Er trúin tabu?

Er trúin tabu?

Viljum við afhelga íslenskt samfélag nútímans? Getum við hugsað okkur guðlausa veröld? Er það þjóðinni fyrir bestu núna? Leggja af allt sem minnir á kristna trú og þjóðararfinn, að trúin verði hornreka einkamál, aðventa, jól, páskar, hvítasunna,-allt án trúar, en tilefnislausar hátíðir þar sem mennskan getur dáðst að sjálfri sér?

Ó, guð vors lands. Ó, lands vors Guðs, vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá. Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf, sem að lyftir oss duftinu frá.

Ó vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf vor leiðtogi í dagana þraut og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf og vor hertogi á þjóðlífsins braut. Íslands þúsund ár verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, sem þroskast á guðsríkisbraut. – Amen.

Þessi bænarorð eru þriðja og síðasta erindið í þjóðsöngnum okkar. Og þetta er boðskapurinn sem sameinað hefur þjóðina í einum sið allt frá því að Þorgeir, Ljósvetningagoði, kvað upp úr á Alþingi á Þingvöllum árið 1000 um kristnitökuna. „Höfum allir ein lög og einn sið“. Þess vegna gat sálmaskáldið okkar, sr. Einar Sigurðsson, ort sex öldum síðar:

Hef ég til vitnis himin og jörð, að hvörn mann uppá á minni, unga og gamla af Íslands hjörð sem er hér fæddur inni, vér þökkum Guði fyrir þessa gjörð, þó svo aldri linni, að þetta eyland aumt og kalt, orðið Guðs nú blómgar allt með mjúkri miskunn sinni. Og þess njótum við nákvæmlega núna og leggjum okkar að mörkum af einum sið: „orðið Guðs nú blómgar allt með mjúkri miskunn sinni“. Af því að aðventan er gengin í garð og við horfum fram til heilagra jóla. Þá tökum við undir með sálmaskáldinu og „þökkum Guði fyrir þessa gjörð“. Aðventan er rótgróinn kristinn siður. Oft nefnd jólafasta og vísar til fjólubláa litarins sem umvefur þennan tíma kirkjuársins og merkir undirbúning og afturhvarf, iðrun og fyrirgefningu og nærist af heilögu orði guðspjallsins þar sem Jesús segir: „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins“. Þetta er einmitt siðurinn sem Þorgeir, Ljósvetningagoði, bað um að myndi sameina þjóðina í friði um ein lög, og sálmaskáldið okkar frá Heydölum þakkar fyrir og biður, að orðið Guðs nú blómgi allt með mjúkri miskunn sinni, og þjóðskaldið meitlar inn í sjálfan þjóðsönginn, að lands vors Guð sé vort ljós og líf svo hér megi verða gróandi þjóðlíf með þverrandi tár sem þroskast á guðsríkis braut. Er núna efast um þetta? Hefur reynsla aldanna sannfært okkur um, að eitthvað annað sé betra? Í bæjarfélagi í Danmörku, þar sem muslimar eru í meirihluta sveitarstjórnar, var tekist á um það hvort setja ætti upp jólatré á torgi bæjarins og borga fyrir af almannafé. Væri sveitarfélagið þannig að taka opinbera afstöðu með einum trúarsið umfram annan? Á Íslandi var tekist á um það varðandi grunnskólana á höfuðborgarsvæðinu hvort eitthvað mætti hafa þar fyrir börnum sem minnti á kristna trú af virðingu við þau sem væru annarrar trúar eða við svokallað trúleysi. Þá hefur Ríkisútvarpið skert flutning bænarorðs í dagskrá sinni og valdið mörgum vonbrigðum auk þess að vera fáort í fréttaflutningi sínum af gróskumiklu kirkjustarfi, en er mjög umhugað um það innan kirkjunnar sem gæti hneykslað. Getur kristinn trúararfur orðið tabu á Íslandi nútímans vegna virðingar við börnin eða trúleysið? Hvað er það í kristinni trú sem ógnar velferð barna? Er það boðskapurinn sem þjóðskáldið skráir í þjóðsönginn og mótar siðinn sem Þorgeir, Ljósvetningagoði, setti þjóðinni sem grundvöll laga og friðar og sr. Einar í Heydölum þakkar fyrir? Er það ekki einmitt í kristna trú sem við höfum sótt viðmiðin til grundvallar lögum um helgustu mannréttindi og ekki síst í þágu barnanna? Viljum við afhelga íslenskt samfélag nútímans? Getum við hugsað okkur guðlausa veröld? Er það þjóðinni fyrir bestu núna? Leggja af allt sem minnir á kristna trú og þjóðararfinn, að trúin verði nákvæmlega hornreka einkamál, ekki samfélagssiður, aðventa, jól, páskar, hvítasunna, - allt án trúar, en tilefnislausar hátíðir þar sem mennskan gæti dáðst að sjálfri sér. Enginn skortur er þó af slíkum upphafningum í nútímanum, um það sjá fjölmiðlarnir rækilega, þó afdrifaríkastir fyrir örlög mennskunnar séu atburðirnir, þar sem maðurinn lýtur lægst með misgjörðum sínum, spillingu, eyðingu og græðgi. Um það vitnar sagan og er enn að gerast. Til vitnis um það er að kostnaður við vígbúnað í heiminum í hálfan dag dugar fyrir öllum rekstrarkostnaði SÞ í heilt ár. Á meðan er fátæktin og örbirgðin á meðal margra yfirþyrmandi, en valdið í heiminum lætur sér fátt um finnast. Þess vegna þráir maðurinn um fram allt að eiga von og ekki síst að mega deila þessari von með samferðafólki, að eiga vonina saman sem þjóð, eiga von um farsæld, frið, gæsku. Sama hvað á gengur, þá er von, ekki bara einhver von, heldur von sem af bjargi reynslunnar er byggð. Von sem huggar og græðir, von sem getur ræktað fegurð og frið og er líka frumglæðir til góðra verka og framfara. Og hvar hefur íslensk þjóð leitað vonar, þegar mest er í húfi? Til lands vors Guðs. Það hafa ekki aðeins bókmmenntirnar, myndlistin og tónlistin skráð í verkum sínum, heldur fólkið í landinu með daglegu lífi sínu og háttum. Þess vegna glæðir fólkið í landinu aðventuna sína og jólin trúarlegu inntaki með áþreifanlegum og táknrænum hætti, bæði persónulega og í samfélagi. Setur upp skraut og muni með tilvísunum inn í tilefni hátíðinar, kemur saman á fjölskyldu-og vinamótum, ræktar ást og frið af því að það felst í hinum kristna boðskap sem umvefur allt. Að elska og vona. Og sjálfsagt þykir, að allt hið opinbera líf geri það líka, þrátt fyrir að fólk sé á meðal okkar annarrar trúar, af því að á Íslandi er siður sem nærist af kristinni von í lifandi trú sem reynst hefur þjóðinni vel. Jesús sagði: „Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum mun og mannsonurinn kannast við fyrir englum Guðs“. (Lúk. 12.) Ég frétti af fermingarbarni í fermingarbúðunum á Eiðum sem var spurt af jafnaldra sínum utan dagsrkár í vinahópi: „Trúir þú í alvöru á Guð“? Og barnið svaraði af djörfungar einlægni: „Já, ég geri það og bið Guð um hjálp til þess“. Málið var ekki frekar rætt, en virðingin sem þessi einlæga hjartans játning hafði í för með sér varð viðstöddum ljós. En það, sem þessi játning um fram allt tjáir, er þrá eftir að eiga heilaga og rótfasta von sem felur í sér ást og frið. Ekki vegna þess að trúin vilji slá eignarhaldi sínu á allt sem er fallegt og gott, heldur vegna þess að Guð hefur staðfest þá lifandi von í upprisu Jesú Krists frá dauðum og maðurinn reynt með lífi sínu. Hefur íslensk þjóð enn þrek og burði til að kannast við Jesú Krist fyrir mönnunum? Þegar hátíðir eru um garð gengnar, er þá trúin orðin að femnismáli eða persónulegu einkamáli eins og stundum þykir fínt að taka til orða? Rúmast kristinn siður ekki innan þess sem nefnt er fjölmenning? Það er einmitt hinn kristni siður sem opnar faðminn á móti öllum, hvernig sem aðstæðum er háttað, og hverrar trúar sem maðurinn er, litar, uppruna eða stöðu. Kristin trú boðar frelsi, en fjötrar ekki, og elskar án skilyrða. Hér á landi hefur kristinn siður alltaf byggst á umburðarlyndi og frelsi, ekki á boðum og bönnum eða undirgefni og hlýðni En það merkir ekki, að trúin láti ráðskast með sig af hvers kyns öfgum né lætur hrekjast undan eða biðst afsökunar á tilveru sinni. En á ekki neitt skylt með því, þegar trúin er misnotuð af mönnum til að helga meðal og tilgang til vondra verka. Það er ekki samkvæmt orði Guðs, heldur vitnisburður um ágirnd mannsins um að verða sjálfur Guð á jörð. Slíkar tilraunir hafa alltaf endað með skelfingu Þjóðin hefur valið og viljað rækta gróandi þjóðlif og þroskast á guðsríkis braut. Íslensk menning er svo stór og víð, að hún rúmar það allt, virðir og af nærist, ekki aðeins vegna þess að þetta er arfur sögunnar og grundvöllur hefða og laga, heldur vegna þess að hér er siður sem þjóðin á í hjarta sínu. Það er af þeirri hjartans einlægni sem aðventan nærist með Guðs orði þar sem blómgast trú, von og kærleikur. Því „orðið Guðs nú blómgar allt með mjúkri miskunn sinni“. Amen.