Lykillinn er bænin

Lykillinn er bænin

Það er deginum ljósara, eins og frelsarinn heldur fram, að hið illa færi aldrei að vinna gegn sjálfu sér, eins sjálfmiðlægt og það nú er, það myndi aldrei reka sig sjálft út, því það er einlægur vilji þess að ríkja og ráða, það þráir vald einkum til þess að upphefja sjálft sig, en ekki til þess að huga að velferð annarra.

Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.

Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðru kyn, hvernig getið þér, sem eruð vondir, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.

En ég segi yður: Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi. Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða. Guðspjallið: Mt 12.31-37

“Dæmið eigi og þér munuð eigi dæmdir verða,” eru djúpvitur orð Jesú Krists, þar höfum við stóran sannleika, sem við megum þiggja úr hendi hans, sem allt vald hefur á himninum og jörðinni.

Þessi upphafsorð Frelsarans sækja á hugann þegar um samskipti Farísea og Krists er fjallað, nema hvað Kristur afhjúpar dæmendur og hefur innistæðu fyrir því ólíkt breyskri mannskepnunni, hinn syndlausi Kristur afhjúpar og opinberar hugarheim syndarans með orði sínu og anda á sama hátt og kærleikurinn afvopnar hatrið og grimmdina. Farísear tala um guðlöstun þegar þeir gagnrýna Jesú. Þannig fela þeir sína eigin guðlöstun með því að kalla hann guðlastara.

Jesús fær okkur til að sjá í gegnum slíkan feluleik, og það sýnir ljóslega þá staðreynd að þegar við setjum okkur í dómarasæti, erum við oftar en ekki að beina sjónum annarra frá eigin vanköntum og jafnvel eigin vanlíðan. Þess vegna hljóta Farísear litla samúð þeirra, sem fylgjast með samskiptum þeirra við Guðssoninn, og þess vegna eru Farísear mjög mikilvægur hlekkur í allri atburðarrás Biblíunnar, því í Faríseunum hittum við okkur sjálf fyrir.

Það er hollur lærdómur að skoða og kannast við samskiptamynstur Farísea og Jesú, því þar lítum við í spegil, sem gerir okkur tvímælalaust, að heilsteyptari og betur meinandi manneskjum þ.e.a.s. ef okkur lánast að koma auga á það hvernig Jesús mætir dæmandi börnum sínum.

Það er m.a. alveg stórbrotið að sjá hvernig Jesús með sterkri rökræðu sinni og hreinni hugsun fær Farísea til að horfast í augu við fordóma sína. Hvað það væri stórkostlegt að hafa, þó ekki væri nema brot af þeirri snilld, í um margt ögrandi og krefjandi umræðu nú á tímum, þar sem margvísleg rök leggja sig fram um að knésetja lífsins boðskap er leggur grunninn að mannbætandi og farsælu samfélagi. Það þarf reyndar ekkert að trufla nokkurn boðbera kristninnar að eiga ekki til brot af ræðusnilld Krists, því það er Orðið hans, sem talar og stendur eilíflega fyrir sínu.

Hvað umrædda snilld snertir skulum við taka dæmi af umræðu Jesú og Farísea um illan anda. Undanfari þeirra orða, sem við heyrðum í guðspjallinu hér í dag, var sá að Jesús var að reka illan anda úr manni sem var honum haldinn og að auki blindur og mállaus. Maðurinn sá fékk málið og nýja sýn.

Farísear heyrðu það og gripu um leið tækifærið og héldu sem fyrr fram að sá sem ræki út illan anda væri handgenginn djöflinum. Í huga þeirra og reglubókum voru þeir sem orðaðir voru við Beelsebúl, þ.e. höfðingi illra anda, dæmdir til að vera opinberlega grýttir.

Þegar Jesús fær á sig orrahríð Faríseaflokksins, fellur hann ekki í þá gryfju að detta inn í sjálfsvörnina, hann fer ekki að færa rök fyrir sakleysi sínu, nei hann sækir fram og tjáir sig um hið illa eðli.

Það er deginum ljósara, eins og frelsarinn heldur fram, að hið illa færi aldrei að vinna gegn sjálfu sér, eins sjálfmiðlægt og það nú er, það myndi aldrei reka sig sjálft út, því það er einlægur vilji þess að ríkja og ráða, það þráir vald einkum til þess að upphefja sjálft sig, en ekki til þess að huga að velferð annarra. Af þessu er því ekki hægt að draga aðra ályktun en þá, að hið góða er að verki þegar illur andi er rekinn út, þar höfum við staðfestingu á tilvist Guðsríkis, sem er kjarnaatriðið í boðun Jesú og liggur eins og rauður þráður í gegnum alla ritninguna.

Ef nefnd umræða er færð yfir á fyrirbrigðið baktal, en það tek ég sem dæmi, því það er margri manneskjunni kunnuglegt og ósjaldan notað í afmörkuðu samfélagi, að þá er slíkt tal sjaldnast marktækt, því þar er iðulega verið að svala útrás fyrir eigin gremju og vanlíðan. Í því felst sjálfsréttlæting á kostnað annarra og það er fjarri því að eiga nokkuð skylt við kristinn boðskap. Baktal á sér þess vegna illa rót og ef það fær að blómstra, vaxa og dafna getur það umbreyst í eineltis og fordómaskrímsli, sem eyðir og deyðir.

Þess vegna ættu þau ekki að koma á óvart orðin sterku frá Jesú er hann segir: “Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi. Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða” og postulinn styður við og mælir: “Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir. Gefur lindin úr sama uppsprettuauga bæði ferskt og beiskt vatn? Máttur orða er mikill, þau þarf að vanda vel og velja, það getur verið auðvelt að láta þau af vörum falla, en það er þeim mun erfiðara að draga þau til baka.

Það má vera bæn okkar allra alla daga að Kristur dæmi dóma og ónytjuorð okkar, því þá fáum við notið þeirra forréttinda að lifa í ljósi réttlætis, sannleika og kærleika. Af hverju ættum við ekki, af veikum mætti, að gera tilraun til þess að sjá ríki Guðs, hið góða, út úr umræðum og samskiptum Farísea við Mannssoninn, því þar birtist veikur grunnur óábyrgra og illa ígrundaðra orða og dóma mannanna?

Hafa má það hugfast, fyrst Frelsarinn og postulinn nota svo áhrifarík og yfirgnæfandi orð í þessu samhengi, að þá er ljóst að þau eiga að ná til okkar, festast í vitund okkar og þau ber að framkvæma í því ljósi til blessunar.

“Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.” Í Markúsarguðspjalli spyrja lærisveinar Jesú hann ráðalausir hví þeir hefðu ekki getað rekið út illan anda. Svar Jesú er bænin. Nöðrukynið, freistarakynið, verður ekki burt rekið nema með bæn. Þar með höfum við ákveðinn lykil í höndum, sem við getum nýtt okkur.

Bænahugur er kærleikshugur, sem getur af sér góð orð, góða ávexti, sem afhjúpa hið illa og þegar hið illa er afhjúpað, þegar sjálflægni þess verður öllum ljós, stendur það ekki lengur fyrir nokkurn skapaðan hlut og hættir þess vegna að eiga sér stoð og hverfur. Hræsnin, hrokinn og fordómarnir þola ekki dagsbirtuna og fólk gerist fráhverft öllu slíku. Þess vegna er bænin lykillinn að ríki Guðs, lykillinn að hinu góða.

Bænaiðkun er þolinmæðisverk, bænina þarf að æfa, þjálfa og virkja, “að biðja sem mér bæri, mig brestum stórum á, minn herra Kristur kæri, æ kenn mér íþrótt þá, sr. Björn Halldórsson líkir bæninni við íþrótt, það er ekki vitlaus líking, því bænin krefst þjálfunar eins og hver önnur íþrótt.

Þeir sem skilja ekki þessa iðju, þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur, þeir þurfa í raun ekkert að skilja hana, bænin er yfir allan rökrænan veruleika hafin, við eigum bara að biðja, rétt eins og við eigum aðeins að trúa skv. orði Guðs. Spurningin um það af hverju ætti ég að biðja, af hverju ætti ég að vera að eyða tíma í slíkt er ónauðsynleg og tefur einungis fyrir, í hvað annars fer tími þinn?

Það dæmir sig strax sjálft þegar við reynum að biðja án þess að vera í raun að því, við finnum fyrir því strax, þá er gott að anda þrisvar og byrja aftur, gakktu fram fyrir auglit Drottins með þann hug að þú þiggur, krjúptu því þá finnur þú fyrir því að þú ert að ganga fram fyrir þann sem þekkir alla leyndardóma lífsins, þann sem lífið gefur og hefur dauðann á valdi sínu. Það skiptir máli að bera sig rétt að, rétt eins og það skiptir máli að slá rétt í höggleik eða standa rétt í hniti.

Hvað sem hver segir, að þá verður bænin þér ávallt til heilla, því með því að biðja reglulega og stöðuglega öðlast þú vissa hæfni í því að orða tilfinningar þínar og það sem liggur þér á hjarta. Þá megum við vita það að bænasamfélag er kærleikssamfélag, þar sem ekkert rými gefst fyrir ónytjuorð eða annað sem flokkast undir hið illa, til slíks samfélags eru allir komnir með það að markmiði að láta uppbyggjast og standa sterkari í trúnni.

Hver sá sem kemur með eitthvað annað og annarlegra að markmiði til þeirra stunda skýtur andann og við tökum eftir því að slíkt er ekki fyrirgefanlegt, því hið illa eðli hlýtur ekki náð fyrir augum hins almáttuga, hið illa eðli nýtur ekki velþóknunar hjá hinum almáttuga, það gerir hins vegar sérhver manneskja hvort sem hún ber í sér góðan eða illan anda, því sérhver manneskja á von fyrir dauða og upprisu Jesú Krists, sérhver manneskja hefur aðgang að bænalyklinum góða. Já, Guð hatar syndina en elskar syndarann, það er kunnur og sannur frasi.

Ég fæ þessa upplifun þegar ég tek þátt í fyrirbænastundum hér í kirkjunni á hverju miðvikudagskvöldi kl. 18.00. Það er dýrmætt samfélag, þangað sem allir eru hjartanlega velkomnir. Eins er það með allt það starf, sem kirkjan býður upp á og ég hvet ykkur öll til þess að fylgjast með því vetrarstarfi, sem í boði er í kirkjunni og fer nú senn að hefjast.

Héðan frá Seljakirkju fer innan tíðar safnaðarblað, sem kynnir vetrarstarf safnaðarins, sem er blómlegt og fyrir fólk á öllum aldri. Við skulum hafa allt það góða starf með í bænum okkar, að það leiði og laði þegna þessa lands til sín, svo ávöxturinn verði ríkulegur og góður.

Lykillinn er bænin. Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upplokið verða. Megi svo verða í nafni Jesú Krists. Amen.