Tími fyrir þjóðgildin

Tími fyrir þjóðgildin

Á stundum er því fleygt fram að best sé að gera ekki neitt, þá geri maður að minnsta kosti engin mistök. Að sama skapi má heyra þá skoðun að best sé að ganga ekki í að ljúka málum, hreinsa borðið, í þeirri von að viðkomandi áskorun gufi hreinlega upp.

Það er vandasamt að átta sig á eigin ábyrgð. Sum okkar eru öðrum til fyrirmyndar í því hvernig þau axla ábyrgð í samfélaginu, önnur þurfa að taka sig á. Í þessu samhengi álít ég sjálfan mig standa frammi fyrir þrenns konar vanda. Ég er hræddur við að hrósa þeim sem gera vel í þágu samfélagsins, ég kann ekki að koma málefnalegri gagnrýni frá mér á hendur þeim sem þurfa að taka sig á og ég er að farast úr sjálfselsku. Hvort þessu er eins farið hjá þér verður þú að svara sjálf/ur.

Á stundum er því fleygt fram að best sé að gera ekki neitt, þá geri maður að minnsta kosti engin mistök. Að sama skapi má heyra þá skoðun að best sé að ganga ekki í að ljúka málum, hreinsa borðið, í þeirri von að viðkomandi áskorun gufi hreinlega upp.

Nú veit ég ekki hvort þú þekkir þessar eða álíka hugsanir? Ég get svarað því fyrir sjálfan mig að stundum hættir mér frekar til að draga mig í hlé í stað þess að axla þá ábyrgð sem felst í því að taka þátt í samfélaginu. En þá átta ég mig ekki á því að á slíkri stundu ýti ég undir ábyrgðarleysið í samfélaginu, þátttökuleysi mitt hefur ekki síður áhrif heldur en þátttaka mín.

Bók Gunnars Hersveins ÞJÓÐGILDIN, getur reynst okkur hjálpleg við að átta okkur á mikilvægi þess að taka þátt í að skapa það samfélag sem við viljum búa í. Eftir að hafa lesið bók Gunnars hef ég á tilfinningunni að hann vilji benda á að ef okkur stendur á sama, ef við komum ekki orðum að skoðunum okkar, ef við komum ekki þeim orðum á framfæri og ef við náum ekki að sýna viðleitni við að koma þeim orðum í framkvæmd þá bregðumst við sjálfum okkur og samferðafólki okkar. Hann segir m.a. (bls. 20-21):
Skeytingarlaust samfélag er hurðarlaust helvíti; fáar reglur og hindranir og lítið eftirlit. Það gerir þeim sem sinna einungis eigin hag tækifæri til að traðka á öðrum. Andhverfa kærleikans felur sig bak við margar grímur en augun sem horfa í gegn eru skelfilega tóm og senda kuldaleg skilaboð.
Það er ekki tilviljun að í umsögn á vef Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, sem hafa nú tilnefnt bókina til viðurkenningar segir: Hógvær en beitt rökræða um þau kjölfestuhugtök og gildi sem íslensk menning þarfnast við uppbyggingu þjóðar. Sjálfur upplifi ég orð Gunnars þægileg um leið og þau eru beitt, því jafnvel þó maður sé ekki sammála honum, líður manni vel. Hvergi er farið niðrandi eða ljótum orðum um þann sem talað er til.

Ég hlakka til samtalsins sem við sem tökum þátt í umræðukvöldum í Glerárkirkju á febrúar og mars munum eiga um þjóðgildin. Við komum inn á þennan umræðuvettvang með mismunandi bakgrunn í farteskinu. Við eigum það sameiginlegt að við tökum hvert á sinn hátt virkan þátt í því að byggja upp samfélagið sem við búum í. Sjálfsagt stöndum við líka frammi fyrir mismunandi áskorunum í því samhengi.

Þessar ólíku áskoranir eru af ýmsum toga. Þær erfiðustu eru allt að því eins og gildrur sem við leggjum sjálf fyrir okkur eða aðrir reyna að leiða okkur í. Ein af þeim sem ég reyni ekki að falla í er sú fullyrðing að maður eigi einungis að boða það sem maður getur sjálfur sýnt í framkvæmd. Vissulega á þetta við í sumum tilfellum en í öðrum alls ekki.  Mikilvægt er að slíkur rammi verði ekki til þess að orð okkar séu fangelsuð. Við þurfum að koma orðum að draumum okkar, væntingum okkar, sýn okkar. Þó ég eigi ekki skútu, kunni ekki að stýra skútu og viti ekki hvar sjórinn er, má ég og verð ég eftir sem áður að tala um draum minn að við siglum þöndum seglum saman sem ein liðsheild og mikilvægi þess að við veljum góðan við í skútuna, vöndum seglagerðina og stöndum vel að siglingunni.

Samtal sem leiðir til jákvæðrar uppbyggingar á samfélaginu okkar hlýtur líka að fela í sér að við spyrjum um meiningu þess sem sagt er og setjum fram skoðanir sem eru á öndverðum meiði eða gefa aðra sýn á viðkomandi málefni. Og hér er bók Gunnars fjársjóður af umræðuefnum. Hann segir m.a. (bls. 29)

Heimilið er aðsetur fjölskyldunnar. Heima – að fara heim merkir oftast til fjölskyldunnar. Hindranir hverrar fjölskyldu koma bæði að utan og innan. Sá sem fær ekki að vera sá sem hann vill vera verður ekki hamingjusamur. Sá sem finnur gleðina, nemur ekki umhyggjuna, hefur glatað skjóli fjölskyldunnar um stundarsakir. En sá sem er í essinu sínu er heima.
Mín fyrstu viðbrögð þegar ég las þetta voru að ég marglas orð hans þar sem segir:  Sá sem fær ekki að vera sá sem hann vill vera verður ekki hamingjusamur. Eftir að hafa lesið þessi orð hans nokkrum sinnum, skrifaði ég hjá mér svar mitt á spássíu bókarinnar: Nei, hamingjan felst í því að vera sátt/ur með það sem maður á eða er.  En nú þegar ég hef lesið þessi orð hans oftar, spyr ég mig, hvort verið geti að kjarninn felist í því að við þurfum að vilja vera það sem við erum, til að geta verið hamingjusöm. Þetta nefni ég hér sem dæmi um þá ótal möguleika sem umræða um þjóðgildin getur leitt af sér, bara ef við þorum að orða hlutina, rétt eins og hún Marta gerði þegar Jesús heimsótti hana og Maríu:
Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.
Jesús svaraði:
Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.
Tökum okkur tíma í samtal, hugleiðingar um það hvernig samfélag við viljum vera, veljum góða hlutskiptið. Látum hversdagsstörfin ekki afvegaleiða okkur frá samtalinu. Þetta orðar Gunnar Hersveinn ágætlega þegar hann segir (bls. 12):
Tímaskortur gefur fáviskunni tækifæri til að láta ljós sitt skína.
Sjáumst á umræðukvöldum í Glerárkirkju – öll mánudagskvöld í febrúar og mars 2011.