Þú ert asni

Þú ert asni

Nú gæti einhver spurt: „Er það löglegt að kalla einhvern asna?“ - Ég vil spyrja: „Viljum við samfélag þar sem að við köllum hvert annað illum nöfnum?“

S5001654

Vel má vera að einhver hafi það álit á mér að ég sé asni. Ég get vel viðurkennt að sumt sem ég hef gert í gegnum tíðina hefur vissulega verið asnalegt. Auðvitað spyr ég mig, eins og margur, hvort ég sé asni?

Við sem vöfrum um veraldarvefinn, verðum þess vör að þar leyfir fólk sér að vera öllu ruddalegra í framkomu heldur en augliti til auglitis. Ekki er óalgengt að einhver sé kallaður asni. Oft þarf lítið til. Fyrr en varir er kominn fjöldi viðbragða. Þau sem bregðast við taka ýmist undir málflutninginn um að þessi eða hinn sé asni, eða tilheyra þeim örfáu sem mótmæla fjöldanum. Svo eru einstaka sem biðja um að umræðan sé flutt frá því að horft sé á hvort viðkomandi sé asni eða ekki, yfir á málefnalegra stig. Þar má spyrja hvort að þá teljist málefnalegt að ræða hvort umræddur gerningur hafi verið asnalegur?

Dæmin eru mýmörg um að hópur fólks tekur sig til og kallar ákveðinn einstakling illum nöfnum á netinu. Í dag skulum við leyfa hugtakinu ASNI að standa á táknrænan hátt fyrir öll þessi andstyggilegu uppnefni. Og ég leyfi mér að velta því fyrir mér, hver ábyrgð samfélagsins sé, sem jafnvel tekur undir hrópin og köllin, svart á hvítu: „Þú ert asni!“

Ef góður vinur minn segir við mig: „Pétur, þú ert asni“ þá veit ég yfirleitt hvernig ég á að taka því. Auk þess get ég spurt hvað hann eigi við og ég fæ heiðarleg svör. Ef ég tek þátt í leik þar sem kapp hleypur í fólk og einhver missir út úr sér „þú ert asni“ í hita leiksins, þá á ég að geta áttað mig á aðstæðum og komið í veg fyrir að ég taki þessi ummæli til mín persónulega. En ef ummælunum er beint til mín (ó)persónulega af fjölda fólks, jafnvel fólks sem ég þekki lítið sem ekkert, þá er ekki sjálfgefið að ég geti áttað mig á því hvað er í gangi. Það er jafnvel líklegt að ég fari að taka ummælin til mín, svona ómeðvitað að minnsta kosti.

Nú gæti einhver spurt: „Er það löglegt að kalla einhvern asna?“ og við gætum tekið miklar og langar umræður um það. Fært alls konar rök fyrir því að það megi ekki. Bent á að ekki megi ráðast á æru og mannorð fólks, eins og fram kemur t.d. í tólftu greininni í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna. Eða fært rök fyrir því að hér sé málfrelsi og vísað þá t.d. í nítjándu grein sömu yfirlýsingar. Í dag ætla ég að leyfa öðrum að taka þann slag.

Ég vil spyrja: „Viljum við samfélag þar sem að við köllum hvert annað illum nöfnum?“ „Viljum við að það sé í lagi að þú sért kallaður asni?“ Ég segi nei. Mér þykir það ekki í lagi. Ég vil sjá samtal milli fólks þar sem að við gætum þess að allt sem frá okkur fer sé uppbyggilegt. Í því samhengi er vert að hafa í huga að gagnrýni getur verið uppbyggileg – hún á að vera rýni til gagns. Við komumst ekki áfram, við náum ekki að bæta okkur, nema til komi gagnrýni. En nú er að læra að setja hana fram á slíkan hátt að hún nýtist til uppbyggingar, en verði ekki verkfæri sem aðeins dugar í niðurrifsstarfsemi.

Við okkur sem erum álitin asnar vil ég segja þetta: Jesús Kristur minnti sjálfur á, að hinir síðustu verða fyrstir (Mark. 10:31). Og á hvers herðar lagði hann ábyrgðina þegar hann reið inn í Jerúsalem? Það var asni sem fékk það hlutverk að bera Drottinn sjálfan inn í borgina.