Vitjunartími

Vitjunartími

Myndlíkingin um leirkerasmiðin og leirkerið er talandi um stöðu okkar gagnvart Guði, að vera háð honum en vilja það ekki. Röklega endum við með því að segja að allir menn hafa sömu stöðu en í tilbeiðslu Jesú Krists opnast leið.

Ein athyglisverðasta myndlíking sem dregin er upp í Biblíunni er að finna hjá Jeremía spámanni. Það er spámannlegur gjörningur sem fer fram. Guð leiðir Jeremía inn í smiðju leirkersmiðsins þar sem hann er að verki við hjólið. Orðin eru vandlega valin: “Mistækist kerið, sem hann var að búa til, þá bjó hann aftur til úr því annað ker, eins og leirkerasmiðnum leist að gjöra.” (Jer. 18:4). Það sem er svo merkilegt við þessa mynd er að í henni sér spámaðurinn samband Guðs og þjóðarinnar: “Get ég ekki farið með ykkur eins og þessi leirkerasmiður...? ... Sjá, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins, svo eru þér í minni hendi.” (v. 6). Myndin vekur tvöfaldar tilfinningar, annars vegar ógn að vera eins og leir í hendi Guðs, og hins vegar öryggi að mega fela sig í hendur Guðs. Þannig er okkur rétt lýst, mönnum, sem stöndum frammi fyrir almáttugum Guði. Það er sú mynd sem Biblían dregur upp í þessum orðum og yfirleitt.

I. Vitjunartími Guðs snýst um gæfuna

Við erum algjörlega háð Guði eins og myndin af leirkerinu í höndum leirkerasmiðsins sýnir augljóslega. Það eru til harla ólíkar hugmyndir um samband Guðs við sköpunina en hin Biblíulega kennir að við erum háð Guði ekki aðeins frá upphafi heldur hverja stund, hvert augnablik er gjöf Guðs, hver andardráttur er lífgjöf Guðs, hvert hjartarslag náðargjöf hans. Við fáum ekki réttar víddir í umræðuna um Guð Jesú Krists fyrr en við áræðum að setja okkur í þessi spor að eiga allt undir Guði. Það er líka þess vegna sem þakklætið til Guðs er grunntónn í kristinni trú eins og undirgefnin er grunntónn í Íslam. Einn áhrifaríkasti guðfræðingur á 19. öld leiddi út alla guðfræði frá tilfinningunni að vera háður Guði. Jeremía segir það með orðunum um heimsóknina í hús leirkerasmiðsins.

Það er önnur hlið á þessu máli sem fær á sig skoplegar hliðar í Biblíunni, leirinn er ekkert sérstaklega höndlanlegur. Páll postuli dregur upp sömu mynd með þessum orðum:

"Hver fær staðið gegn vilja hans? Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: Hví gjörir þú mig svona? Eða hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar?" (Róm. 9:19-21).
Spurningin felur það í sér að mennirnir andmæla vilja Guðs. Það er dauðans alvara þó að hið skoplega sé dregið fram. Kristindómurinn er gegn örlagahyggju. Vilji Guðs fær ekki framgang af sjálfu sér, mennirnir geta staðið gegn vilja hans. Það er ekki gæfulegt. Við finnum kannski til þess og þekkjum að við viljum helst ekki þurfa að beygja okkur fyrir öðrum vilja. En það sem er ógnvekjandi er að við viljum heldur ekki þegjandi og hljóðalaust beygja okkur undir Guðs góða vilja sem er gæfa okkar og heill.

Þegar náin ástvinur deyr vakna þessar spurningar sterkari en ella: Hvers vegna gerir Guð mér þetta að taka ástvin minn frá mér? Það er ekki allt skynsamlegt sem menn hugsa við slíkar aðstæður heldur er það hjartans mál sem skiptir okkur meiru þegar á reynir. Nú liggur það fyrir okkur öllum að deyja. Það kemur að síðasta andartakinu. Í mínum huga vaknar spurningin til Guðs: Hvers vegna gerir þú mig dauðlegan? Þá reynir verulega á trú okkar hvort við trúum því að við séum jafn háð Guði í dauðanum eins og í lífinu. Ef við trúum því að Guð sé skapari okkar og sá sem hefur okkur í hendi sér, þá er það huggun okkar að fela okkur í hans hendur á banastundinni. Þannig ættum við þá allar stundir að fela okkur honum þegar við förum í ferðalög á sjó eða á landi, í byrjun dags og að kvöldi, eins og lengi var tíðkað í landi okkar. Kvöldbænin var áminning um endi lífsins ekki til þess að gera menn bölsýna heldur til að menn væru meðvitaðir um raunveruleika lífsins, finndu til þess að vera menn með sér æðri Guð, sem gæfi þeim hverja stund lífsins.

Biblían talar um vitjunartíma þegar Guð er nálægur okkur, stundir, sem verða afgerandi fyrir líf okkar og framtíð. Því er þannig farið að eilíf velferð okkar getur oltið á stuttri stund, augnabliki, þess vegna. Ég veit ekki hvort ég tjái mig nógu skýrt, allt líf okkar, hver stund, er frammi fyrir augliti Guðs. Það er afstaða kristins manns að taka hverri tíð með þökk og fela sig Guði á vald til hinstu stundar.

II. Ábyrgð mannsins og hjálpræðisverk Guðs

Í guðspjalli dagsins grætur Jesús yfir Jerúsalem, yfir þjóð sinni, vegna þess að hún þekkti ekki sinn vitjunartíma. Það er margt líkt með Jesú og Jeremía. Báðir voru þeir spámenn, sendir til þjóðar sinnar á erfiðum tíma. Jeremía á dögum herleiðingarinnar til Babílónar en Jesús sá fyrir fall Jerúsalem sem átti sér stað árið 70 e. Kr. Þó er umtalsverður munur á þeim. Jeremía vissi að boðskapur hans var afgerandi í stöðunni en Jesús sá sjálfan sig sem hina afgerandi stund í sögu Jerúsalem. Hann hreinsaði musterið með orðunum: “Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli.” (Lúk. 19:45). Hann kenndi í helgidóminum og allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann (v. 47, 48). Þegar Jesús talar um vitjunartíma Ísraels var það með komu sinni. Hann var hin afgerandi stund í lífi þjóðarinnar eins og hann er það í lífi hverrar þjóðar síðan. Við lifum tíma sem eru afgerandi í sögu okkar þjóðar. Viljum við hafa Jesúm Krist sem hornstein okkar samfélags eða er hann okkur hrösunarhella sem við föllum um? Er kirkjan bænahús eða eitthvað allt annað?

Það er líklega ekki liðin tíð að Guð hnoði upp leirinn. Ég er ekki mikill spámaður en það þykist ég sjá að kirkjan og þjóðin er að ganga í gegnum eitt slíkt tímabil. Ég efast um að í nánustu framtíð upplifum við eitthvað svipað og Ísrael í herleiðingunni eða við eyðileggingu Jerúsalemar, en erfiðir tímar fara í hönd, þegar kristnir menn verða að halda vöku sinni, svo að þeir glati ekki fjöreggi sínu. Forfeður okkar sem börðust fyrir stjórnarskrá, lýðræði og frelsi voru innblásnir af kristinni frelsishugsjón. Það voru gæfuspor þjóðarinnar. Það er ekki úreltar röksemdir að halda fram kristnum sjónarmiðum í þjóðmálum. Það þarf ekki að enda í öfgum. Ein af grundvallarforsendum trúarinnar er að hún kallar menn til ábyrgðar fyrir tímanlegri og eilífri velferð sinni. Það er einn af þáttunum í myndinni um leirkerasmiðinn og hryggð Jesú yfir Jerúsalem. Þú sem hér situr berð ábyrgð á sjálfum þér og samfélagi þínu gagnvart Guði. Þess vegna kemur velferð náunga þíns þér við. Það eru þessi sjónarmið sem virðast vera víkjandi í íslensku samfélagi bæði varðandi heilsugæslu og menntamál. Og ég hef það á tilfinningunni að Jesús grætur yfir því. Guð vitjar okkar oftast í lítilmagnanum, barninu og þeim þurfandi. Það verður alltaf persónulegt andsvar þar sem maður verður að gefa af sér. Við leysum ekki mál með góðum samþykktum, skipulagi og stofnunum, það þarf meira til, Kristur kallar okkur til að vera til staðar, gefa af okkur sjálfum eins og hann gerði meðal meðbræðra og systra. Það sem ég á við er að ef þú átt barn þá gefðu því líf þitt, elskaðu það skilyrðislaust, vertu því ást Guðs. Ég er ekki að tala um einhverja loftkastala heldur lífið. Og því miður held ég að það sé líka víkjandi í íslensku samfélagi, lífið, sem Guð vill.

III. Glíman við Guð er í tilbeiðslu

Í fyrstu þremur köflunum í Rómverjabréfinu er dregin upp dökk mynd af mannkyninu. Það stafar ekki af bölsýni á lífið og möguleika mannsins heldur á raunsæi á skuggahliðum mannlífsins sem koma fram í ljósi Guðs. Kristindómurinn er raunsæ trúarbrögð fram yfir önnur vil ég fullyrði sem stafar af því ljósi Guðs er opinberast í Kristi. Í lok þessara kafla í Rómverjabréfinu er komist að niðurstöðu: "Ekki er neinn réttlátur, ekki einn. Ekki er neinn vitur, ekki neinn sem leitar Guðs. Allir eru fallnir frá, allir saman ófærir orðnir. Ekki er neinn sem auðsýnir gæsku, ekki einn einasti." (Róm. 3:10-12). Hér er vitnað í Davíðssálma. Svo ályktar hann. Því verður ekki troðið upp á Guð að hann fari fram á of mikið af mönnum eins og margir hafa reynt að gera. Mennirnir verða taka alla ábyrgð á því að heimurinn er ekki eins og Guð hafði hugsað sér. Lögmálið er gott. Ef allt væri með felldu ættu mennirnir að fara eftir því en þannig er því ekki varið, því miður. Páll postuli segir:
"Vér vitum, að allt sem lögmálið segir, það talar það til þeirra sem eru undir lögmálinu, til þess að sérhver munnur þagni og allur heimur verður sekur fyrir Guði, með því að enginn lifandi maður réttlætis fyrir honum af lögmálsverkum. En fyrir lögmál kemur þekking syndar" (Róm 3:19-20).
Þar með er það sagt sem við kunnum svo illa við að mannúð okkar er takmörkuð, blekkingin er yndi okkar, vegna þess að orð Guðs segir sannleikann um raunveruleika okkar að við erum sek. Ástæðan er ekki eins og sum skáld okkar hafa meint að það sé vitlaust gefið eða að Guði hafi orðið á í sköpun sinni. Það er rökskekkja og ein blekkingin enn. Ábyrgðinni er lýst á hendur okkur: "Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina sem er í Kristi Jesú." (v. 23).

Í Rómverjabréfinu er að finna myndina af leirkerasmiðnum eins og ég hef vitnað til (Róm. 9:19-21). Í þessari rökleiðslu kemst Páll postuli í þrot eins og heimspekingar koma að takmörkunum sínum. Trúarbragðahöfundar standa hér á þröskuldi himins og jarðar. Ályktanir Páls ná þó svo langt sem hægt er að ná röklega. Menn bera fullkomna ábyrgð á tímanlegri og eilífri velferð sinni gagnvart Guði. Engum hefur tekist að standa undir þeirri ábyrgð. Þess vegna hefur enginn efni á að dæma annan, allir, hvort sem eru gyðingar eða grikkir, múslímar eða kristnir, konur eða karlar, ríkir eða fátækir, hafa brotið boðorð Guðs, hafa vikið af gæfuleiðinni.

Þegar rök hugans þrjóta taka rök hjartans við. Páll lýkur rökleiðslunni í tilbeiðslu á Jesú Kristi, Drottni okkar. Hann viðurkennir að hugur hans ræður ekki við leyndardóminn sem samskipti Guðs við menn eru. Hann endar með orðunum:

“Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakanlegir dómar hans og órekjandi vegir hans! ... Því að frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.”
Ég hef ekki lokið ræðu minni ennþá! Það er ástæða fyrir því að þessum orðum er hnýtt aftan við hverja ræðu úr ræðustól.

IV. að hvíla í Guði, eins og barn að kvöldi, eins og maður á dánarbeði sínu

Það er í því að við tilbiðjum Jesú Krist að okkur skilst eins og hægt er að Guð er á meðal okkar. Hann er með okkur í brostinni tilveru okkar, brotunum mörgu og takmörkunum. Í honum skiljum við dýpstu rök tilverunnar sem eru að á bakvið allt er hjarta sem slær, hjarta, sem elskar, vill okkur vel. Hann hefur gengist undir ábyrgð okkar að vera maður, sannur og alfullkominn maður í Jesú Kristi. Í trúnni á hann eigum við allt með honum, réttlæti hans, ást Guðs, barnaréttinn. Í trausti til hans getum við falið börnin okkar í hans forsjá að kvöldi eins og við getum sjálf á hinstu stund lagt okkur í hendur hins mikla myndasmiðs, sem er að skapa nýjan himinn og nýja jörð.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.