Mýtan um karlana

Mýtan um karlana

Þær eru margar mýturnar sem lifa góðu lífi í samfélagi okkar. Ein af þessum mýtum varðar takmarkaða möguleika karla til að fá prestsstarf innan íslensku þjóðkirkjunnar. Til þess að færa rök fyrir sannleiksgildi þessarar mýtu er gjarnan vitnað í gildandi jafnréttislög eða jafnréttisstefnu kirkjunnar.

Þær eru margar mýturnar sem lifa góðu lífi í samfélagi okkar. Ein af þessum mýtum varðar takmarkaða möguleika karla til að fá prestsstarf innan íslensku þjóðkirkjunnar. Til þess að færa rök fyrir sannleiksgildi þessarar mýtu er gjarnan vitnað í gildandi jafnréttislög eða jafnréttisstefnu kirkjunnar, sem margir telja að vinni með konum á kostnað karla. Margir telja einfaldlega að jafnréttislög séu sett til höfuðs körlum. Þá eru líka margir sem álíta að vegna þess að jafnréttislögin og jafnréttisstefna kirkjunnar leggja áherslu á jafnan rétt kvenna og karla, þá sé gefið í skyn að ekki eigi að gera sömu hæfniskröfur til kvenna og karla.

Samkvæmt mýtunni um karlana þá fá konur flest prestsembætti innan kirkjunnar og eru fleiri í hópi þeirra sem vígjast til prestþjónustu. En er það þannig? Hvað sýna tölurnar?

Á síðasta ári var óvenju mikið um ráðningar í prestsembætti í íslensku þjóðkirkjunni. Félag prestvígðra kvenna stóð vaktina og benti á staðreyndir varðandi hlutfall kvenna og karla í prestastétt. Í byrjun maí sendi félagið frá sér ályktun þar sem bent var á alvarlegan kynjahalli í embættum og ábyrgðastöðum innan kirkjunnar. Þar sagði m.a. að af níutíu sóknarprestsembættum væru konur í tuttugu og þremur embættum og væru því um fjórðungur sóknarpresta. Félag prestvígðra kvenna sendi síðan frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu 15. júlí s.l.:

Í vor og sumar hefur verið skipað í níu prestsembætti innan Þjóðkirkjunnar. Í fimm tilvikum voru karlar valdir og í fjórum tilvikum konur. Úr þessum níu embættum ganga hins vegar sjö konur og tveir karlar. Það er því ljóst að kynjahalli í prestsembættum hefur aukist.

Þegar kynjahlutfall er skoðað í hópi þeirra sem voru vígðir til prestsþjónustu á síðasta ári kemur í ljós að af sjö vígsluþegum á árinu 2014 voru fimm karlar og tvær konur. Einn karlinn var vígður til þjónustu í norsku kirkjunni og sé því aðeins horft til þeirra sem vígð voru til þjónustu í íslensku þjóðkirkjunni þá voru það fjórir karlar og tvær konur. Nývígðir karlar eru sem sagt tvöfalt fleiri en nývígðar konur.

Það er því ljóst að mýtan um karlana er einmitt bara mýta. Tölurnar tala sínu máli. Þær segja okkur að það sé fjarri lagi að konur fái frekar prestsembætti en karlar. Hið sama er uppi á tengingnum þegar kemur að nýliðun í stéttinni, en tölur frá fyrra ári sýna að það er langt frá því að konur standi þar jafnfætis körlum. Lengi vel voru þau rök notuð til að réttlæta ráðningu karla að konur væru einfaldlega ekki samkeppnishæfar þar sem þær skorti reynslu til jafns við karla. En þau rök eiga sjaldnast við í dag. Konur eru líka engir eftirbátar karla þegar kemur að framhaldsmenntun.

Stundum er því haldið fram, eða allavega gefið í skyn, að það sé eins og hvert annað náttúrulögmál að konum muni fjölga hratt á meðal prestvígðra þjóna íslensku þjóðkirkjunnar. Margir telja jafnvel ljóst að konur muni fyrr en varir verða í miklum meirihluta í prestastétt. Oft hefur verið bent á kynjahlutfallið í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands í því sambandi, þar sem konur hafa verið í talsverðum meirihluta frá því um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. En fjöldi kvenna á meðal guðfræðinema, íslensk jafnréttislög eða jafnréttisstefna kirkjunnar hafa greinilega ekki dugað til að fjölga konum svo einhverju nemur, hvað þá að tryggja jafnt hlutfall kvenna og karla á meðal prestvígðra.

Það er erfitt að segja hvað veldur því að prestvigðum konum fjölgar eins hægt og raun ber vitni. Á síðasta ári héldum við upp á 40 ára vígsluafmæli fyrstu prestvígðu konunnar innan íslensku þjóðkirkunnar. Lagaleg heimild fyrir prestsvígslu kvenna var til staðar frá árinu 1911. Af hverju leið svona langur tími? Og af hverju liðu rúm 100 ár þar til fyrsta konan varð biskup, frá því að lögin opnuðu fyrir möguleika kvenna til að þjóna sem biskup. Þessum spurningum er einnig erfitt að svara. En við hljótum að geta dregið þá ályktun af þessu öllu saman að það hafi verið og sé enn til staðar ákveðin tregða sem gerir konum erfitt fyrir. Á meðan mýtan segir að karlar eigi erfitt með að fá prestsembætti segir raunveruleikinn okkur hið gagnstæða. Ég held að það verði engin breyting hér á fyrr en fólkið í kirkjunni okkar kemst að þeirri niðurstöðu að það sé hagur kirkjunnar að hæfar konur og hæfir karlar gegni til jafns störfum og ábyrgðarstöðum innan kirkjunnar.