þetta en sjaldan fengið.

Ekki veit ég hvort þetta var raunverulegt bænasvar.

En hvað sem þetta var þá upplifði ég á þessum föstudegi, átta ára gömul, hina fullkomna sönnun þess að Guð væri til. Ég fékk sönnun þess að Guð hlustaði á allar bænir og stæði ekki á sama um nokkrar langanir og þrár, hversu smáar og ómerkilegar þær væru. Ekki einu sinni sykurþrá.

Hvað sem þessari sögu líður þá hefur mynd mín af Guði breyst mikið síðan hann var almáttugur faðir á himnum. Í dag sé ég Guð meira sem einhverskonar afl eða kraft sem umlykur allt. Um leið er Guð mjög persónulegt fyrirbæri sem bæði elskar og finnur til.

Hvernig sérð þú Guð? Er Guð almáttug ofurhetja sem bjargar öllu, eða sumu? Eða er Guð persónulegt afl sem gengur með okkur í gegnum lífið, sem elskar okkur og vill okkur aðeins gott? Eða er Guð einhvern veginn allt öðruvísi?

Við sem lifum hér í vesturheimi höfum kannski haft tilhneigingu til að sjá Guð fyrir okkur eins og hvítan miðaldra karl. Stundum jafnvel með pípukraga og allt. Þessu til stuðnings höfum við síðan lagt fram orðin í sköpunarsögunni, að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd og að Jesú hafi ávarpað Guð sem föður.

Kannski er það fyrst og fremst þetta föðurávarp Jesú sem hefur ruglað okkur í ríminu í fleiri aldir. En það að Jesús hafi ávarpað Guð sem ”föður” þarf ekki að þýða að Guð sé karlkyns og ég sé fátt sem bendir til þess að Guð hafi kyn yfirleitt. ”Faðir” gat allt eins þýtt ”meistari” eða sá/sú sem ræður.

Einhverjum kann að þykja að það skipti nú engu máli hvernig við ávörpum Guð eða hvernig bið tölum um Guð en ég held að það skipti miklu máli. Því þegar Guð er orðinn karlmaður er stutt í að karlmaðurinn verði Guð. Og kannski hefur það einmitt gerst að einhverju leyti.

Í Biblíunni er að finna margar og afar ólíkar myndir af Guði. Þær eru af báðum kynjum. Þær eru kynlausar. Þær eru mjúkar og harðar. Þær eru af valdamikilli veru sem berst með og gegn þjóðum. Þær eru af valdalausri manneskju sem er drepin á krossi.

Við erum því nokkuð frjáls af því að finna út sjálf hvernig Guð er fyrir okkur.

Í ritningarlestrum dagsins fáum við að minnsta kosti þrjár ólíkar myndir af Guði.

Í fyrsta lestrinum fáum við sterkar og karlmannlegar myndir af Guði sem er voldugur, ógnvekjandi og óttalegur, Guði hersveitanna. Í öðrum lestrinum fáum við öllu lágstemmdari mynda af Guði sem er lýst sem leyndardómi er opinberast í Jesú Kristi.

Í guðspjallinu kemur Guð fram sem rödd af himnum ofan sem segist elska Jesú, son sinn. Þarna renna saman myndir af kraftmikilli veru, sem ávarpar manneskjur á fjallstoppi, og mjúkri veru sem tjáir ást sína og kærleika.

Þessar þrjár myndir eru ólíkar og nokkuð óskýrar. Og þar liggur vandinn og um leið frelsið; við fáum engin skýr svör um það hver Guð er því kannski er Guð einmitt ýmislegt. Eitt fyrir þér og annað fyrir mér.

Kannski þarf Guð ekki að vera eins fyrir okkur öllum.

Ég hef upplifað fjölda bænasvara í gegnum tíðina. Oft man ég eftir því að biðja en ég gleymi því líka oft. Stundum fæ ég höfnun en ég hef svo oft fengið svör, upplifanir og eitthvað sem ég upplifi sem sönnun þess að Guðdómurinn sé til. Það er ástæðan fyrir því að ég gefst ekkert upp á Guði þó ég fái ekki alltaf það sem ég þrái.

En ég trúi á Guð sem elskar og hefur húmor fyrir sköpun sinni og sjálfu sér. Þessi Guð opinberar sig á mismunandi hátt fyrir okkur. Þennan Guð er hægt að biðja um og fyrir hverju sem er. Því þessi Guð er kærleikur. Amen