Föst í rammanum

Föst í rammanum

Spurning dagsins í dag er: ,,Hvað er mikilvægara, ramminn sem við erum vön að sé til staðar utan um líf okkar eða manneskjan sjálf?” Við verðum að spyrja okkur hvort að kerfin sem við höfum komið okkur upp til að styðja við manneskjuna á lífsleiðinni séu orðin mikilvægari en manneskjan sjálf!

Spurning dagsins í dag er: ,,Hvað er mikilvægara, ramminn sem við erum vön að sé til staðar utan um líf okkar eða manneskjan sjálf?” Við verðum að spyrja okkur hvort að kerfin sem við höfum komið okkur upp til að styðja við manneskjuna á lífsleiðinni séu orðin mikilvægari en manneskjan sjálf!

Jesús læknaði á hvíldardegi. Samkvæmt lögmálinu áttu allir að halda hvíldardaginn heilagan, meðal annars með því að hvílast frá allri vinnu. Jesús lét það ekki á sig fá. Hann læknaði og líknaði, burtséð frá því hvaða dagur var. Hann var ekki fastur í kerfinu, hjá honum var manneskjan í fyrsta sæti. Fyrir það að setja manneskjuna í fyrsta sæti litu margir á Jesú sem lögbrjót og uppreisnarmann.

Jesús sýndi í verki að kærleikurinn væri lögmálinu æðri. Hann boðaði að auðmýkt og lítillæti væri meira vert en stærilæti og sjálfsánægja. Hann boðaði að konur væru jafngildar körlum og hann boðaði jafnræði ríkra og fátækra. Öll stönguðust þessi boð á við hugmyndir samtíðarmanna hans, sem töldu meðal annars að í lögmálinu mætti finna leiðbeiningar um breytni í hverjum þeim aðstæðum sem maðurinn rataði í. Lögmálið væri ósveigjanlegt. Ég spyr mig hvort að ég ætti svör á reiðum höndum. Spyr mig hvort að ég hafi meðtekið boðskap Jesú á þann hátt að ég þori og kunni að breyta eftir honum! Nei, ég er engu betri. Mér hættir til að festast í kerfinu.

Jesús setti fordæmi fyrir okkur öll sem kristin erum. Hann braut reglur lögmálsins ef þær stóðu í vegi fyrir velferð manneskjunnar. Jesús var tilbúinn og reiðubúinn að þjóna öðrum. Hann lagði sig fram við að hjálpa manneskjunum sem urðu á vegi hans. Jesús lagði allt undir og gaf líf sitt í sölurnar á krossi.

Sem kristin kirkja og kristnir einstaklingar reynum við að fylgja fordæmi Jesú, rétta hjálparhönd og þjóna eftir því sem við höfum burði til. Og Jesús er okkur meira en fyrirmynd. Hann er sá sem við trúum á og hann er sá sem gefur okkur þróttinn. Við komumst ekki langt ef við reynum í eigin mætti að hjálpa, líkna, styðja, hugga ... Sjálfur trúi ég því að þegar ég er í þeirri stöðu að ganga eftir lífsveginum með manneskju sem þarf á stuðningi að halda þá sé ég kærleiksverkfæri í Guðs hendi.

Kærleikurinn er einmitt meðal hinna kristnu dyggða sem Páll telur upp í bréfi sínu til Efesusmanna. Hugmyndin ,,kristinn kærleikur” var svo óvenjuleg að finna þurfti nýtt grískt orð yfir fyrirbærið. AGAPE sem þýðir í raun óbugandi góðvild. Við viljum þeim sem við elskum á þennan hátt einungis hið besta, burtséð frá framkomu þeirra við okkur. Þennan kærleik sáu lærisveinarnir og fólkið allt endurspeglast í lífi, starfi og framkomu Jesú Krists. Og þessi kærleikur er grundvöllur þjónustunnar, kærleiksþjónustunnar.

Þessi þjónusta má aldrei verða einskorðuð við þá þjónustu sem kirkjan sem stofnun veitir. Það er köllun hvers kristins einstaklings að þjóna náunganum eins og hann væri Kristur, að þjóna náunganum eins og Kristur gerði, að sjá Krist í sérhverjum samferðarmanni og að vera sérhverjum samferðamanni Kristur. Megi kærleiksríkur Guð gefa okkur styrk og þor til þess.